10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4583 í B-deild Alþingistíðinda. (3948)

441. mál, minniháttar einkamál fyrir héraðsdómi

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 548 ber hv. 2. þm. Reykv. fram fsp. þar sem óskað er upplýsinga um hvað líði undirbúningi að setningu laga um meðferð minni háttar einkamála fyrir héraðsdómi. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda þá var vorið 1977, undir þinglok, samþykkt á Alþingi þál. um undirbúning löggjafar um meðferð minni háttar einkamála fyrir héraðsdómi. Munu þar einkum hafa verið höfð í huga svonefnd neytendamál.

Þál. þessa lagði dómsmrn. fyrir réttarfarsnefnd sem fjallað hefur um endurskoðun á þessum þætti laga.

Í nóv. 1979 fól þáv. dómsmrh. borgardómurunum Hrafni Bragasyni og Friðgeiri Björnssyni að undirbúa lagafrv. um framangreint efni. Fengu þeir til umfjöllunar þau gögn er réttarfarsnefnd hafði aflað sér um löggjöf ýmissa þjóða um meðferð á þessu sviði. Sendu þeir rn. tillögur sínar í formi lagafrv. vorið 1980. Var það lagafrv. sent réttarfarsnefnd til athugunar þegar í stað. En nefndin hefur ekki skilað áliti um málefnið.

Rn. hefur nú óskað grg. um afstöðu nefndarinnar og mun stefnt að því að málið skýrist svo að um megi fjalla áður en Alþingi kemur saman á komandi hausti. Hv. fyrirspyrjanda mun ljóst að meiri vandkvæði eru á úrlausnum um réttarfarsúrræði við þær aðstæður sem eru hér á landi, þar eð aðeins er um tvö dómstig að ræða. Ég vænti þess þó að fundin verði viðunandi úrlausn sem til bóta megi verða á þessu mikilvæga sviði fyrir almenning.