09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (3932)

22. mál, þingsköp Alþingis

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Mér sýnist að ekki muni vera nema 2–3 mínútur til stefnu þar til fundi verður frestað svo að mér sýnist ekki ástæða til þess að hefja ræðuhöld fyrir þann tíma í svo viðamiklu máli sem hér er um að ræða. Ég vildi því gjarnan fara þess á leit við virðulegan forseta að hann sleppti mönnum í þessar tvær mínútur sem eru eftir til þingflokksfundartíma fyrst meiningin er á annað borð að halda fund kl. 6. Hins vegar hefði ég talið að það hefði átt að vera hægt með skikkanlegum vinnubrögðum af hálfu stjórnarliða í dag að koma þessu máli til nefndar fyrir kl. 4 og í raun og veru var að því stefnt þegar málið var rætt s. l. föstudag. En fyrst svo er ekki vildi ég fara þess á leit við forseta að málið verði ekki tekið til umr. fyrr en kl. 6 fyrst meiningin er að halda fund þá.

(Forseti: Við þeirri ósk verður orðið og er fundinum frestað til kl. 6.) — [Fundarhlé.]

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér um ræðir var á dagskrá hv. deildar s. l. föstudag til 1. umr. Þá sýndist ýmsum, þ. á m. mér, að æskilegra væri, vegna þess að allmargir hv. þm. höfðu fjarvistarleyfi og voru fjarverandi, að 1. umr. yrði a. m. k. ekki lokið án þess að þeim sem fjarverandi voru gæfist tækifæri til að tjá sig um málið. Mér sýndist ekki hafa fjölgað mikið í hv. deild frá því sem var á föstudag þannig að þess sé ekki að vænta að margir láti í sér heyra. En hvað um það, ekki er það mín ættan að reyna að tefja neitt fyrir þessu máli og engin ástæða til þess.

Það frv. sem hér um ræðir er vissulega þess eðlis að um það mætti segja allmikið þó að é ætli ekki að gera það, a. m. k. ekki við þessa 1. umr. Ég mun geyma mér frekari umfjöllun um það eftir að málið hefur farið til nefndar enda var lögð á það áhersla af hæstv. sjútvrh. að málið kæmist sem fyrst til nefndar. Þó má benda á að málið er búið að vera allmargar vikur ef ekki mánuði í hv. Ed. þannig að ekki er að sjá að þar hafi verið talin mikil þörf á að flýta umfjöllun málsins.

Hæstv. sjútvrh. hefur boðað veikindaforföll. Það er að vísu slæmt en ég sé ekki ástæðu til annars en að ljúka þessari umr. þótt hann sé ekki viðstaddur. Hann kæmi þá inn í þær umr. síðar. Hins vegar væri miklu viðkunnanlegra að hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður þeirrar nefndar sem málið fer til, þ. e. sjútvn., væri viðstaddur umr. En enga kröfu geri ég til þess að hann verði fluttur hingað inn frekar en aðrir stjórnarsinnar sem fjarverandi eru. Það verður þá að koma í ljós hvort þeir sjái sér fært að vera hér síðar.

Áhrif þess frv. sem hér er um að ræða eru afskaplega einföld. Frv. er um breytingu á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og er hér enn ein ferðin farin í þá átt að færa til fjármuni frá sjómönnum til útgerðaraðila. Nú ætti það að vera ljóst öllum sem til þekkja að líklega hefur engin stétt í þjóðfélaginu orðið fyrir meiri kjaraskerðingu á undanförnum vikum, mánuðum eða árum en sjómenn. Þar kemur tvennt til. Sú aflaminnkun sem orðið hefur á okkar fiskimiðum vegna stjórnar fiskveiðanna með aflatakmörkunum og síðast en ekki síst kvótaskiptingunni sem tekin var upp á yfirstandandi ári. Og svo einnig hitt, sem snýr líka að öðrum launþegum, þ. e. sú kjaraskerðingarstefna sem uppi hefur verið undangengna mánuði og má raunar segja undangengið ár. Þó að hún hafi bitnað harkalega á launafólki almennt hygg ég að engir hafi orðið eins illa fyrir barðinu á henni og sjómannastéttin.

Því finnst mér það frv. sem nú er til umræðu furðuleg ráðstöfun hjá hæstv. ríkisstj., að færa frekari fjármuni frá sjómönnum til útgerðaraðila með því að hækka greiðslu í Stofnfjársjóð fiskiskipa úr 10% í 14% fyrir árið í ár. Menn segja að þetta geti gengið í eitt ár og gert er ráð fyrir að þetta ákvæði til bráðabirgða gildi ekki nema í eitt ár. En líklega eru miklu fleiri dæmi þess að þó að menn hafi ætlað sér að hafa tiltölulega stuttan gildistíma á ákvæðum sem þessum hafi þau orðið lífseig og ekki verið afnumin. Hættan er sú að ef þetta skref verður á annað borð stigið verði því ekki kippt til baka á næstunni.

