10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4578 í B-deild Alþingistíðinda. (3943)

285. mál, mengun lofts og lagar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Rannsóknir á mengun hafsins við Ísland hafa hingað til verið fremur takmarkaðar og tæpast hægt að tala um markvissar athuganir eða mælingar á mengun sjávar hér við land. Þess vegna er mjög erfitt að fullyrða um það hvort mengun sjávar hafi hér vaxið á síðustu árum eins og víða annars staðar í heiminum, staðið í stað eða jafnvel minnkað. Helst er rætt um mengun í sjó sem mjög staðbundið fyrirbæri, svo sem mengun einstakra hafna og/eða mengun frá verksmiðjum.

Að vísu eru, vegna krafna frá erlendum kaupendum fiskafurða héðan, framkvæmdar reglulega mælingar á tilvist kvikasilfurs og þungmálma í fiskafurðum. Má segja að þessar mælingar eigi að gefa nokkra vísbendingu yfir lengra tímabil um breytingar á tilvist þessara efna í hafinu ef um slíkt er að ræða, þar eð slíkt ætti að koma fram í breyttu innihaldi þeirra í fiskafurðum. Þessar mælingar, sem hófust að marki 1974, leiða í ljós að litlar breytingar hafa orðið á tilvist þessara efna í helstu fiskafurðum okkar á þessu tímabili.

Á vegum aðildarríkja tveggja alþjóðasamninga um varnir gegn mengun hafsins, þ. e. svonefndrar Osló-samþykktar frá 1972 um varnir gegn losun úrgangsefna í hafið frá skipum og flugvélum og svonefndrar Parísarsamþykktar frá 1974 um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, eru nýlega hafnar skipulagðar mælingar (monitoring program) í Norðaustur-Atlantshafi. Í þessum mælingum er lögð áhersla á að taka sjávarsýni, botnssýni og ákveðnar fisktegundir til athugunar. Vonast er til að Ísland geti orðið virkur þátttakandi í þessari starfsáætlun sem væntanlega mun, þegar fram liða stundir, varpa frekara ljósi á mengun sjávar hér við land. Nú nýlega hefur verið óskað eftir því við íslensk stjórnvöld frá erlendum aðildarríkjum að Ísland taki þátt í þessu verkefni þar sem gera megi ráð fyrir að mælingar hér við land endurspegli nokkuð hin náttúrlegu mörk mengunar í sjó.

Af þungamálmum hefur kvikasilfur mest verið rannsakað í sjó í grennd við Ísland. Var það vegna þess að fyrir nokkrum árum komu fram erlendar niðurstöður, sem bentu til þess að allmikið kvikasilfur væri í pólsjó. Í stystu máli hafa rannsóknir hér stangast mjög á við þær erlendu og sýnt að styrkur kvikasilfurs í sjó er mjög lítill.

Þegar gaus í Heimaey 1973 og hraun rann í sjó kom fram nokkur aukning á kvikasilfri og einnig kísilflúor, járni, mangan og zinki. Vegna mikillar blöndunar við eyna náðu þessi áhrif skammt og ollu engum skaða.

Rannsóknir á DDT og öðrum pólyklórineruðum kolvatnsefnissamböndum, svo sem PCB, í lífverum sjávar hér við land eru mjög takmarkaðar. Árið 1971 var þó safnað sýnum af ýmsum tegundum fiska sem voru rannsökuð í Woods Hole í Bandaríkjunum. Niðurstöður bentu til nokkurs styrks þessara efna í sýnum héðan en miklu lægri þó en er í lífverum frá svæðum þar sem mengunar gætir, eins og t. d. í Norðursjó. Þess ber að gæta að talið er að DDT og PCB berist loftveg um alla jörðu.

Um mælingar á mengun af völdum geislavirkra úrgangsefna í hafinu er það að segja að þær hafa ekki farið fram hér við land. Nýlegar athuganir á vegum Svía og Dana við Austur-Grænland benda til þess að geislavirk mengun hafi vaxið í sjó í Austur-Grænlandsstraumnum sem gengur upp að Íslandsströndum. Þessa auknu mengun, sem enn er þó langt fyrir neðan hættumörk, má rekja til endurvinnslustöðva fyrir kjarnorkuúrgang í Evrópu, aðallega þó á Englandi. Ísland hefur brugðið hart við þessum teiknum og lagt fram tillögur ásamt Dönum, Norðmönnum og Svíum um að tækjabúnaður endurvinnslustöðvanna verði bættur þannig að komið verði í veg fyrir þessa mengun.

Hollustuvernd ríkisins hefur framkvæmt mælingar til að fylgjast með áhrifum af völdum mengandi starfsemi. Í því sambandi hafa einnig verið gerðar bakgrunnsmælingar til að fá upplýsingar um ástandið eins og það var áður. Niðurstöður þessara mælinga má nota til að fylgjast með þróun mengunar á viðkomandi svæði, en þær eru allt of fáar og strjálar til að gefa upplýsingar um ástand mengunarmála í landinu í heild.

Söfnun úrkomusýna og loftsýna til efnagreiningar hefur verið framkvæmd frá árinu 1958 í samvinnu við erlenda aðila. Athugunin hefur nær eingöngu beinst að súrnun úrkomu af völdum aðfluttrar brennisteinsmengunar. Veðurstofa Íslands hefur annast söfnun sýnishorna, en frá 1978 hefur þetta verið hluti af verkefni á vegum Efnahagsnefndar Evrópu. Söfnun þessara sýna fer nú fram á Írafossi.

