10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4576 í B-deild Alþingistíðinda. (3942)

285. mál, mengun lofts og lagar

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina til hæstv. samgrh. og heilbrrh. fsp. um rannsóknir á mengun lofts og lagar við Ísland. Fsp. er svohljóðandi:

„1. Hvernig er fylgst með langtímabreytingum á mengun lofts og lagar við Ísland?

2. Hvaða niðurstöður liggja fyrir um slíka mengun, m. a. varðandi geislavirk efni og súra úrkomu?“ Markmiðið með fsp. er að fá upplýst hvernig þessum málum er hagað hérlendis, en tilefnið er m. a. þær fréttir sem nýlega hafa borist um það að vart hefði orðið geislavirkra efna á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands. Þar hefði komið fram við mælingar cesíummengun þar sem um er að ræða geislavirkt efni sem rakið hefur verið til Windscale-stöðvarinnar á Bretlandi, en það er stöð þar sem unnið er úr kjarnorkuúrgangi.

Nú hefur komið í ljós við mælingar að mengun frá þessari stöð hefur komið fram við mælingar í Norðursjó og í Norðurhöfum, þ. e. við Austur-Grænland. Hér er vissulega um mál að ræða sem nauðsynlegt er að íslensk stjórnvöld fylgist náið með þar sem Austur-Grænlandsstraumurinn kvíslast sitt hvoru megin við Ísland og getur borið mengun á íslenska veiðislóð. Afleiðingar af slíku, ef um verulega mengun er að ræða, geta vissulega orðið alvarlegar fyrir fiskveiðar og sölu fiskafurða frá Íslandi. Ísland hlýtur því að gera kröfur til þess að fyrir þessa mengun verði tekið. Ég hygg raunar að Ísland hafi slegist í hóp með öðrum Norðurlöndum sem hafa óskað eftir úrbótum á þessari úrgangsvinnslu kjarnakleyfra efna á Bretlandseyjum.

Hinn mengunarþátturinn sem sérstaklega er nefndur í fsp. varðar súra úrkomu. En sem kunnugt er veldur fátt meiri áhyggjum í iðnaðarríkjum nú en mengun af völdum súrrar úrkomu sem stafar af brennisteinssamböndum og fleiri efnasamböndum sem berast út í andrúmsloftið frá iðjuverum af ýmsu tagi. Ástandið er nú þannig í Mið-Evrópu að verulegur hluti skóglendis t. d. í Vestur-Þýskalandi er þegar stórskemmdur. Maður les jafnvel um að 1/3 skóglendis þar í landi beri nú þegar skaða af völdum mengunar, sérstaklega vegna súrrar úrkomu.

Sama er að segja um Norðurlönd sem verða fyrir barðinu á þessari mengun, sérstaklega vegna þess að hún berst með suðvestlægum eða vestlægum vindum frá Bretlandseyjum og Mið-Evrópu inn yfir Norðurlönd og hefur valdið þar geysilegu tjóni nú þegar á skóglendum og á fersku vatni. Þannig er mikið af veiðivötnum í Noregi þegar spillt og sumpart ördeyða svo að þar er engan fisk að fá og ekkert líf sem staðið geti undir vatnafiski.

Hérlendis höfum við talið okkur að mestu laus við mengun af þessu tagi. Engu að síður hljótum við að eiga að fylgjast með slíku því að loftstraumar berast inn yfir Ísland og loftmengun af þessu tagi getur hingað borist og valdið tjóni sem sérstaklega mundi þá bitna á ferskvatni, auk sýringar jarðvegs.

Hv. alþm. er kunnugt að umhverfismál okkar eru ekki í því horfi sem skyldi hvað varðar stjórnsýslu og fyrirkomulag þessara mála. Ég veit að þessi mál heyra undir ýmis ráðuneyti, þ. á m. heilbrmrn. sem fer með hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit, en einnig undir samgrn. sem fer með málefni Siglingamálastofnunar. Hún hefur með að gera eftirlit með mengun sjávar og eftirlit með alþjóðasamningum sem Íslendingar hafa gerst aðilar að varðandi mengun sjávar. Þar má nefna samninginn um bann við losun úrgangsefna í hafið, hina svokölluðu Osló-samþykkt og einnig Parísar-samninginn um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum sem staðfestur var með lögum frá Alþingi 18. maí 1981.

Umræða um endurbætur á löggjöf varðandi umhverfismál varðar ekki síst mengunarvarnir og nauðsynina á að koma þeim málum í viðunandi horf, gera löggjöfina skilvirka að þessu leyti og tryggja samræmingu í þessum efnum.

Ég vænti þess að þau svör sem vænta má frá hæstv. ráðh. varpi ljósi á þessi efni, sem hér er um spurt, en það varðar sérstaklega langtímabreytingar vegna mengandi efna.