09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4570 í B-deild Alþingistíðinda. (3935)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Flm. (Pálmi Jónsson):

Virðulegi forseti. Frv. þetta til l. á þskj. 531 um heimild til að selja kristfjárjörðina Ytra-Vallholt í seyluhreppi í Skagafjarðarsýslu er flutt af mér ásamt öðrum þeim þm. Norðurl. v. sem sæti eiga í hv. Nd.

Jörðin Ytra-Vallholt í Seyluhreppi, sem kallast kristfjárjörð, var gefin með gjafabréfi Þórðar biskups Þorlákssonar hinn 20. júlí 1693 til að vera „æfinlegt kristfé“ þaðan í frá, eins og segir í því gjafabréfi. Gjafabréf Þórðar biskups er birt í Lovsamling for Island, I, bls. 508–509, og er gjafabréfið birt frá orði til orðs í grg. frv. Þar segir m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Góðum og guðhræddum lesendum og heyrendum þessa bréfs óska eg. Þórður Þorláksson, Superintendens Skálholtsstiftis, guðs náðar og miskunar, með tímanlegum og eilífum frið fyrir vorn drottinn Jesum Christum: Hérmeð kunnugt gjörandi, að ég hefi í guðs nafni og góðri meiningu tileinkað og gefið fátækum guðs þurfamönnum, einkum munaðarlausum ekkjum og föðurlausum börnum í Hegraness þingi til ágóða og viðhjálpar, mína eignarjörð Ytra-Vallholt í Skagafirði, eptir því sem mitt testamentisbréf, daterað Skálholti þann 30. júnii Anno 1690 og auglýst á alþingi í lögréttu þann 10. júlii sama árs, útvísar, hvers bréfs póstur og innihald um sagt efni svo er hljóðandi orð fyrir orð sem eptir fylgir:

Sanetæ Mariæ kirkju að Hólum í Hjaltadal, hvar ég er borinn og barnfæddur, gef ég jörðina Ytra-Vallholt, XI hundruð að dýrleika, með VI kúgildum, hverja jörð mér fékk og gaf mín elskulega fósturmóðir, Halldóra Pétursdóttir, í próventu, með samþykki og ráði síns fróma og góða ektamanns, Hallgríms Guðmundssonar. Jörð sú er í Skagafirði, Hegraness þingi og Holts kirkjusókn. Skal jörðin, með kúgildunum og öllu því sem henni með réttu tilheyrir, vera æfinlegt kristfé héðan í frá. En það skil ég til, að fátækar, munaðarlausar ekkjur og föðurlaus börn, sem helzt eru þurfandi í Norðlendinga fjórðungi, einkum Hegraness þingi, hafi not af jörðinni. Biskup á Hótum sjái fyrir jörðinni og hennar afgjaldi sem bezt hentar, og fátækum guðs þurfamönnum má bezt haga &c.“

Gjafabréfið er allmiklu lengra. Skv. ákvæðum gjafabréfsins skal jörðin Ytra-Vallholt vera ævinlegt kristfé, og með því öðlast ábúandi hennar ekki kauprétt skv. ábúðarlögum og jarðalögum. Á hinn bóginn hefur Alþingi í nokkrum tilvikum afgreitt sérstök lög um sölu kristfjárjarða, þannig að talið er að Alþingi hafi til þess fullt vald að kveða á um breytingar á gjafabréfum slíkum sem ég las hér kafla úr. Fyrir því eru nokkur fordæmi. Fyrir lýðveldistökuna 1944 var sótt um leyfi konungs í slíkum tilvikum og konungur Danmerkur og Íslands á þeirri tíð gaf leyfi sitt fyrir því að fjölmargar jarðir, sem voru kristfjárjarðir eða amtgjafasjóðsjarðir, voru seldar einstaklingum. Fyrir slíkum ráðstöfunum eru því ærin fordæmi.

Jörðin Ytra-Vallholt er sjálfseignarstofnun, sem nefnd er Legatssjóður Ytra-Vallholts. Skv. gjafabréfinu var Hólabiskupi falið að hafa umsjón með henni. Síðustu áratugi hefur prófasturinn í Skagafjarðarprófastsdæmi haft þessa umsjón með höndum í umboði biskups.

Í frv. þessu er lagt til að ríkisstj. fái heimild til að selja þessa jörð og annast um sölu hennar. Eðlilegt er að þar sé kveðið á um að matsverð gildi varðandi söluverð og er gert ráð fyrir að verð fari eftir mati dómkvaddra manna og andvirði jarðarinnar verði síðan afhent biskupi til ráðstöfunar í samræmi við ákvæði gjafabréfsins. Jafnframt er gert ráð fyrir því að kaupandi greiði kostnað við matið til þess að fullnægja því að fullt verð komi fyrir þessa eign.

Ábúandinn á Ytra-Vallholti, Hafsteinn Lúðvíksson, hefur búið þar síðan 1964. Hann er eigandi að nálega öllum mannvirkjum á jörðinni, öllum húsum, ræktun og mestöllum girðingum. Þessi mannvirki eru allmikil vegna þess að ábúandinn, Hafsteinn Lúðvíksson, er mikill myndarbóndi og duglegur og hefur þess vegna gert mikið á jörðinni. Ef svo færi, sem vitaskuld kemur að, að ábúendaskipti yrðu á þessari jörð og nýr ábúandi keypti ekki af fráfaranda, þá yrði Legatssjóði Ytra-Vallholts skylt að leysa til sín eignir núverandi ábúanda ef hann færi af jörðinni. Til þess hefur sjóðurinn ekkert bolmagn. Það er lítið fé í þeim sjóði. Þess vegna er betur séð fyrir hagsmunum sjóðsins með því að sala fari fram á jörðinni en hið gagnstæða, þó að einhver kynni að ætla annað.

Ég vil svo geta þess að með frv. eru tvö fskj., meðmæli frá jarðanefnd Skagafjarðarsýslu og hreppsnefnd Seyluhrepps. Báðar þessar nefndir mæla með því, að Hafsteinn Lúðvíksson fái ábýlisjörð sína keypta. Bæði fskj. eru með undirskrift Gunnars Gíslasonar sem er ritari bæði jarðanefndar og hreppsnefndar. Má vel geta þess hér að sá Gunnar Gíslason er séra Gunnar Gíslason, fyrrv. alþm. og prófastur í Glaumbæ, sem hafði umsýslu með þessari eign í umboði biskups til skamms tíma.

Ég leyfi mér svo að mælast til þess að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.