Nú hygg ég að öllum sé ljóst hver upprunalega ætlunin var og hver tilgangur með stofnun Aflatryggingasjóðs var á sínum tíma. Það var til að tryggja sjómönnum laun ef illa gengi og útgerðaraðilar kæmust af einhverjum ástæðum í þá aðstöðu að geta ekki staðið í skilum. Þessu markmiði hefur Aflatryggingasjóður sinnt frá upphafi. Nú er gerð tillaga um að breyta þessu að nokkru leyti með því að skerða verulega getu sjóðsins til að sinna þessu brýna verkefni.

Við umr. í hv. Ed. kom fram að hagsmunaaðilar, þ. e. Sjómannasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hafa harðlega mótmælt þessum bráðabirgðaákvæðum frv. Og hver skyldi lá þessum aðilum það eftir það sem á undan er gengið, kjaraskerðingu þá sem umbjóðendur þeirra hafa orðið fyrir? Hv. 12. þm. Reykv. flutti líka harðorða gagnrýnisræðu s. l. föstudag þar sem hann mótmælti harðlega þessu frv. og lýsti því yfir að hann mundi ekki greiða því atkvæði enda hafi það aldrei verið borið undir hann, þótt stjórnarsinni væri og sér vitanlega hafi það ekki verið borið undir þingflokk Sjálfstfl.

Nú skal ekkert um það sagt hvort fleiri stjórnarsinnar í þessari hv. deild eru þessarar skoðunar. Ekkert hefur komið í ljós um það enn. En ég hygg að margir hverjir vildu gjarnan hafa sömu afstöðu og hv. 12. þm. Reykv., þ. e. mættu þeir um frjálst höfuð strjúka í þeim efnum.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson gerði líka grein fyrir því, eins og ég hygg raunar að hafi verið rifjað upp í umr. í Ed., að sú ráðgjafarnefnd í sjávarútvegsmálum sem starfandi hefur verið hafi komið á fund sjútvn. Ed. og gert þar grein fyrir þessu máli. Ég sé ekki ástæðu til að rekja álit þessara einstaklinga frekar, það gerði hv. þm. Pétur Sigurðsson rækilega. En mér sýnist að af þeim 11 einstaklingum sem þar er um að ræða séu 8 andvígir þessari breytingu, þ. á m. útvegsmenn og framámenn í sjávarútvegi og útgerð.

Ég óttast að verði af þessu sé það fyrsta skrefið til þess að eyðileggja Aflatryggingasjóð, a. m. k. eyðileggja grundvöll þess sem hann átti upprunalega fyrir að sjá og hefur þjónað frá upphafi. Menn geta sagt sem svo að kannske gerist ekki mikið þó að þetta kæmi til með að gilda í eitt ár. En ég er næstum því viss um að ef á annað borð verður stigið skref af þessu tagi verður það áframhald á endanum, a. m. k. er hætta á því að sjóðurinn verði ekki lengur fær um að þjóna sínu upprunalega markmiði.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa hér langt mál að sinni en mig langar til í tengslum við þetta mál um Aflatryggingasjóð að greina með örfáum orðum frá atburði sem gerðist fyrir rösklega 45 árum vestur í Bolungarvík, atburði sem ég hygg og ýmsir aðrir að hafi verið fyrsta skrefið í þá átt að tryggja sjómönnum með þeim hætti sem Aflatryggingasjóður hefur gert að þeir fengju laun sín greidd. Greint er frá þessum atburði í samantekt um starfsemi Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur frá stofnun þess. Þar segir, með leyfi forseta, í þeim kafla sem ég tel að sé nokkuð nálægt því umræðuefni sem við erum nú að tala um:

„Í desembermánuði 1938 sagði sjómannadeild innan Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur upp samningum og ákvað félagið að standa með deildinni ef til deilu kæmi. 5. febr. 1939 var haldinn fundur í sjómannadeildinni og ræddur samningsgrundvöllur og var samningsnefnd veitt fullt umboð til að semja fyrir deildarinnar hönd. Sest var að samningum við útgerðarmenn kl. 5 að kvöldi 6. febr. og setið til kl. 2 um nóttina ásamt ríkisskipuðum sáttasemjara er þá var Björn Jónsson skólastjóri á Ísafirði. Kl. 2 um nóttina var langt komið með að semja og 7. febr. var framhaldsfundur þar sem samningar fóru í strand vegna þrákelkni atvinnurekendafélagsins.

