11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4608 í B-deild Alþingistíðinda. (3975)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um þetta efni en þau eru frá 30. apríl 1973. Frv. var unnið á vegum samgrn. í nefnd þar sem sæti áttu fulltrúar frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélskóla Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands vegna kaupskipaútgerðar, Landsambandi ísl. útgerðarmanna og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Formaður var skipaður án tilnefningar.

Síðan lög voru fyrst sett um atvinnu við siglingar á árinu 1883 hafa orðið geysimiklar breytingar á þessu sviði sem öðrum, bæði varðandi tæknilegar framfarir og aukna menntun. Ný lög voru sett um þetta efni 1905. Á næstu árum þar á eftir urðu nokkrar breytingar á þessum lögum, einkum lög nr. 31 frá 1931 og einnig skipta hér máli lög frá 1924 og lög frá 1935. Frá árinu 1936 gengu í gildi ný og ítarleg lög um atvinnu við siglingar á íslenskum skipum sem urðu síðan grundvöllur laga frá 1945 og 1946.

Í lögum frá 1936 er fyrst getið um heimild til þess að halda sérstaka deild fyrir skipstjóraefni á varðskipum ríkisins. Sú heimild var þó fyrst notuð árið 1953, en með lögum nr. 52/1968 var skipstjórapróf á varðskipum ríkisins gert að skyldu fyrir skipstjórnarréttindi á varðskipum. Á árinu 1945 komu ný lög um þetta efni, um atvinnuréttindi á íslenskum skipum, sem síðan voru endurútgefin í breyttri mynd árið eftir. Þar var um viðamikinn lagabálk að ræða sem einnig hafði að geyma auk ákvæða um skipstjóra og stýrimenn ítarlegar reglur um vélamenn á mótorskipum og eimskipum. Með lögum frá 1966 voru sett sérstök lög um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum og tilheyrandi ákvæði felld úr lögunum um skipstjórnarmenn. Lögin frá 1968 komu í stað laganna frá 1946 sem giltu þar til núgildandi lög frá 1973 leystu þau af hólmi.

Í III. kafla athugasemda við þetta frv. er getið helstu breytinga á frv. frá gildandi lögum en þær eru þessar: 1. Niðurskipan efnis verður í heild gerótík því sem er í gildandi lögum.

2. Í stað orðsins „verslunarskip“ er í frv. notað orðið „flutningaskip“. Hugtakið „farþegaskip“ er skilgreint sérstaklega í stað þess að það fellst í hugtakinu „verslunarskip“ sem notað er í gildandi lögum. Hugtakið „varðskip“ er skilgreint sérstaklega í 2. gr. þessa frv., en svo er eigi að gildandi lögum, og sama er um orðalagið „önnur skip“.

3. Ákvæði 3. gr. gildandi laga eru að sumu leyti felld niður en að sumu leyti fléttuð inn í ákvæði annarra greina.

4. Í II. kafla frv. um fjölda skipstjórnarmanna telst það einkum til nýmæla að lagt er til að einn stýrimaður verði á flutningaskipum 31–400 rúmlestir en í gildandi lögum ná þau mörk að 200 rúmlestum. Þá er og miðað við að tveir stýrimenn séu á flutningaskipi 401–1500 rúmlestir í stað 200–1500 rúmlesta eins og nú er. Sérákvæði eru tekin upp fyrir farþegaskip og varðskip. Ákvæði fyrir landróðrabáta miðast við 40 rúmlestir í stað 30 rúmlesta skv. gildandi lögum.

5. Ákvæðin í III. kafla frv. um atvinnuréttindi stýrimanna hafa þessar breytingar helst í för með sér varðandi fiskiskip og önnur skip: 1. stigs próf frá stýrimannaskóla veitir réttindi á skipum 240 rúmlestir og minni í stað allt að 120 rúmlestir skv. gildandi lögum. Helmingur siglingatímans á skipi yfir 40 rúmlestir mátti áður allur vera á skipi yfir 12 rúmlestir. 15 mánaða hásetatími á skipi yfir 100 rúmlestir skv. frv. kemur í stað 12 mánaða tíma á skipi yfir 30 rúmlestir. Auk þess felst breyting í ákvæðum frv. um það ef viðkomandi hefur verið skipstjóri eða stýrimaður á minni skipum. Í 2. mgr. 6. gr. frv. er það nýmæli tekið upp að af óskilgreindum siglingatíma megi 6 mánuðir vera við önnur störf en skipstjóra-, stýrimanns- eða hásetastörf. Um flutningaskip, farþegaskip og varðskip vísast að þessu leyti til þess sem segir um einstakar greinar frv.

