02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru fjölmargar stofnanir í þjóðfélaginu sem eiga við fjárhagserfiðleika að stríða. Hefur þurft að grípa til margvíslegra framkvæmda til þess að halda starfsemi þeirra áfram. Í fyrsta lagi má segja að höfuðástæðan fyrir þessum erfiðleikum séu fjárlög, sem byggð voru á allt öðrum forsendum en reynd varð á, og síðan enn meiri verðbólga fram eftir þessu ári og margvíslegt vanmat á útgjöldum til hinna ýmsu stofnana. Flugmálastjórn hefur ekki farið varhluta af þessu frekar en aðrir og hefur því átt við mikla fjárhagserfiðleika að etja. Þrátt fyrir það hefur flugmálastjórn fengið aukafjárveitingar eins og aðrir, t.d. í sambandi við launabætur, þannig að verðbætur á laun hafa numið 11,8 millj. kr. á þessu ári.

Litlu eftir að ég kom í samgrn. fékk ég orðsendingu frá flugmálastjórn þar sem sagt var að það væri orðið mjög aðkallandi að fá aukafjárveitingu vegna aðkeypts snjómoksturs á flugvöllum landsins á tímabilinu 1. jan. til 30. apríl. Það fylgdi með á þessu minnisblaði, sem dagsett er 2. júní, að aðkeyptur snjómokstur á flugvöllum á þessu tímabili hafi numið 2 millj. 486 þús. kr., en 50% af þessum fjárlagalið séu aðeins 915 þús. þannig að mismunur var 1 millj. 571 þús. Af þessum mismun höfðu verið greiddar, að mig minnir, í marsmánuði 600 þús. kr., en ógreiddar voru 971 þús. kr. rúmlega. Ég beitti mér fyrir því við fjmrh. að fá þessa aukafjárveitingu og hún fékkst nokkru síðar, ég man nú ekki alveg dagsetninguna. Þannig voru að mínum dómi inntar af hendi greiðslur fyrir allan kostnað við aðkeyptan snjómokstur á flugvöllum landsins.

Í ljós hefur svo komið að það er um kostnað að ræða sem ekki hefur verið greiddur þrátt fyrir þetta. Ég fékk rétt áðan yfirlit frá Vegagerðinni sem er gert í miklum flýti. Þar var skuld 0.5 millj. 1. maí og 1.2 millj. 1. okt. Fyrri hluta árs greiddi flugmálastjórnin upp í reikninga. Síðasta greiðsla var í júní, 0.3 millj. kr. Engar greiðslur hafa borist síðan. Kostnaður fyrri hluta árs er einkum vegna snjómoksturs en kostnaður síðari hluta árs einkum vegna framkvæmda á flugvöllum.

Mér kom á óvart, þegar ég kom heim til mín kl. rúmlega hálf átta í gærkveldi og kveikti á sjónvarpinu, sú frétt sem sjónvarpið birti. Mér var svo sagt síðar í gærkveldi að sú frétt hefði verið mjög lík því í Ríkisútvarpinu. Ég hafði ekki fengið þessa frétt, ég heyrði hana í sjónvarpi. Ég skal hins vegar upplýsa það hér að margar viðræður hafa átt sér stað milli mín, flugmálastjóra, fjmrh. og fjárlaga- og hagsýslustjóra um hinn almenna fjárhagsvanda flugmálastjórnar. Snjómokstursliðurinn er ekki nema lítill hluti af þeim vanda en mönnum er oft gjarnt að rugla saman óskyldum málum.

Ég hefði talið að það sé skylda hvaða embættismanns sem er áður en hann tekur viðamiklar ákvarðanir að bera það undir sína yfirmenn. Í fyrsta lagi átti hann í þessu tilfelli að bera þetta mál undir það rn. sem flugmálastjórn heyrir undir, samgrn., og samgrn. að bera það undir ráðh. En ég fæ þetta bréf kl. 9.15 nákvæmlega í morgun. Þá er bannið búið að vera í gildi á annan sólarhring. Ég fæ fregnir af því af tilviljun af því að ég horfi á sjónvarp. Nú er það kapítuli út af fyrir sig að ríkisfréttamiðlarnir hafa ekki fyrir því að spyrja viðkomandi ráðh. eða rn. um hvort fréttin sé rétt eða hvort þetta sé ákvörðun rn. Ráðuneytisstjórinn í samgrn. sagði mér að við sig hefði ekki verið talað og það var ekki talað við mig. Og margt má nú segja um íslenska fréttamenn annað en það að þegar einhver vandræði eru á ferðinni láti þeir hjá líða að spyrja næsta mann hvort hann sé ekki ósammála því sem hinn hafi sagt. En í þessu tilfelli láðist þeim ágætu mönnum þetta. Skal því hér komið á framfæri.

