09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4559 í B-deild Alþingistíðinda. (3929)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er gaman að hlusta á hv. 3. þm. Reykv. blása út. Annað hefur hann ekki fram að færa á Alþingi en þennan útblástur sinn, sem er orðinn endurtekning á fyrri fullyrðingum. En mér þykir ákaflega leitt að þurfa að hryggja hv. 3. þm. Reykv. með því að segja honum, án þess að upplýsa nokkuð, að hvernig sem hann blæs, hvað sem hann segir, þá kemur hann ekki fleyg á milli samstarfsmanna í ríkisstj. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að reyna að telja sjálfum sér eða öðrum trú um að það sé mögulegt. Til þess eru allt of ábyrgir aðilar sem standa að ríkisstj. og þeir gera sér fyllilega ljósa grein fyrir þeim mikla vanda sem þeir tóku við. Sjálfstfl. og Framsfl. eru ekki flokkar sem endilega vilja starfa saman, en þetta eru ábyrgir stjórnmálaflokkar og það er ástandið í þjóðfélaginu, sem Alþb. skildi eftir sig, sem gerir það að verkum að menn verða að ýta til hliðar ágreiningi, sem annars er á milli flokkanna, til þess að mennirnir, sem fólkið kaus, geti tekið á þeim vanda sem Alþb. skilur eftir sig sem slóð hvar sem það fer um. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, hvað sagðir þú? (Gripið fram í: Ásamt með framsókn.) Já, já, menn læra af reynslunni, er það ekki, Jón? Þeir sem hafa verið víða kunna meira fyrir sér en hinir sem alltaf hafa heima setið.

Ég vil fullyrða, hv. 3. þm. Reykv., að heiftarlegur ágreiningur er ekki fyrir hendi innan stjórnarliðsins og hvað oft sem hv. þm. endurtekur það á hv. Alþingi fær hann menn aldrei til að trúa að hann fari með sannleikann í því máli frekar en flestum ef ekki öllum öðrum. Hann gæti hugsanlega verið farinn að trúa því sjálfur, en það skaðar hann mest því að hann eyðir þá sínum tíma í að vinna öðruvísi að stjórnmálum en hann ætti að gera til að ná árangri.

Það er alveg rétt að forsrh. og ég höfum sett á blað okkar hugmyndir. Það er góður siður að setja á minnisblað það sem rætt er um og geyma hugmyndir, sem koma fram, og ræða málin fram og til baka. Till. sem koma fram á fyrstu fundum eru stundum ekki ræddar aftur fyrr en þær eru kannske dregnar fram á síðustu fundum, en þær geta hugsanlega reynst bestu till. Þær gleymast ekki ef þær eru á minnisblöðum. Þetta eru eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð í opinberu samstarfi góðra samstarfsmanna. Og það er svo langt frá að tillöguvald sé tekið af fjmrh. og honum þar með sýnt vantraust. Ég hef ekki orðið var við það. Ég hef verið afskaplega sáttur við þá verklagsreglu sem tekin hefur verið upp í ríkisstj. Mér skildist á hv. 3. þm. Reykv. að hver ráðh. ætti að taka ákvörðun og af því að hann væri ráðh. ættu allir aðrir að dansa eftir hans hugmyndum og vilja. Þetta gengur ekki þannig fyrir sig í þessari ríkisstj. Við þurfum allir stuðning, við erum allir jafnlitlir, enginn stærri en annar, en við erum óttalegt afl eins og við stöndum saman. Það er það afl sem hv. 3. þm. Reykv. sér blasa við og þess vegna blæs hann og blæs á flóttanum undan þessum ógnvekjandi bola sem hann sér fram undan sér. En það er gott að hann er hræddur.

Virðulegi 3. þm. Reykv. Ég get fullvissað bæði þig og þína flokksmenn innan þessara veggja og um land allt að stjórnin stendur sterk og samhent. Það er ekki á færi utanaðkomandi að kljúfa hana eða samstarfið.

Nú skal ég taka undir það með virðulegum 3. þm. Reykv. að það er mikill vandi á höndum. Þetta fræga gat, — sem ég veit ekki hvort ég vil fylla lengur, mér er farið að þykja vænt um það, því þegar það er ekkert gat lengur hvað hafið þið þá til þess að tala um? — það er ekkert nýtt, það er alveg rétt. Þetta var hv. 3. þm. Reykv. ljóst. Ég minni hann á neyðarástandið sem átti að ríkja hér í 4–5 ár. Ég minni hann á þær yfirdráttarskuldir sem voru fyrir hendi þegar þessi ríkisstj. tók við. Og ég ætla að benda virðulegum þm. og þingheimi á að jafnvel þó að tekjur ríkisins yrðu meiri og það verulega miklu meiri en við búumst við, þá verðum við samt að standa saman og draga saman útgjöldin vegna þess að það er góðra og heiðarlegra manna siður að þegar vel gengur á að safna upp í þær skuldir og skuldbindingar sem þjóðfélagið stendur í. Við eigum því langt í land og það eru erfiðleikar fram undan.

