02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir hans svör og yfirlýsingar hér, sem ég tel vera ótvíræðar og skilmerkilegar af hans hálfu, í sambandi við stöðu þessa máls og framhald. Ég tók eftir því að hann hét því að vinna að því að leysa þessi mál þannig að ekki þyrfti að koma til neinnar skerðingar á flugi innanlands nú og á næstunni. Það er auðvitað það sem mestu skiptir í þessu máli. Ég hlýt að taka undir það sem fram kom í hans máli, að lýsa undrun á þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð, eins og þau blasa við úr hans frásögn, af hálfu embættismanna. Ég skildi það svo að það hefði verið síðast í gær sem þeir hefðu mælst við, hæstv. ráðh. og flugmálastjóri, án þess þó að þetta ástand, sem var að skapast og flugmálastjóri hafði gefið út fyrirmæli um, bæri þar á góma.

Varðandi þær reglur sem mótaðar höfðu verið af flugmálastjóra og ég nefndi hér aðeins í upphafi máls míns áðan er það að segja að þær bera ekki vott um mikinn skilning á hag landsbyggðarinnar og þeirra byggðarlaga sem erfiðast eiga samgöngulega og sum hver byggja samgöngur sínar og farþegaflutninga eingöngu á flugi. Sá árekstur sem hér hefur orðið milli flugmálastjórnar og rn. verður væntanlega víti til varnaðar og nokkur trygging fyrir því að menn eigi að bera sig saman um svo þýðingarmikil mál áður en gripið er til óyndisúrræða, þó ekki sé nema í tilkynningarformi, eins og hér var gert af hálfu flugmálastjórnar. Við hljótum að treysta því að þetta mál sé til lykta leitt með þeim yfirlýsingum hæstv. ráðh. sem hér hafa fram komið og eðlilegar flugsamgöngur innanlands á þessum vetri séu tryggðar, að svo miklu leyti sem menn fá við það ráðið.