09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4562 í B-deild Alþingistíðinda. (3930)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ýmislegt fróðlegt kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. og full ástæða til að hefja þessa umr. miðað við það sem fram hefur komið. Það sem hann lagði mesta áherslu á var það að enginn heiftarlegur ágreiningur væri milli stjórnarflokkanna eða stjórnarsinna í sambandi við þetta mál. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig stendur þá á þessum drætti sem orðinn er á því að koma málinu hér fyrir ef þar er enginn ágreiningur? Hvað er það sem veldur þessum drætti og þessum slóðaskap miðað við þær yfirlýsingar sem formenn stjórnarflokkanna hafa haft í frammi bæði við fjölmiðla og eins við mig og aðra formenn stjórnarandstöðuflokkanna þegar við ræddum saman núna fyrir tveimur vikum eða svo? Þá var sagt að frv. væri alveg að koma, það kæmi sennilega eftir helgina sem þá fór í hönd. Það sést ekki neitt. Hvað er það sem veldur því að flokkarnir geta ekki komið sér saman fyrst þar er þessi eining andans sem hæstv. fjmrh. var að gera grein fyrir? Hann fullyrðir að þessi ágreiningur sé ekki til, það sé 100% samstaða í stjórnarliðinu. Það var sérstaklega athyglisvert að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að þessi samstaða stjórnarflokkanna væri „óttalegt afl“. Það er rétt. Það er nákvæmlega það sem þessi hópur sem að ríkisstj. stendur er í augum fjölda fólks, þúsunda í landinu, vegna þess að þessi ríkisstj. hefur beitt þannig ráðstöfunum að hún hefur komið fram sem óttalegt afl gagnvart almenningi í landinu.

Hæstv. fjmrh. bætti við til að mála í enn þá sterkari litum, til að gefa myndmáli sínu enn þá gleggra bókmenntalegt yfirbragð og listrænt gildi: Þegar þessir tveir flokkar hafa sameinast þá birtist þar — hvað? ógnvekjandi boli. Ógnvekjandi boli, m. ö. o. nautpeningur sem hæstv. fjmrh. líkir sínum samstarfsmönnum við. Hið mikla sameiningartákn, þessi ógnvekjandi boli ríkisstj., þetta óttalega afl, það er sú niðurstaða sem væntanlega fæst áður en langur tími liður í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Stundum hefur verið haft við orð að hæstv. fjmrh. væri misjafnlega orðheppinn maður. Ég verða að segja eins og er að ég tel að fáir menn hafi lýst ríkisstj. með gleggri og greinarbetri hætti í stuttu máli en hæstv. fjmrh. gerði hér í dag þegar hann sagði að ríkisstjórnarflokkarnir sameinaðir væru ógnvekjandi naut sem ætti núna að sleppa lausu á þjóðina áður en nokkur tími væri liðinn. Sjaldan hefur nú risið verið mikið hærra í bókmenntalegum og listrænum samlíkingum en einmitt hér. (GHelg: Það verða nú rauðar dulur settar fyrir bola.) Dettur mönnum kannske í hug að í þessu efni sé hæstv. fjmrh. að hugsa til þess nautpenings sem frægastur er í okkar sögu, t. d. Þorgeirsbola?

En það var hins vegar athyglisvert að um leið og hæstv. fjmrh. útmálaði styrkleika þessa tvíeina bola, Framsfl. og Sjálfstfl., sem hann sagði að væri órjúfandi afl þá viðurkenndi hann um leið að svo gæti farið að hann yrði að leggja fram sínar eigin till. í þinginu vegna þess að nautið hefði ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu. Hinn ógnvekjandi boli væri bundinn fastur í Stjórnarráðinu og kæmist þaðan ekki út. Það væri nú saga til næsta bæjar ef hæstv. fjmrh. tækist ekki að efla til lífsins þetta ógnvekjandi afl og yrði sjálfur að leggja fram tillögur í þinginu. En svo bætti hann því við eins og til að vera sjálfum sér samkvæmur: Auðvitað mun ég ekki leggja fram tillögur í þinginu nema að höfðu samráði við mína stjórnarflokka. Niðurstaðan er auðvitað engin af þessari orðræðu hæstv. fjmrh. eins og stundum áður, hún er núll komma núll fyrir utan þessar sérkennilegu bókmenntalegu samlíkingar sem hann hafði hér uppi áðan.