Virðulegur þm. sagði líka að það væri ekki margra kosta völ til lausnar. Ég er alveg sammála honum. Það eru ekkert fleiri leiðir fyrir þjóðfélagið í heild en einstaklinginn. Hann þarf að vinna fyrir skuldum. Hann þarf að draga í land. Hann þarf að spara við sig þegar hann er búinn að eyða of lengi og of miklu umfram tekjur. Það er einföld leið og þarf ekki að tala um hagfræðikenningar í því sambandi.

Virðulegur þm. segir að ég sé kominn á framfæri seðlabankans. Auðvitað er það alveg rétt. É g hef aldrei nokkurn tíma þurft að berjast við aðrar eins skuldir og vandamál og einmitt síðan ég tók við af fjmrh. Alþb. seðlabankinn tók ríkisstj. í fóstur á tíma Alþb. og mér hefur ekki tekist að losna úr þeim böndum. Ég vona að það komi að því, en til þess þarf að auka tekjur þjóðarinnar og minnka útgjöld. Við þurfum að gera miklu, miklu meira fyrir minna, hvernig sem tekjurnar aukast, vegna þess að við þurfum að standa í skilum líka á sama tíma. En hv. 3. þm. Reykv. hefur kannske aldrei látið sér detta það í hug.

Aukafjárveitingar hafa verið veittar á þessu ári, það er að sjálfsögðu ekkert nýtt, hvernig sem ég reyni að komast hjá því. En þær hafa ekki verið veittar öðruvísi en í samráði við forustu fjvn. Fjvn. hefur ekki öll verið á fundum með mér, en forusta fjvn. hefur fylgst með. Það eru breytt vinnubrögð. — En ég vona að smátt og smátt verði af lögð þau vinnubrögð að fjmrh. skuli vera neyddur til þess án lagaheimilda að leiða til lykta einsamall hluta af fjárlögunum eftir að þau eru samþykkt á fjárlagaárinu. Ég er oft að spyrja sjálfan mig: Hvernig stendur á því að þetta er leyfilegt? Hvernig stendur á að þetta má? Það er engin samþykkt fyrir því neins staðar. Þetta er furðulegt.

Virðulegur 3. þm. Reykv. sagði að fyrrv. ríkisstj. hefði ekki þurft að spyrja Alþjóðabankann eða neinn þegar hún tók ákvarðanir um ferðagjaldeyri. Ég les, með leyfi forseta, hluta af ræðunni sem ég flutti þegar ég lagði þetta bráðabirgðalagafrv. fram. Þar segir:

„Upphaflega var skatturinn, sem var 10% álag á söluverð gjaldeyris, lagður á með 17. gr. brbl. nr. 96/1978, sem staðfest voru með lögum nr. 121 frá 1978 og var þeim ætlað að gilda í eitt ár. Gjaldið var síðan framlengt tímabundið með lögum nr. 100 frá 1979 til ársloka 1980 og með lögum nr. 81 frá 1980 var gjaldið gert að ótímabundnum tekjustofni ríkissjóðs.

Að mörgu leyti var þessi skattlagning hæpin á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga Íslands varðandi gjaldeyrismál. Með aðild sinni að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum skuldbundu Íslendingar sig til að taka ekki upp tvöfalda gengisskráningu. Veitti sjóðurinn þó tímabundna undanþágu fyrir þessari skattlagningu, en lagði jafnframt áherslu á að gjaldið yrði afnumið við fyrsta tækifæri.“

Það var bæði með brbl. og líka með undanþágu undan alþjóðlegum skuldbindingum fyrir íslensku ríkisstjórnina sem þessi ferðamannaskattur var lagður á. Það er sem sagt fyrrv. ríkisstj. sem bað um leyfi Alþjóðagjaldeyrisbankans til að setja þessi brbl., en núverandi ríkisstj. bað engan um leyfi. Hún felldi þau niður. Þetta er staðreyndin í málinu.

Ég vona bæði sjálfs mín vegna og kannske heilsu annarra líka, ef við orðum það þannig, að lausn fari að finnast á þeim fjárhagsvanda sem við sjáum fram undan og við erum að reyna að forðast, þannig að hv. 3. þm. Reykv. þurfi ekki frekar en aðrir að bíða miklu lengur. En það get ég sagt, að ef ekki næst samkomulag verð ég sem fjmrh. að leggja einhverja till. fram. En ég geri það ekki nema í samstarfi við mína samstarfsmenn, þessa órjúfandi heild sem stjórnarflokkarnir eru bak við sína ríkisstj., svo ég tali nú ekki um forustuna, ríkisstj. sjálfa.