Ég tel furðulegt að einn embættismaður skuli leyfa sér að senda slíka tilskipun út sem flugmálastjóri gerði. Þar segir hann:

„Vegna rekstrarfjárskorts flugmálastjórnar er óhjákvæmilegt að gera eftirfarandi ráðstafanir þar til núverandi ástandi léttir:

Í fyrsta lagi: A. Frá 1. nóv. verður snjómokstur ekki framkvæmdur á flugvöllum landsins á kostnað flugmálastjórnar, nema á þeim flugvöllum þar sem flugmálastjórn hefur eigin tæki, þar verður snjóhreinsun framkvæmd á meðan eldsneytisbirgðir eru fyrir hendi og ekki bila vélar.

B. Viðhaldi á flugbrautarljósum, aðflugsbúnaði og leiðarflugsbúnaði verður ekki hægt að sinna. Flugprófunum verður þó haldið áfram.

C. Ekki er fé til að kaupa almenna varahluti né heldur nokkra vinnu eða þjónustu frá öðrum en reglulegum starfsmönnum flugmálastjórnar. Kaupum á þjónustu vegna rafmagns og síma verður þó haldið áfram.

D. Kaupum á almennum rekstrarvörum verður hætt og beiðnir ekki gefnar út.

Í öðru lagi: Frá og með þriðjudeginum 15. nóv. n.k. verður yfirvinnu á flugvöllum hætt, nema flugrekstraraðilar eða sveitarfélög eða aðrir greiði þann kostnað sem af því hlýst. Þjónustutími flugvalla verður því alls staðar innan almenns dagvinnutíma, þ.e. kl. 8–17 mánudaga til föstudaga að báðum meðtöldum, nema þar sem vaktavinna er á flugvöllum, þar verður þjónustutími óbreyttur, þ.e. Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir.

Í þriðja lagi: Neyðartilvik eru auðvitað ætíð undanþegin reglum af þessu tagi, enda helgast þau af neyðarrétti.

Á næsta ári má jafnframt gera ráð fyrir skertri þjónustu flugmálastjórnar.

Lögð er áhersla á að þessar aðgerðir eru eingöngu tilkomnar vegna þess að fjármagn er ekki fyrir hendi.

Brýnt er fyrir öllu starfsfólki flugmálastjórnar að sýna eins mikla lipurð og sveigjanleik í störfum sínum innan þess ramma sem að framan greinir til þess að milda hugsanleg óþægindi, sem gætu hlotist af þessu ástandi fyrir flugfarþega og flugrekstraraðila.“

Þessi tilskipun er dagsett 31. okt. 1983, kemur seint í gærdag í samgrn. í umslagi, sem skrifað er utan á til mín, og eins og ég sagði áðan, ég fæ það í hendur kl. 9.15 í morgun ásamt þessu bréfi:

„Efni: Rekstrarfjárvandi flugmálastjórnar.

Með tilvísun til viðtala og bréfa í haust, þar sem alvarlegur rekstrarfjárvandi flugmálastjórnar var rækilega kynntur, hefur undirritaður ekki talið sér annað fært en að draga saman rekstur embættisins svo sem frekast er unnt og eru þær aðgerðir í meðfylgjandi bréfi til stjórnenda flugmálastjórnar.

Það er von mín, herra samgrh., að þér fallist á að það sé í samræmi við embættisskyldu mína. Flugmálastjórinn. Pétur Einarsson.“

Nú, síminn þagnaði ekki í gærkveldi eftir fréttirnar. Það var eiginlega alveg hrein furða að hv. fyrirspyrjandi skyldi komast að, hann var alveg sérstaklega heppinn að ná sambandi, því það var aldrei hlé í hálfa mínútu. Ég gat ekkert gert fyrr en ég fékk í hendur bréfið, því yfirleitt hef ég þann hátt á að svara ekki bréfum fyrr en ég er búinn að lesa þau, og það ætla ég að biðja menn að virða mér til vorkunnar. Eftir að ég hafði lesið bréfið liðu ekki nema nokkrar mínútur þar til ég hringdi í skrifstofustjóra samgrn. og bað hann að skrifa bréf og koma með til mín. Því þannig hagar til að samgrh. á ekki einu sinni eldhúskoll í samgrn., hann hefur aðsetur inni á Laugavegi 116, og verður því að koma með bréfin þangað. Þar undirritaði ég bréfið og ráðuneytisstjórinn fór með það til flugmálastjóra. Það bréf er eðlilega dagsett í dag og er svohljóðandi:

„Með vísan til bréfs yðar, hr. flugmálastjóri, dags. 31. okt. s.l. og tilkynningar yðar um ráðstafanir vegna rekstrarfjárskorts flugmálastjórnar, útgefinnar sama dag, gefur ráðuneytið yður hér með fyrirmæli um að draga ofangreinda tilkynningu þegar í stað til baka.