En í þessu efni þurfti hæstv. fjmrh. enn þá einu sinni að fara að vega að síðustu ríkisstj. Ég hef stundum orðað það svo að það sé til marks um rökþrot hæstv. fjmrh. að þegar hann fer að tala um neyðaráætlun Alþb. á hann yfirleitt ekkert eftir lengur í fórum sínum. Í þessari ræðu sem hann flutti hér áðan notaði hann tækifærið enn þá einu sinni til að sverja af sér aðild sína að fráfarandi ríkisstj. Gunnars Thoroddsen, en hæstv. núv. fjmrh. beitti sér sérstaklega fyrir því að Gunnar Thoroddsen fékk umboð til myndunar þeirrar ríkisstj. á sínum tíma. Í árásum sínum á þá ríkisstj. gætir hæstv. fjmrh. þess ekki að hann er ekki einasta að ráðast á Alþb. — en látum það nú vera að hann ráðist að þeim flokki í stjórnarandstöðu sem hann er að slást við — heldur ræðst hann líka að Framsfl. alveg sérstaklega. Látum það einnig vera þó að hann sé að vísu farinn að tala fyrir Framsfl. hér aftur og aftur, en hann ræðst alveg sérstaklega að hv. þm. Pálma Jónssyni og Friðjóni Þórðarsyni sem báðir áttu sæti í þessari ríkisstj. og bera því fulla ábyrgð á gerðum þeirrar ríkisstj. allt þar til yfir lauk. Ég verð að segja að það er undarlegt langlundargeð þeirra þm. og fyrrv. félaga minna í þeirri ríkisstj. að þeir skuli aftur og aftur láta bjóða sér þann ósannindavaðal sem uppi er hafður af núv. talsmönnum ríkisstj. um fráfarandi ríkisstj. og viðskilnað hennar.

En það er hins vegar líka táknrænt og fróðlegt að velta því fyrir sér að þegar núv. hæstv. ríkisstj. er að verja gerðir sínar reynir hún jafnan að gera það með samjöfnuði við fráfarandi ríkisstj. Metnaður hennar nær sem sagt á engu sviði lengra en til þess að ná því sem fráfarandi ríkisstj. gat og gerði. Það er athyglisvert og menn hljóta að velta því fyrir sér til hvers stjórnin var mynduð ef pólitískur metnaður ráðh. nær ekki til annars en þess að standa sig svipað og fráfarandi ríkisstj. gerði.

Hæstv. fjmrh. viðurkenndi það í ræðu sinni áðan að hann væri kominn á framfæri seðlabankans. Mun það vera í fyrsta sinn í sögunni sem fjmrh. viðurkennir það að hann sé á beinu seðlaprentunarframfæri hjá Seðlabanka. Það var mjög athyglisvert að heyra þá yfirlýsingu. Í ræðu sinni kom fjmrh. að aukafjárveitingum og viðurkenndi að aukafjárveitingar hafa verið greiddar út úr ríkissjóði. Þar með er sú yfirlýsingin fallin líka. Það átti ekki að hækka skatta og það átti ekki að grípa til þess að yfirdraga á Seðlabankann enn meira, hann lýsti því yfir í vetur. En nú er þriðja yfirlýsingin af mörgum reyndar fallin líka. Aukafjárveitingarnar eru farnar út úr ríkissjóði, hann var að lýsa því yfir hér áðan. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir að það væri í samráði við fjvn. Það er rangt. Það er í samráði við formann og varaformann fjvn. sem eru úr stjórnarflokkunum. En það er ekki hægt að segja að þetta sé í samráði við fjvn: þar sem eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar og mér er ekki kunnugt um að þeir hafi verið kallaðir til í sambandi við aukafjárveitingar. Það verður fróðlegt fyrir litla manninn að sjá hinn ógnvekjandi bola þegar hann loksins birtist í frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það verður fróðlegt að sjá með hvaða hætti það gerist og hvenær það gerist.

Hæstv. fjmrh. hefur ekki fengist til að dagsetja það enn þá hvenær niðurstaða fæst hjá stjórnarflokkunum í þessu efni þrátt fyrir þessa órjúfandi einingu, hina góðu samstöðu þessara tveggja flokka sem báðir eru ábyrgir að sögn hæstv. fjmrh., en hann er farinn að tala líka fyrir Framsókn hér í salnum. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að Framsfl. væri alveg sérstaklega ábyrgur flokkur og væri gott að vinna með honum. Sameiningartákn þessara tveggja flokka nú orðið virðist vera hæstv. fjmrh. því að inn á við í báðum flokkunum leikur allt á reiðiskjálfi yfir þeim ráðstöfunum sem nú á að fara að gera og enginn ráðh. vill taka á sig að bera þann kross sem ætlast hefur verið til af þeim skv. þeim fréttum sem birst hafa.

Það er greinilegt af þessari umr. að í fyrsta lagi er fjmrh. farinn að veita aukafjárveitingar. Í öðru lagi veit hann ekkert um það hvenær ráðstafanir í ríkisfjármálum verða tilbúnar af hálfu ríkisstj. Það er hver höndin upp á móti annarri í stjórnarliðinu og það er enginn vissa um það hvaða niðurstöður verða þar til. Það er staðan sem nú liggur fyrir þegar gatið margfræga hefur verið til umr. núna um margra vikna skeið. Það eru nú öll afrekin að ríkisstj. er ekki sjálf búin að komast að niðurstöðu í þessu efni og stjórnarflokkarnir ekki heldur. Það er það sem núna liggur fyrir hjá hv. Alþingi og til þess var þessi umr. gagnleg, að fá það fram hvernig ríkisstj. stendur að málum af þessum toga á sama tíma og hún ætlar að pína það hér fram að við samþykkjum að staðfesta brbl. sem henda 160 millj. kr. út úr þeim sama ríkissjóði sem er á hausnum eins og kunnugt er.