10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4574 í B-deild Alþingistíðinda. (3938)

439. mál, innheimta tekjuskatts

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 426 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. um innheimtu tekjuskatts.

Það er almennt viðurkennt að tekjuskattur, sem hafa átti þann tilgang að vera tekjujöfnunartæki þannig að skattbyrði yrði jafnað réttlátlega niður á þjóðfélagsþegnana, hefur ekki náð tilgangi sínum. Þvert á móti hefur tekjuskatturinn að verulegu leyti framkallað ójöfnuð sem einkanlega má rekja til þess að allt of margir komast upp með að telja ekki fram sínar raunverulegu tekjur. Þó að menn viðurkenni almennt þennan ójöfnuð hefur ekki náðst pólitísk samstaða um að afnema tekjuskattinn og leita réttlátari leiða til að jafna skattbyrðina. Grundvöllur ætti þó að vera fyrir því að leita nýrra leiða í þessu efni og afnema tekjuskattinn ef marka má að fyrir þinginu liggja tvær till. um afnám tekjuskattsins.

fsp., sem hér er fram borin, er sett fram í þeim tilgangi að varpa ljósi á það hvernig tekjuskattsbyrðin raunverulega dreifist milli einstaklinga og einstaklinga með atvinnurekstur svo og hvernig tekjuskatturinn skiptist milli hinna einstöku rekstrarforma í atvinnurekstrinum. Þessar upplýsingar hafa ekki legið á lausu, en á fjárlögum kemur einungis fram heildartalan um tekjuskatt einstaklinga sem er á árinu 1984 áætlaður 1 milljarður 885 millj. og félaga 340 millj. Ég tel að það hljóti að vera bæði gagnlegt og nauðsynlegt fyrir þá umr. sem nauðsynlegt er að fram fari hér á hv. Alþingi um afnám tekjuskattsins að þessar upplýsingar liggi fyrir. Ég er sannfærð um að með slíkri sundurliðun og þeim upplýsingum, sem þessari fsp. er ætlað að varpa ljósi á, komi fram staðfesting á að tekjuskatturinn er sérskattur á launþega. Liggi það fyrir svart á hvítu ætti það að auðvelda hv. þm. að ná samstöðu um að afnema þennan óréttláta skatt og leita þá nýrra og sanngjarnari leiða til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Fsp. sú sem ég beini til hæstv. fjmrh. á þskj. 426 er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hverju nam innheimtur tekjuskattur á árinu 1983 og hvernig skiptist hann á eftirtalda aðila:

a) einstaklinga,

b) einstaklinga með atvinnurekstur,

c) hlutafélög,

d) samvinnufélög,

e) sameignarfélög?

2. Hve margir greiddu tekjuskatt á árinu 1983 skv. sömu sundurliðun og í 1. lið og hver var fjöldi skattskyldra aðila, sundurgreint á sama hátt?“