Jafnframt sér ráðuneytið ástæðu til að veita yður alvarlega áminningu fyrir að gefa ofangreinda tilkynningu út og skapa þannig óviðunandi ástand í öllu áætlunarflugi innanlands.“

Undir þetta bréf rita ég ásamt Ólafi S. Valdimarssyni ráðuneytisstjóra í samgrn.

Samkvæmt þessu er fyrra bréf, sem fyrirspyrjandi gerði að umræðuefni, tekið aftur. Fyrirspyrjandi spurði hvaða ástæður lægju að baki útgáfu þessa bréfs. Um þær veit ég ekki gjörla aðrar en þær að flugmálastjórn á í fjárhagserfiðleikum. Ég hafði trú á því að þeir erfiðleikar mundu leysast að verulegu leyti á næstu dögum, og ég hafði sagt flugmálastjóra það í gær síðast að að þessu væri unnið og fjárlaga- og hagsýslustofnun hefði fengið það mál í sínar hendur, og við höfum rætt ítarlega hvað eftir annað saman, ég og fjmrh.

Önnur fsp. hv. þm., hvort ríkisstj. hefði fjallað um þetta mál. Eðlilega ekki, því þetta hefur ekki komið til hennar kasta. Þá spurði hv. þm. hvort samgrh. gæti staðfest að ekki yrði skerðing á þessum samgöngum. Ég get staðfest það að ég mun vinna að því að haldið verði uppi eðlilegum samgöngum við landsbyggðina. Og ef grípa þarf til einhverrar skerðingar eða samdráttar í starfsemi flugmálastjórnar þá gef ég leyft mér að benda flugmálastjórn á ýmsar aðrar leiðir handhægari og nærtækari en að loka velflestum flugvöllum úti á landi. Að beina verkefninu eingöngu í þá átt tel ég vægast sagt fyrir neðan allar hellur.

Mér koma þessi viðbrögð flugmálastjóra ákaflega á óvart. Ég hef átt við hann samstarf frá því að ég tók við ráðherraembætti samgrh. í lok maímánaðar og á milli okkar hefur verið ágæt samstaða og samvinna. Við höfum mjög oft rætt saman, þó ekki sé lengri tími liðinn, og náð góðri samvinnu. Þetta kemur mér svo á óvart að ég er miklu meira undrandi en reiður yfir þessum tiltektum. Ég vona að svona tiltektir verði ekki endurteknar, hvorki af þessum embættismanni eða öðrum. Menn verða að reyna að ræða saman um erfiðleika, sem við blasa á hverjum tíma, og reyna að finna lausn á þeim en ekki að búa til einhverja hasarmynd í sjónvarpi, útvarpi og fjölmiðlum. Það er ekki til þess fallið að leysa hin ýmsu vandræði sem að steðja í þjóðfélaginu hverju sinni.

Samgrn. hefur gefið út eftirfarandi fréttatilkynningu nú um hádegið:

„Vegna tilkynningar, sem flugmálastjóri gaf út 31. okt. s.l. um ráðstafanir vegna rekstrarfjárskorts flugmálastjórnarinnar, svo og fréttar um sama efni í sjónvarpinu í gærkveldi vill rn. taka eftirfarandi fram:

Í okt. s.l. átti flugmálastjóri viðræður við samgrh. og fjmrh. um rekstrarfjárvanda flugmálastjórnar. Í framhaldi af viðræðum var fjárlaga- og hagsýslustofnun falið að leita lausnar á þessum fjárhagsvanda og hefur hún unnið að því að undanförnu.

Aðgerðir flugmálastjóra koma því rn. algerlega í opna skjöldu og voru ekki tilkynntar því fyrr en eftir að þær tóku gildi. Barst þannig bréf um þær frá flugmálastjóra ekki til samgrh. fyrr en í morgun. Rn. gaf flugmálastjóra strax í morgun fyrirmæli um að draga aðgerðir sínar til baka, enda var þá þegar að skapast óviðunandi ástand í áætlunarflugi innanlands.

Í framhaldi af þeirri lausn, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin vinnur nú að samkv. framansögðu á fjárhagsvanda flugmálastjórnar á þessu ári, hefur orðið samkomulag um það milli samgrh. og fjmrh. að gerð verði úttekt á fjármálum og starfsemi stofnunarinnar.“

Að síðustu vil ég taka fram að það mundi ég síðast gera sem samgrh. að standa að því að stöðva eðlilegar samgöngur til byggðarlaga úti um landið. Þá væri ég ekki trúr því byggðarlagi sem ég er fæddur og uppalinn í og hef lengst átt samleið með og öllum öðrum byggðarlögum sem líkt er ástatt um hvað samgöngur snertir.