10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4575 í B-deild Alþingistíðinda. (3940)

439. mál, innheimta tekjuskatts

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. svör hans, en ég vil lýsa vonbrigðum mínum og undrun á því að þessar upplýsingar séu ekki aðgengilegri í kerfinu en hér hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh. Þessar upplýsingar hljóta að vera nauðsynlegar til að varpa ljósi á hvernig tekjuskatturinn dreifist innbyrðis og til að flýta fyrir því að ná fram pólitískri samstöðu um að afnema tekjuskattinn og leita nýrra leiða til tekjuöflunar og sanngjarnari dreifingar skattbyrðar.

Alþfl. hefur haft það lengi á stefnuskrá sinni að afnema þennan launamannaskatt og lagt fram um það tillögur. Ég trúi ekki að nokkur mæli því í gegn að þetta er óréttlátur skattur og að þessi skattbyrði lendir að mestu leyti á hinum almenna launamanni, því að skattkerfið og undandráttur frá skatti gerir öðrum kleift að sleppa billega frá því að greiða sinn skerf. Mér finnst þetta koma nokkuð ljóslega fram í bæklingi eða bók sem Framkvæmdastofnun ríkisins gaf út um vinnumarkaðinn 1982. Þessar upplýsingar Framkvæmdastofnunar eru fengnar með sérstakri úrvinnslu upplýsinga sem eru á launamiðum og eigendaframtölum. Þar kemur fram að meðallaun eigenda í öllum atvinnugreinum voru tæpum 40% lægri en faglærðra í öllum atvinnugreinum og 14% lægri meðaltalslaun höfðu atvinnurekendur á árinu 1982 en ófaglært verkafólk og skrifstofufólk. Að vísu er hér um áætluð laun eigenda í atvinnurekstri að ræða, en þessar tölur staðfesta ótvírætt að okkar hripleka og ósanngjarna skattkerfi þarfnast endurskoðunar og að afnema ber þennan óréttláta launamannaskatt sem tekjuskatturinn er.

Þetta er auðvitað ekkert annað en launamannaskattur. Um það vitnaði t. d. Ólafur Björnsson í Vísi í okt. 1975 í ítarlegri grein sem hann nefndi „Tekjuskattur, sérskattur á launþega“. Þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Tekjuskattar, hvort heldur til ríkis eða bæjar- og sveitarfélaga, verða í framkvæmd sérskattar á tekjur þeirra er vinna í þjónustu annarra, þar eð aðrir geta nokkurn veginn ákveðið sjálfir skattlagningu sína. Það er því ekki á rökum reist að tekjuskatturinn sé tæki til þess að jafna tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Það á aðeins við um innbyrðis tekjuskiptingu milli launþega, en engan veginn þegar litið er á þjóðfélagið í heild.“

Þetta er hverju orði sannara hjá prófessor Ólafi Björnssyni, og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. í framhaldi af þessu hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að tekjuskatturinn sé sérskattur á launþega og þá einnig í framhaldi af því hvort nokkur áform séu uppi í ríkisstj. um að afnema tekjuskattinn. En það hlýtur þó að vera lágmarkskrafa að meðan þessi skattur er lagður á sé hægt á auðveldan hátt að fá upplýst hvernig hann skiptist innbyrðis. Ég tel skyldu fjmrh. að sjá svo um að þær upplýsingar séu aðgengilegar meðan þessi skattur er á annað borð lagður á.

Í framhaldi af því vil ég einnig spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hyggist þá gera einhverjar ráðstafanir í því skyni í kjölfar þessara takmörkuðu upplýsinga sem hann hefur gefið þdm. og við þeirri fsp. sem ég hef hér fram borið.