10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4582 í B-deild Alþingistíðinda. (3947)

441. mál, minniháttar einkamál fyrir héraðsdómi

Fyrirspyrjandi (Jón Magnússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„Hvað liður undirbúningi að setningu laga um meðferð minni háttar einkamála fyrir héraðsdómi?“

Á Alþingi 1976–1977 var lögð fram og samþykkt þáltill. um fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum. Flm. voru Bragi Sigurjónsson o. fl. Till. var á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj. að hún láti nú þegar semja frv. til breytinga á lögum og geri aðrar ráðstafanir til undirbúnings því að komið verði á fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum. M. a. geti dómari ákveðið að mál sem höfðuð eru af viðskiptavini verslunar eða þjónustufyrirtækis vegna viðskipta við fyrirtækið hljóti skjótari og ódýrari afgreiðslu en nú tíðkast. Meðferð þessari megi beita við minni háttar mál, sem varða allt að 100 þús. kr. Við þessar lagabreytingar verði meðferð líkra minni háttar mála í öðrum löndum höfð til hliðsjónar en reglur höfða til íslenskra aðstæðna.“

Hér ber að geta að sú fjárhæð sem nefnd var í þáltill. var að sjálfsögðu í gömlum krónum. Í ýmsum löndum hafa verið lögfestar reglur sem heimila einfaldari og ódýrari meðferð einkamála en almennt gildir. Í því sambandi má benda á Bandaríkin, Bretland og Svíþjóð. Í Bandaríkjunum hefur þessi skipan mála verið við lýði í sumum ríkjum allt frá árinu 1912, en lög um þessi efni voru sett í Bretlandi árið 1973 og í Svíþjóð árið 1974. Einkenni þessara svokölluðu minni háttar einkamála eru þau, að einungis er heimiluð einfaldari málsmeðferð fyrir dómstólum þegar kröfufjárhæð er undir ákveðinni hámarksfjárhæð. Í Bandaríkjunum er miðað við 1000 dollara, í Bretlandi 2000 pund og í Svíþjóð 10400 sænskar kr. Markmið slíkrar lagasetningar í umræddum löndum er að tryggja það að fólk geti náð rétti sínum án þess að þurfa að leggja í meiri háttar kostnað og án þess að biða eftir úrslitum máls í óhæfilega langan tíma. Þá er og annað einkenni þessara mála í umræddum löndum, að ekki er dæmdur annar málskostnaðar en sá sem nemur ferðakostnaði viðkomandi og kostnaði við endurrit og birtingu dóms.

Á undanförnum árum hefur víðast hvar á Vesturlöndum verið leitast við að auðvelda og hraða meðferð einfaldra innheimtumála. Sú lagasetning sem hefur átt sér stað í þeim efnum og önnur svipaðs eðlis koma aðallega þeim til góða sem stunda einhverja atvinnustarfsemi. Í kjölfar aukins neytendastarfs og ríkari neytendavitundar á síðari árum hefur athyglin beinst í auknum mæli að því hvernig einstaklingar geti á sem auðveldastan hátt náð rétti sínum. Hefur mönnum fundist að venjuleg dómstólameðferð væri of seinfarin og kostnaðarsöm, sérstaklega varðandi mál um lágar fjárhæðir. Þessi mál eru þó iðulega ekki jafnauðveld úrlausnar og þau innheimtumál sem ég talaði um. Einstaklinginn getur hins vegar skipt miklu máli að eiga möguleika á því að fá úrlausn slíkra mála án allt of mikils kostnaðar. Það skiptir líka máli í þessu efni að seljendur vöru og þjónustu viti af því að neytendur eiga þess kost að fá úrlausn mála með ódýrum og skjótvirkum hætti. Slíkt veitir nauðsynlegt aðhald, skapar aukið jafnræði á markaðnum og getur skapað fordæmi um það hvað séu góðir verslunarhættir og þjónusta.

Í grg. með þáltill. um fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum frá 1976 segir svo, með leyfi forseta:

„Í neysluþjóðfélagi eins og því íslenska fer ekki hjá því að upp komi fleiri eða færri deilumál, m. a. milli neytenda og þeirra sem selja þeim vörur og þjónustu. Mörg þessara mála varða hvert um sig e. t. v. ekki mikilli upphæð og verður það óhjákvæmilega til þess að neytandanum þykir ekki borga sig að eyða tíma og fé fyrir dómstólum. Á þennan hátt fer forgörðum heilbrigt aðhald sem verslunarstéttunum er nauðsynlegt.“

Þá segir einnig, með leyfi forseta: „Þessa meðferð mála mætti einnig nýta í öðrum skyldum smámálum og létta þannig vinnuálagi á dómstólunum, og það hlýtur þá einnig að leiða til hraðari meðferðar umfangsmeiri mála.“

Þann 6. nóv. 1979 fól þáv. dómsmrh. Vilmundur Gylfason borgardómurunum Friðgeiri Björnssyni og Hrafni Bragasyni að vinna að undirbúningi löggjafar um fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólunum, svonefndra neytendamála. Eftir því sem ég best veit skiluðu þeir Friðgeir og Hrafn verki sínu í apríl árið 1980 þannig að drög að frv. og grg. lá þá fyrir. Þar sem mér er ekki kunnugt um að nokkuð hafi gerst í málinu síðan, en fullbúin frumvarpsdrög hafi legið fyrir og þáltill. sem ég nefndi hér áðan, leyfi ég mér að bera fram framangreinda fsp. til hæstv. dómsmrh.