09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4557 í B-deild Alþingistíðinda. (3928)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Rifjum aðeins upp hvernig þessi skattur var settur á. Hann var settur á með ákvörðun ríkisstj. sem var mynduð 1. sept. 1978 og ákvörðun um álagningu skattsins var tekin í stjórnarmyndunarviðræðum milli Framsfl., Alþfl. og Alþb. Það var þess vegna ekkert um það að ræða, eins og hæstv. fjmrh. orðar það, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða einhver önnur slík stofnun hafi áður heimilað að þessi skattur yrði lagður á. Sú stofnun var aldrei spurð um það, heldur var ákvörðunin tekin hér. Hún var tekin af þeim flokkum sem áttu aðild að myndun þeirrar ríkisstj. Um leið og skatturinn var lagður á var svokallaður ferðamannagjaldeyrir tvöfaldaður frá því sem áður hafði verið.

Þessar tvær ákvarðanir voru í rauninni mjög skynsamlegar og stuðluðu að eðlilegri vinnubrögðum í þessu efni en áður höfðu verið. Ekki var nein ástæða til þess að fella akkúrat þennan skatt niður á þessum tíma miðað við það hvernig staða ríkissjóðs virtist fyrirsjáanlega ætla að verða á síðari hluta ársins 1983 og komið hefur í ljós skv. upplýsingum núv. ríkisstj., að nú ekki sé minnst á þann vanda sem um er að ræða á árinu 1984. Þannig er hérna ekki spurningin um það hvort menn telji að þessi skattur sé góður eða vondur út af fyrir sig. Spurningin er um það hvort menn kjósa að halda þessum skatti og tryggja í staðinn tiltekna félagslega þjónustu eða hvort menn vilja fella þennan skatt niður og þá skera niður ákveðna félagslega þjónustu eða leggja í staðinn á annan skatt eins og hæstv. ríkisstj. er að tala um, þ. e. það sem rætt hefur verið um í blöðum, t. d. hækkun sjúkratryggingagjalds o. fl. í þeim efnum.

Ég minni á það að sú tekjuskerðing ríkissjóðs, sem þessi niðurfelling álags á ferðamannagjaldeyri hefur í för með sér, er upp á 160 millj. kr. Það er verulega miklu hærri upphæð en fer til uppbyggingar allra sjúkrahúsa í landinu og heilsugæslustöðva á þessu ári, 1984. Hér munar um þessa tölu, hún er stór í ríkisfjármáladæminu. Þess vegna er furðulegt að hæstv. fjmrh. skuli beita sér fyrir því sérstaklega að henda þessum tekjustofni út úr ríkissjóði á miðju ári 1983, en brbl. voru gefin út 29. júlí 1983.

Ég spurði hæstv. fjmrh. að því hvenær væri að vænta niðurstöðu af þeim heiftarlega ágreiningi sem er innan stjórnarflokkanna um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem hver höndin er upp á móti annarri og menn vita ekkert hvað þeir ætla að gera. Upplýsingar hæstv. fjmrh. eru þær að þeir eru að skrifast á, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., þeir eru að senda hvor öðrum bréf þessa dagana. Ég verð að segja að það eru nokkuð sérkennileg vinnubrögð í ríkisstj. landsins ef það er þannig að ráðherrar eru að senda hver öðrum bréf. Kannske eru það póstsamgöngur sem valda því að ekki er fyrr búið að ákveða þessa hluti, það hafi dregist svona að koma bréfunum á milli Arnarhvols og Stjórnarráðsins. Sagt er að hæstv. forsrh. hafi gert tillögur í þessu máli og sent til fjmrh. Það eru athyglisverð vinnubrögð í ríkisstj.forsrh. skuli taka tillöguvald í þessu efni af fjmrh. Það er nýlunda. Ég sat í tveimur ríkisstjórnum um nokkurra ára skeið. Ég man aldrei eftir því að það hafi verið annar en fjmrh. sem hafði frumkvæði að tillögugerð varðandi ríkisfjármál. Nú er vantraust núv. forsrh. og flokksbræðra fjmrh. á fjmrh. orðið slíkt að forsrh. er látinn gera till. og kannske hv. þm. Þorsteinn Pálsson hafi hjálpað honum að gera þær. Þannig eru vinnubrögðin orðin í ríkisstj. að búið er að taka tillöguvaldið af hæstv. fjmrh. í þessu máli. Hann nýtur ekki trausts lengur hjá sínum samstarfsmönnum úr Framsfl. og sennilega ekki úr Sjálfstfl. heldur. Það er hver höndin uppi á móti annarri og hæstv. fjmrh. er að velta því fyrir sér hvernig hann eigi að svara bréfinu frá Steingrími, hæstv. forsrh. Hann er ekki búinn að komast að niðurstöðu um það og hann segir eins og búið er að segja undanfarna daga: Þetta kemur bráðum, svarið er á næsta leiti. Það þýðir að ríkisstj. hefur gefist upp á því að koma fram með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir páskana. Það er ljóst. Þannig verður það verkefni vorþingsins að taka á þessum málum. Það er bersýnilegt að menn ætla að vera að gaufa með þetta fram eftir vori, fram eftir útmánuðum vegna þess að engin niðurstaða er fengin. Ekkert pólitískt samkomulag er í ríkisstj. í þessum efnum af einu eða neinu tagi. Nýlundan er sú að hæstv. fjmrh. er þarna settur út í horn og forsrh. tekur að sér að skrifa niður tillögurnar um lausnir á vandanum.

