10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4582 í B-deild Alþingistíðinda. (3946)

285. mál, mengun lofts og lagar

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli og ég vil einnig þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargott svar. Því er ekki að neita að geislavirkni í hafi er visst áhyggjuefni hvort sem hún stafar af vinnslu geislavirkra úrgangsefna á Bretlandseyjum eða slysi sem gæti orðið t. d. á kjarnorkuknúnum kafbát einhvers staðar í hafinu. Það er ekki vegna þess að kjarnorkuknúnir kafbátar muni geta valdið sprengingu heldur getur leki af geislavirkni í hafinu í nágrenni Íslands haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sölu okkar á fiskafurðum.

Á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins höfum við reiknað með því, því að það eru fleiri en þessar tvær stofnanir sem taldar voru upp sem telji sér málið skylt, við höfum reiknað með því að fyrr eða síðar yrðum við að vera í stakk búnir til þess að geta mælt geislavirkni í fiskafurðum hvenær sem þess er krafist. Mér er ekki kunnugt um hversu mikils búnaðar er þörf en ég hef við lauslega áætlun talið að hann sé ekki mjög mikill. Hitt er alveg laukrétt að mjög nauðsynlegt er að þarna sé einhver samræmd afstaða og aðstaða og alger óþarfi að margar stofnanir séu að grautast í þessu í einu.

Við höfum, eins og reyndar kom fram, í mörg ár fylgst með þungmálmamengun og reyndar einnig .í sambandi við þessar DDT-mælingar frá 1970, það litla sem gert var. Ég get fullyrt það að vottorð um að engra þungmálma sé að vænta í íslenskum fiskafurðum hafa haft sitt að segja við sölu á þessum afurðum. Þetta getur hvenær sem er átt við um geislavirkni líka.