09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (3933)

22. mál, þingsköp Alþingis

Garðar Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt að segja um þetta nokkur orð og er þó kannske óþarfi að segja miklu meira en hv. þm. Karvel Pálmason sagði um það áðan. Ég veit satt að segja ekki fyrir hönd hverra hann var að bera fram þær hótanir sem komu fram í hans máli.

Út af fyrir sig er full ástæða til að taka myndarlega í þegar um þetta mál er að tefla. Það hafa komið umsagnir frá ýmsum aðilum varðandi þetta frv. og að því ég best veit til hafa flestir þeir aðilar sem ég hef séð umsagnir frá verið neikvæðir.

Áður en ég held lengra máli mínu um þetta efni verð ég að leyfa mér að kvarta yfir því að hafa ekki fengið í hendurnar nál. minni hl. frá Ed., en út af fyrir sig er hægt að ræða málið án þess að hafa það milli handanna.

Efni frv. er einfalt. Það fjallar í stuttu máli um að taka þá peninga sem lagðir hafa verið í almennu deild Aflatryggingasjóðs og færa þá yfir til útgerðarinnar í gegnum stofnfjársjóð. Þetta er tilgangur frv. Þar með hlýtur hlutverk almennu deildarinnar að falla niður þann tíma sem þetta frv., ef að lögum verður, á að gilda, sem sagt á árinu 1984.

Menn skyldu athuga að þessi 4% eru allmiklir fjármunir, þ. e. 25. hluti af öllu verðmæti fiskafla í landinu, fjórir hlutar af hundrað af öllu hráefnisverði fiskjar í landinu.

Það er einfalt að ráðast að öllum atriðum frv., en sannleikurinn er sá að það hagar nokkuð sérstaklega til á þessu ári eftir að voru settar reglur um kvótasetningu. Þá er hverju skipi ætlaður ákveðinn skammtur af hverri fiskitegund og menn geta gengið að því vísu, menn geta fengið þarna ákveðinn skammt í sinn hlut. Almenna deildin hefur verið notuð til að greiða þeim sem ekki hafa fiskað nægilega mikið til að standa undir tryggingu. Jafnvel þó svo væri ekki ber þessum útgerðum að greiða mönnum hana.

Það atriði í þessum lögum sem er verst að mínum dómi er einfaldlega að þessi 4% af afla skuli fara óskipt til útgerðar. Hv. alþm. ætti að vera fullkunnugt hversu mjög hefur gengið á hlut sjómanna að undanförnu, ekki aðeins á þessu ári eða hinu síðasta, heldur undanfarin ár. Árið 1981 var mesta aflaár í sögu þjóðarinnar. Það er engin ástæða til að búast við því að slík aflaár komi hvert á eftir öðru eða mörg í röð. Einhvers staðar hlýtur toppurinn að vera. Og menn geta fyllilega sætt sig við það að fá heldur minna í hlut en það ár sem mest veiðist. En svo langt og svo hratt hefur aflinn hrapað á undanförnum þrem árum að sjómannastéttin hefur farið á stuttum tíma úr ágætum kjörum ofan í þau verstu sem þekkjast í landinu. Ég vil leyfa mér að fullyrða að sjómaður hefur lægra tímakaup en nokkur starfsmaður í annarri atvinnugrein í landinu.

Við getum rétt ímyndað okkur hver væru laun hjá fólki sem ynni aldrei minna en 84 stundir í viku, því það er það sem menn gera á togurum sem hafa sex og sex tíma vaktir og þykir ekki mikið hjá sjómönnum. Þegar sá háttur var tekinn upp á sínum tíma þótti það satt að segja mikill lúxus, svo maður noti forníslenskt orð, en 84 tímar samt, fjarri heimili og vinna jafnt nætur og daga. Ég er alveg sannfærður um að á meðalvertíðarbát er tímakaupið hjá sjómanninum miklu lakara en þekkist í nokkurri annarri stétt.