6. Varðandi IV. kafla skal einkum tekið fram að stærðarmörkum er skv. 8. gr. frv. breytt úr 30 rúmlestum í 40 og hásetatími skal vera 12 mánuðir í stað 18 mánaða. Í 9. gr. frv. er m. a. það nýmæli að heimilað er að gefa út skipstjóraskírteini í innanlandssiglingum án stýrimannstíma í utanlandssiglingum.

7. Varðandi V. kaflann um aldursskilyrði og læknisvottorð má benda á að ekki er þar miðað við lögræði svo sem er í gildandi lögum heldur einungis miðað við tiltekinn aldur og þá aðeins notað við eitt aldursmark.

8. Í 17. gr. frv. eru athyglisverð nýmæli sem snerta atvinnuheimild erlendra ríkisborgara, sem lokið hafa skipstjórnarnámi við íslenskan eða erlendan skóla, og íslenska ríkisborgara, sem lokið hafa skipstjórnarnámi við erlenda skóla — hvort tveggja að fullnægðum nánari skilyrðum.

9. Í 18. og 19. gr. eru ákvæði um skipan og starfsemi sérstakrar „mönnunarnefndar“ sem er algert nýmæli. 10. Að lokum má nefna að lagt er til að reglur þær um gerð og efni sjóferðabóka, sem nú eru í 28. gr. gildandi laga verði ekki lengur í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. Telur nefndin að ákvæðum þessa efnis sé betur skipað í sjómannalögum eða reglum sem settar séu með heimild í þeim og hefur nefnd sú á vegum rn. sem endurskoðaði sjómanna- og siglingalög hugað að þessu atriði enda hefur það komið fram við framlagningu þeirra frumvarpa.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa hér öllu lengri framsögu fyrir þessu máli. En ég vil vekja athygli hv. þdm. á því að undanþágur til skipstjóra, stýrimanna og vélstjóra hafa verið mjög margar gefnar út af rn. á undanförnum árum. Í vetur svaraði rn. fsp. skriflega sem kom fram í þingi þar sem kemur fram að þessar undanþágur voru frá 1. okt. 1982 til jafnlengdar á árinu 1983 hvorki meira eða minna en 1592, þar af til skipstjóra 161, stýrimanna 437, en 1. og 2. vélstjóra tæplega 1000 eða nánar tiltekið 994. Þessi undanþágufjöldi segir þó ekki alla sögu því að sömu menn eru með fleiri en eina og fleiri en tvær undanþágur því að þær eru gefnar út til mjög skamms tíma í senn. Sömuleiðis gefur það svar ekki rétta hugmynd um hversu mörg skip hafa fengið undanþágur, en ég tel að það sé ekki nema u. þ. b. fjórðungur til helmingur miðað við skipafjölda.

Hins vegar er ljóst að þessar undanþágur allar eru orðnar ákaflega hvimleiðar. Þeim hefur farið fjölgandi vegna þess hverjar breytingar hafa orðið á stærð skipa og orku véla og því hefur verið tekið mjög tillit til þessa við samningu þessa frv. sem varðar skipstjórnarmenn og sömuleiðis hins frv. sem ég mæli hér fyrir á eftir. Þetta mál er búið að vera mjög lengi í meðferð og um þetta hafa fjallað forsvarsmenn flestra ef ekki allra sem eiga helst hlut að máli. Hér er um niðurstöðu og samkomulag að ræða sem erfitt var að ná en náðist þó að lokum. Rn. hefur ekki breytt frv. á einn eða annan veg frá því sem nefndin gekk frá því. Það er einlæg ósk mín að hv. nefnd, sem fær frv. þetta til meðferðar, reyni að hraða afgreiðslu þessa máls vegna þess að hér er um knýjandi breytingu að ræða og nauðsynlegt að aflétta að mjög miklu leyti þessari undanþáguplágu sem hefur verið gangandi á undanförnum árum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.