9. febr. 1939 voru svo samningar loksins undirskrifaðir kl. 12 á miðnætti. Samningar þeir er þá voru undirskrifaðir voru að einu leyti þeir merkilegustu sem gerðir höfðu verið fyrir sjómenn á Íslandi með því að þeir byggðust alveg á því að sjómenn og útgerðarmenn stofnuðu tryggingarsjóð sem tryggja skyldi sjómönnum í Bolungarvík ákveðnar mánaðartekjur, eins þótt illa gengi með aflabrögð. Voru þar ákveðnar lágmarkstekjur 125 kr. á mánuði. Tekjur þessa sjóðs skyldu vera 2% af brúttóafla báta þeirra er samningur þessi náði til en þá voru stærri bátar allt niður í 5 smálestir. Var samin reglugerð fyrir sjóð þennan sem lögð var fyrir Stjórnarráð Íslands og staðfest þar. Að öðru leyti voru samningar svipaðir og þeir er áður höfðu gilt. Í sjómannadeildinni voru samningar þessir samþykktir mótmælalaust. Þó fannst það á að ekki voru allir ánægðir.

Þessir samningar í gömlu verstöðinni við hið ysta haf áttu þá eftir að valda gjörbyltingu í tryggingamálum sjómanna um allt Ísland “.

Ég held að þessi stutta frásögn af því sem þarna gerðist fyrir röskum 45 árum síðan eigi vel við til þess að koma inn í umr. þær sem nú fara fram um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Á þessum tíma var í raun og veru lagður grundvöllur að því kerfi sem við höfum búið við um langt árabil, kerfi sem ég held að sjómenn almennt séu sammála um að fráleitt sé að skerða. Ég tek undir þau varnaðarorð hv. 12. þm. Reykv. á föstudaginn og vara hæstv. ríkisstj. við því að ganga þessa leið í ljósi þess að ef það verður gert er hér um slíka ögrun við sjómannasamtökin að ræða að engar líkur benda til þess að þau láti bjóða sér það ofan á það sem þau hafa þurft að þola til þessa.

Ég hygg að það væri miklu affarasælla fyrir hæstv. ríkisstj. að ganga til móts við sjómannasamtökin að því er þetta varðar heldur en að knýja þetta mál hér fram með þeim hætti sem mér sýnist allt benda til að eigi að gera. Því að verði það gert er það vitandi vits gert í ljósi þess að sjómannasamtökin a. m. k. munu ekki una þessum lagaákvæðum ef þau verða í þeim dúr sem hér er lagt til. Ég held að hvað sem mínum varnaðarorðum liður ætti hæstv. ríkisstj., hæstv. sjútvrh. að taka tillit til þeirra varnaðarorða sem hv. þm. Pétur Sigurðsson, 12. þm. Reykv., sem stjórnarsinni, lét sér um munn fara s. l. föstudag. Verði þetta gert með þessum hætti er hæstv. ríkisstj. að egna til ófriðar á vinnumarkaðnum, ekki bara gagnvart sjómannastéttinni. Afleiðingar þessarar ákvörðunar, nái hún fram að ganga, koma til með að ná miklu víðar og hafa miklu meiri afleiðingar en það eitt að sjómannasamtökin muni segja: Hingað og ekki lengra. Ég hugsa að hæstv. ríkisstj. þyrfti á því fremur að halda að ástunda friðariðju — í skjóti friðarumræðna sem hér hafa farið fram lengi vel — í viðskiptum sínum við sjómannasamtökin, við launafólk almennt í landinu, ef hún á að eiga möguleika á því að halda velli.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. En ég lýsi strax við 1. umr. algjörri andstöðu Alþfl. við þetta frv., við þá breytingu sem hér er um að ræða, að skerða nú ofan á allt annað launakjör sjómanna og færa þannig til stórar fjárhæðir frá sjómönnum til útgerðaraðila.

Ég vildi gjarnan koma þeirri ósk á framfæri við hv. þm. Stefán Guðmundsson sem formann hv. sjútvn. sem málið fer til — bæði frá mér og hv. þm. Pétri Sigurðssyni sem ekki gat verið hér viðstaddur — að fengin verði skrifleg umsögn stjórnar Aflatryggingasjóðs um þá breytingu sem hér er lagt til að gerð verði, í umr. í n. eða með öðrum hætti þannig að formlega liggi ótvírætt fyrir hver afstaða stjórnar Aflatryggingasjóðs til þessa máts er. Það er eindregin ósk okkar, hv. þm. Péturs Sigurðssonar og mín, að þetta verði gert og þessu er hér með komið á framfæri við hv. formann sjútvn.

Ég skal svo ekki, herra forseti, eyða meiri tíma í þetta að sinni. Ég vil á engan hátt standa í vegi fyrir því að málið komist sem fyrst til n. þó að ekki yrði þess vart í Ed. að því lægi mikið á þar sem það var í margar vikur eða mánuði án þess að það væri afgreitt. Ég vil að lokum enn ítreka varnaðarorð um það að hæstv. ríkisstj. sjái nú að sér og gangi ekki þessa götu til enda því að þá mun illa fara, bæði fyrir henni og öðrum.