02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár vegna frétta í fjölmiðlum í gær og í dag þess efnis að flugmálastjórn hafi ákveðið að stöðva snjómokstur utan dagvinnutíma á fjölmörgum flugvöllum landsins og ýmsar fleiri ráðstafanir sem leitt gætu til stöðvunar á flugsamgöngum. Af þessu tilefni sneri ég mér til hæstv. samgrh. í gærkveldi og óskaði eftir því að hann yrði hér viðstaddur umr. um þetta mál, ef leyfð yrði, og tók hann því vei. En þær fsp. sem ég ætla að bera hér fram ættu kannske ekki síður erindi við hæstv. fjmrh. þar eð fjárhagsvanda er hér við borið af hálfu flugmálastjórnar.

Ákvörðun flugmálastjórnar þýddi í reynd, ef framkvæmd yrði, að meiri hluti af flugvöllum landsins yrði ónothæfur, a.m.k. til áramóta, þ.e. í svartasta skammdeginu og alla jólaföstuna, þegar að jafnaði er meira um ferðir og flutninga hjá flugfélögum innanlands en á öðrum tímum að vetrarlagi.

Til að menn átti sig á tilefni þess að ég óskaði eftir þessari umr. held ég að rétt sé að ég vitni hér til þess er fram kom í dagskrá í fréttalíma sjónvarpsins í gærkveldi um þessi efni. Mun ég lesa það hér, með leyfi hæstv. forseta, en þar sagði:

„Búast má við verulegum erfiðleikum og töfum í innanlandsflugi til áramóta vegna fjárskorts flugmálastjórnar. Nú skortir 7 millj. kr. á að stofnunin geti haldið uppi þeirri þjónustu sem venja er til.

Allt starfsfólk heldur áfram störfum og vaktavinna heldur áfram en frá 15. nóv. fettur nær öll yfirvinna niður. Það hefur í för með sér að helgarþjónusta og kvöld- og næturþjónusta fettur niður á öllum flugvöttum nema þar sem unnið er á vöktum, í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og að hluta í Vestmannaeyjum. Á þeim flugvöllum þar sem flugmálastjórn á snjóruðningstæki verður snjór ruddur á meðan eldsneyti endist en ekki keypt meira eldsneyti, þ.e. á öðrum flugvöllum en í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn, Vopnafirði, Borgarfirði eystri og Neskaupstað. Leigutæki verða ekki notuð og verður því ekki mokað á flugvöllum eins og á Patreksfirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði og Höfn svo dæmi séu nefnd. Snjómokstur á flugvöllum nemur þó innan við 30% af því fé sem skortir en getur valdið miklu um flugumferð á landinu.

Pétur Einarsson flugmálastjóri lagði á það áherslu í dag að starfsmenn flugmálastjórnar væru reiðubúnir til að inna af hendi alla þessa þjónustu, ef einhver vildi greiða hana, og að öllum neyðartilvikum yrði sinnt.

Flugmálastjóri hefur skrifað starfsmönnum sínum víðs vegar um land og skýrt frá þessum ráðstöfunum og jafnframt flugrekstraraðilum. Þeir sem fyrstir verða fyrir barðinu á þessu eru Arnarflug og Flugfélag Norðurlands.

Flugmálastjóri sagði að haldið yrði áfram reglulegu eftirliti og flugprófunum á aðflugstækjum og leiðarflugstækjum, en ef þau biluðu yrði ekki hægt að kaupa í þau varahluti. Þessi vandi hefur ekki áhrif á starfsemi á Keflavíkurflugvelli.“

Þetta var tilvitnun í frétt sjónvarpsins í gærkveldi um þessi mát, og ég taldi rétt að þetta kæmi hér fram, því að hvað sem um málið má almennt segja, þá mætti margt um þær fyrirhuguðu reglur segja sem hér eru dregnar upp af flugmálastjórn og kynntar voru. En ég ætla ekki að orðlengja það að sinni.

Ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun sinni segir flugmálastjóri vera fjárskort, þar eð ekki hafi fengist aukafjárveitingar eins og oft hefur komið til á liðnum árum. Ástæða er til að spyrja hverjir það eru, hvort það er hæstv. ríkisstj. sem stendur að baki slíku fyrirhuguðu hafnbanni á landsbyggðina eða embættismenn sem taka sér það vald. Virðist þó áður nóg að gert af ríkisstj. hálfu til að draga úr ferðum manna, a.m.k. launafólks, með þeirri kjaraskerðingu sem leggst nú á vinnustéttirnar í landinu af vaxandi þunga og mæðir ekki síst á fólki í strjálbýli.

Í rauninni er hér svo fáheyrð aðgerð á döfinni, eins og frá henni var greint, að menn hljóta að spyrja sig hvar komið sé hugsun manna sem láta koma til tíðinda af þessu tagi. Það er ekki til að auka öryggiskennd fólks í byggðum landsins að eiga von á að skorið sé á helstu og jafnvel einu samgöngulífæð þess, eins og hér hefur verið gefið í skyn í tilkynningu flugmálastjórnar. Sumar þeirra byggða sem hnífi hennar skyldi brugðið á hafa ekki aðrar samgöngur en flugið svo vikum skiptir að vetrarlagi. Nægir þar að nefna byggðarlög á Norðausturlandi eins og Borgarfjörð og Vopnafjörð og mörg byggðarlög á Vestfjörðum.

Ég geri því ekki skóna að hæstv. samgrh., sem þekkir af eigin raun samgönguerfiðleika landsbyggðarinnar betur en margir aðrir hér á hv. Alþingi, standi að baki þessari fáránlegu og fáheyrðu tilskipan flugmálastjórnar. En ábyrgð þessara mála hvílir engu að síður á rn. hans, og í hádegisfréttum í dag heyrði ég viðbrögð hans við þessu máli. Ég taldi engu að síður rétt að óska eftir því að málið kæmi hér til umr. á hv. Alþingi og vil leyfa mér að bera fram við hæstv. samgrh. eftirfarandi fsp. sem tengjast þessu máli:

Hvaða ástæður voru það sem leiddu til þeirrar tilkynningar sem flugmálastjóri sendi frá sér til starfsmanna sinna og hverjir undirbjuggu og mótuðu þær reglur sem þar voru settar?

Hefur ríkisstj. fjallað um fjárhagsvanda flugmálastjórnar og hversu háar upphæðir eru það sem á vantar til að unnt sé að halda uppi hliðstæðri þjónustu í sambandi við flugsamgöngur innanlands og undanfarin ár?

Hefur þessi fjárhagsvandi verið leystur og þá með hvaða hætti?

Getur hæstv. samgrh. lýst því hér yfir að ekki komi til skerðingar á þjónustu við flugsamgöngur innanlands á þessum vetri, þ. á m. þær aðgerðir sem flugmálastjórn hafði boðað og fjölmiðlar hafa greint frá?

Þetta eru þau atriði sem mér þætti vænt um að hæstv. samgrh. gæti vikið að hér á eftir. Það virðist sannarlega nóg að þrengt í þessu þjóðfélagi þó að ekki sé stofnað til vandræða af því tagi sem boðað hefur verið af flugmálastjórn og skapa óvissu og öryggisleysi víða um land.