Niðurstöður benda til að enn sé loftmengun lítil hér á landi. Brennisteinstvígildi og köfnunarefnistvígildi, sem talin eru valda mestu um súrnun úrkomu, hafa verið mæld en í mjög litlum mæli. Köfnunarefnistvígildi hefur aðeins verið mælt umhverfis Reykjavík þar sem ætla má að styrkur þess sé mestur. Niðurstöður benda til að mengun sé 20–30% af áhyggjumörkum. Mengun af völdum brennisteinstvígildis hefur í öllum tilfellum mælst undir 10% af áhyggjumörkum nema á mjög takmörkuðum svæðum í kringum mengandi starfsemi. Brennisteinstvígildi og köfnunarefnistvígildi eru ekki góðir mælikvarðar á aðflutta mengun. Súlfat, nítrat og sýrustig úrkomunnar gefa fremur vísbendingu um hana. Sýrustig úrkomu í jafnvægi við koltvígildi ómengaðs andrúmslofts er um það bil 5.5. Hér á landi hefur sýrustig í úrkomu mælst nærri þessari tölu, en svo virðist sem sýrustig hafi nokkuð lækkað. Þannig mældist sýrustig áranna 1958–1968 að meðaltali 5.5, en áranna 1974–1979 5.1. Þá mælast öðru hvoru stutt tímabil þar sem sýrustig er verulega lægra.

Það sem gert hefur verið af mælingum á fínu ryki í andrúmsloftinu bendir til þess að rykmengun sé á bilinu 10–30% af áhyggjumörkum. Með fínu ryki er hér átt við rykkorn sem eru minni en 10 mikrómetrar í þvermál.

Lítið hefur verið gert af vatnsmengunarmælingum hér á landi og ekki um neinar reglulegar mælingar að ræða. Nokkuð hefur verið gert til að kanna mengun frá holræsum og benda niðurstöður til þess að á nokkrum stöðum gæti mengunar af þeirra völdum en svo til ekkert er vitað um vatnsmengun af öðrum völdum.

Hér á landi eru geislavirk efni einkum notuð á stærstu sjúkrahúsunum og þá til lækninga, sjúkdómsgreininga og við rannsóknir. Auk þess eru geislavirk efni lítillega notuð við rannsóknir utan sjúkrahúsanna, við kennslu og í iðju og iðnaði. Haft er eftirlit með innflutningi og meðferð geislavirkra efna af hálfu Hollustuverndar ríkisins, áður Geislavarna ríkisins. Með hliðsjón af þeirri notkun sem um er að ræða á ekki að þurfa að óttast mengun vegna geislavirks úrgangs, sérstaklega þar sem meðferð geislavirkra efna hér á landi er í samræmi við reglur Alþjóðageislavarnaráðsins þar um.

Á árunum 1960–1967 fóru fram á vegum Geislavarna ríkisins og Raunvísindastofnunar Háskólans umfangsmiklar mælingar á geislavirkum efnum í andrúmslofti, í kjöti og mjólk. Hliðstæðar mælingar fóru einnig fram í flestum löndum Evrópu um þetta leyti. Var það vegna tilrauna stórveldanna með kjarnorkuvopn ofanjarðar en þær höfðu í för með sér geislavirkt úrfelli um alla jörðina. Niðurstöður þessara mælinga hér voru sambærilegar við hliðstæðar mælingar á hinum Norðurlöndunum.

Á árinu 1967 var ákveðið að þessum mælingum skyldi ekki haldið áfram enda var þá hætt tilraunum með kjarnorkuvopn ofanjarðar auk þess sem mælingar sýndu að magn geislavirkra efna hafði minnkað mikið frá því sem var. Fylgst hefur verið með niðurstöðum mælinga á Norðurlöndunum á 8. og 9. áratugnum. Til samanburðar og fróðleiks má geta þess að þegar mælingum var hætt hér á landi 1967 mældust um 14700 Bq af geislavirku cesíum pr. 1000 litra mjólkur og í Færeyjum mældust á árinu 1981 5100 Bq af geislavirku cesíum pr. 1000 lítra mjólkur.

Á árinu 1982 fóru fram mælingar á styrk geislavirks cesíum í Norðaustur-Grænlandsstraumnum. Sýni voru tekin nálægt 70° N og 20° V. Styrkur geislavirks cesíum reyndist vera 5.4–6.8 Bq pr. 1000 lítra sjó. Vegna hins geislavirka úrfellis sem féll til jarðar á 7. áratugnum er styrkur geislavirks cesíum á þessu hafsvæði áætlaður um 5 Bq pr. 1000 lítra sjó. Þessa örlitlu aukningu á styrk geislavirks cesíum, 0.4–1.8, má rekja til kjarnorkuvera í Bretlandi er leiða geislavirkan úrgang í Írlandshaf. Þaðan berast efnin norður með Danmörku og Noregi og allt norður til Svalbarða en sveigja síðan með straumnum niður með Austur-Grænlandi. Talið er að það taki efnin 8–10 ár að berast þessa leið. Af hálfu Hollustuverndar ríkisins er fylgst náið með þróun þessara mála.

Í þessu svari er stuðst við upplýsingar frá Siglingamálastofnun ríkisins, mengunarvarnadeild, og geislavörnum innan Hollustuverndar ríkisins.