10.04.1984
Sameinað þing: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4586 í B-deild Alþingistíðinda. (3960)

33. mál, könnun á kostnaði við einsetningu skóla

Frsm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um könnun á kostnaði við einsetningu skóla, samfelldan skólatíma og skólamáltíðir. Nefndin mælir með samþykkt till. með breytingu sem hún gerir till. um á þskj. 579. Brtt. felur í sér að könnunin fari fram og niðurstöður hennar verði lagðar fyrir næsta þing. Alþingi lýsi hins vegar ekki vilja sínum um framkvæmd fyrr en niðurstöður könnunar liggja fyrir.

Í upphaflegri þáltill. var annars vegar gert ráð fyrir því að fram færi slík könnun á kostnaðarauka vegna einsetningar og samfellds skólatíma ásamt með skólamáltíðum. Hins vegar fólst í ályktunargreininni að því var beint til ríkisstj. að hún hlutist til um það að fyrir næsta skólaár verði komið á einsetningu. Athugasemd nefndarinnar er m. ö. o. sú að könnunin fari fram, niðurstöður hennar verði, lagðar fyrir og því næst taki þá Alþingi málið til athugunar og ákvörðunar, að þeim niðurstöðum fengnum.

Nefndinni bárust umsagnir frá fjölmörgum aðilum: menntmrn., sem gaf jákvæða umsögn um nauðsyn þessarar könnunar, Sambandi ísl. sveitarfélaga, stjórn Kennarasambands Íslands, Félagi skólastjóra og yfirkennara, Fóstrufélagi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands og stjórn Kvenfélagasambands Íslands. Umsagnir allra þessara aðila voru jákvæðar um nauðsyn þessarar könnunar. Menntmrn. taldi fyrir sitt leyti æskilegt að könnunin færi fram, en benti á að hún yrði vafalaust nokkuð yfirgripsmikil og tæki því nokkurn tíma og fjármagn. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga tók undir þann hluta till. sem fjallar um könnun á kostnaðarauka og sparnaði við umgetnar breytingar, en leggur til að róttækar breytingar verði ekki gerðar fyrr en að niðurstöðum fengnum.

Nefndin mælir með því að könnun þessi verði gerð og að kostnaður greiðist úr ríkissjóði.