Þegar afli dregst svo saman sem raun ber vitni gefur auga leið að sjómannastéttin dregst aftur úr og hrapar mjög niður í launum og nú, eftir að sýnt var að ekki var hægt að mæla með meiri þorskveiði á þessu ári en 220 þús. tonnum eða svo, varð ljóst að á sama tíma og aðrar stéttir í landinu fengu nokkra launahækkun, sem virðist nú vera að falla fyrir borð þó lítil væri, að á sama tíma og aðrar starfsstéttir hafa fengið nokkra leiðréttingu sinna mála hafa sjómenn misst stórkostlega af sínum tekjum. Það er talað um að laun þeirra muni á þessu ári fatla kannske frá 30–45% eftir aðstæðum. Frv. þetta fylgir á eftir brbl. á s. l. ári, þegar sjómenn þurftu að taka á sínar herðar miklar byrðar sem fólgnar voru í meiri þátttöku í kostnaði og talsvert stærri hluti var tekinn af hráefninu utan skipta. Og þó að það sé sagt að það eigi að gilda aðeins á þessu ári er ákaflega óheppilegur tími valinn til að bæta enn ofan á kostnaðarhlutdeildina um 4%. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef farið verður að eins og þetta frv. gerir ráð fyrir fer af fiskverðinu 41 kr. af hverjum 100 áður en til skipta kemur. Ég verð að segja að þarna finnst mér allt of langt gengið eins og á stendur. Ég er alveg viss um að íslenskir sjómenn eru tilbúnir að taka á sig allmiklar byrðar til að leysa erfið vandamál í þessu þjóðfélagi. En ég sé ekki ástæðu til þess að þeim séu lagðar miklu þyngri byrðar á herðar en nokkrum öðrum í þessu þjóðfélagi — miklu þyngri, því miður.

Út af fyrir sig er þarna um að tefla lög sem eiga, ef samþykkt verða, að gilda aðeins í eitt ár. Það er jákvætt að svo skuli vera og er þá greinilega tekið mið af því að kvótakerfið eigi aðeins að gilda jafnlangan tíma. Það er samhengi þarna á milli. Þarna er ekki verið að breyta lögum um hina almennu deild Aflatryggingasjóðs nema um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma. Það er einnig jákvætt. En ég vil ekki sætta mig við að þessir feikna fjármunir séu fluttir yfir til útgerðar án þess að áhöfnin fái sinn hlut. Í raun og veru er óforskammað eins og á stendur að bjóða upp á það.

Virðulegi forseti. Um þessi atriði mætti auðvitað fara miklu fleiri orðum, en málið er í raun og veru afar einfalt. Ég held, án þess að hafa kynnt mér sérstaklega álit minni hl. sjútvn. í Ed., að ef hæstv. ríkisstj. hugsar sér að ýta þessu máli áfram og gera þetta frv. að lögum í því skyni að sjálfsögðu að gera tilraun til að leysa hluta þess vanda sem útgerðin stendur frammi fyrir og allir sjá og viðurkenna, verði ekki komist hjá því, þrátt fyrir slæma stöðu útgerðar á þessu ári aflasamdráttar að ríkisstj. sjái svo um að þessi 4% komi til skipta. Ég á bágt með að trúa því að þeir sem þekkja til sjávarútvegs og aðstæðnanna á þessu ári vilji ganga svo hart fram að taka þessi 4% algjörlega út úr hlut sjómannanna. Sannleikurinn er sá að í flestum tilfellum mun útgerðin fá 2/3 eða svo af þessum 4%, en áhafnirnar 1/3. Auðvitað getum við flutt um það brtt., en ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. ríkisstj. — og ég veit að þar sitja menn sem þekkja til þessara hluta, nokkrir þeirra, — að hún sjái um það sjálf að þetta verði leiðrétt. Ég óttast að hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. hafi ekki hugsað þetta mál til enda. Ég á afar bágt með að trúa því að t. d. maður eins og hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh., sem báðir eru gjörkunnugir þessum efnum, hafi ekki hugað að þessu atriði nægilega vel og gert sér grein fyrir hvað það þýðir. Ég hef enga stöðu til að hóta einum eða neinum ráðstöfunum á vegum sjómanna eða tala fyrir þeirra hönd, en ég vil segja við hæstv. ríkisstj. í fullri alvöru: Það er mjög óskynsamlegt að þröngva þessu máli óbreyttu í gegn. Ég tek aftur fram að í þessum orðum felast engar hótanir af neinu tagi. Það er ákaflega óskynsamlegt að ganga þannig fram. Ég legg þess vegna til, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstj. ræði þetta atriði, þó að ekki sé um annað að ræða í frv. en þetta eina atriði sem ég nefni hér, á næsta fundi sínum. Það er skynsamra manna háttur að meta stöðu eins og þessa og taka síðan ákvarðanir af yfirveguðu ráði. Þarna er gengið svo grimmt fram á versta tíma og þegar verst á stendur að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. ríkisstj. sjái ekki að það er eina leiðin sem er boðleg í sambandi við þetta mál.