Hæstv. fjmrh. hefur gefið margar yfirlýsingar um ríkisfjármál. Ein er sú: Það verða ekki lagðir á skattar. M. ö. o., í tillögunum um ríkisfjármálaráðstafanir verða væntanlega ekki tillögur um skattabreytingar, eða hvað? Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann skipt um skoðun frá ítrekuðum yfirlýsingum sínum um það að skattar verði ekki hækkaðir? Er hugsanlegt að hann muni þrátt fyrir þessar yfirlýsingar leggja til skattahækkanir alveg á næstu dögum?

Hæstv. fjmrh. hefur líka sagt: Það verða ekki tekin erlend lán í þessu skyni. En ljóst er að halli á ríkissjóði, peningaprentun fyrir ríkissjóð gengur á gjaldeyrisforðann og rýrir nettógjaldeyrisstöðu landsins út á við. Ætlar fjmrh. að skera niður fyrir öllu þessu gati sem þarna er um að ræða eða með hvaða hætti er yfirleitt ætlunin að þetta verði gert miðað við þær yfirlýsingar sem þegar liggja fyrir frá hæstv. fjmrh.? Ég sé ekki að hann eigi í rauninni mjög marga kosti eftir ef hann ætlar að standa við yfirlýsingarnar. En það er kannske það sem hæstv. forsrh. er að skrifa honum bréf um núna, að reyna að reka ofan í kokið á honum þær yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson hefur verið að gefa. Það er kannske bréfið sem komið er frá forsrh., þar sé verið að reyna að leiðbeina fjmrh. og fá hann vinsamlegast til þess að éta ofan í sig allar þær yfirlýsingar sem hann hefur á undanförnum mánuðum gefið í ríkisfjármálum. Hæstv. fjmrh. ræðir um það í sífellu bæði nú og oft áður að hér sé um að ræða minni vanda en oft hafi verið í ríkisfjármálum á liðnum árum. Þetta er fullkomin fjarstæða. Aldrei hefur verið önnur eins staða á ríkissjóði og er nú á árinu 1984 undir forustu hæstv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar. Menn þurfa jafnvel að leita allt aftur til Matthíasar Á. Mathiesen til þess að finna jafnhroðalega stjórn á ríkisfjármálum og er um að ræða á árinu 1984. Er þá langt til jafnað þegar þarf að fara að bera saman við það ástand, en þá var ríkissjóður rekinn af náð Seðlabankans og Jóhannesar Nordals. Má segja að það komi vel á vondan að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson skuli vera kominn á Seðlabankaframfæri.

Hæstv. fjmrh. hefur iðulega lýst því yfir og sagði það fyrir áramótin aftur og aftur: Engar aukafjárveitingar á árinu 1984. Núna væri fróðlegt að vita hvernig staða þeirra mála er. Það er 9. apríl. Hafa verið heimilaðar aukafjárveitingar úr ríkissjóði til þessa? Hversu miklar? Eða hafa engar verið heimilaðar, eins og hæstv. fjmrh. lýsti yfir að yrði? Ég vil leyfa mér að spyrja ráðh. að þessu hvort hann hafi enn þá staðið fast gegn því að veita aukafjárveitingar. Er það svo að engin aukafjárveiting hafi komið það sem af er árinu? Ég vil leyfa mér að leggja þá fsp. fyrir hæstv. fjmrh.

Ég held að þetta mál, frv. til laga um afnám álags á ferðagjaldeyri, sé í rauninni mjög táknrænt fyrir vinnubrögð núv. ríkisstj., stjórnleysi á ríkisfjármálum og stjórnleysi á þinginu.

Í fjh.- og viðskn. Nd. sitja helstu leiðtogar stjórnarflokkanna, formaður þingflokks Framsfl., formaður og varaformaður Sjálfstfl. Þeim hefði átt að vera í lófa lagið að koma þessu máli frá sér fyrir mörgum mánuðum. En ósamkomulagið innan stjórnarliðsins hefur verið slíkt að menn hafa ekki einu sinni komið frá sér einföldum afgreiðslum og staðfestingum á brbl. Þegar málið er svo til meðferðar á hv. Alþingi er formaður fjh.- og viðskn., Páll Pétursson, ekki í salnum, hann hefur fjarvistarleyfi, eða er ekki svo? Varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Friðrik Sophusson, situr ekki inni í þinginu. Þannig eru þeir menn, sem með þessi mál hafa haft að gera í nefndinni fyrst og fremst í vetur, ekki hér til svara. Stjórnleysið er slíkt að þegar á að fara að taka fyrir mál af þessum toga og til afgreiðslu hér í Nd. hefur stjórnarliðið ekki meiri hluta í salnum til að koma málinu fram. Ljóst er að á fundi Nd. í dag hefur það aftur og aftur gerst að stjórnarliðið hefur þurft hjálp stjórnarandstöðunnar til að þoka málum fram vegna þess að stjórnarþm. hafa ekki verið nægilega margir í salnum. Hér er því um að ræða mál sem er einkar táknrænt fyrir vinnubrögð og stjórnleysi núv. ríkisstj., bæði á málameðferð og þinghaldinu öllu.