11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4611 í B-deild Alþingistíðinda. (3976)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Árni Johnsen:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. samgrh. er hér um ákaflega brýnt mál að ræða. Talið er að það þurfi u. þ. b. 100 nýja skipstjórnarmenn á ári til þess að viðhalda eðlilegri þróun í flotanum. Fram kom hjá hæstv. ráðh. að um 1600 undanþágur hafa verið á s. l. ári hjá skipstjórnarmönnum. Það á við u. þ. b. 1100 einstaklinga eftir því sem ég komst næst þegar ég skoðaði skrána yfir undanþágur. Þetta sýnir að það er ákaflega alvarlegt ástand í menntun skipstjórnarmanna á íslenska flotanum og kannske er það einnig veigamikill þáttur í hinni miklu slysatíðni sem á sér stað í íslenskum skipum.

Það hefur sýnt sig að slysatíðnin miðað við s. l. 2 ár til sjós og lands er 150 sinnum meiri til sjós en á landi. Þetta er ákaflega hátt hlutfall og undirstrikar það hvað brýnt er að tekið sé á í þessum efnum. Ég held þó að það hljóti að koma inn í þessa umr. og afgreiðslu þessa máls hvernig bregða megi skjótar við en kannske er gert ráð fyrir í þessu annars ágæta frv.

Ég held að það þurfi t. d. að koma því þannig fyrir að sá mikli fjöldi skipstjórnarmanna í landinu í dag, sem hefur undanþágur til starfa, þurfi að fá tækifæri til þess að afla sér menntunar á eins skömmum tíma og unnt er. Þarna er í mörgum tilvikum um að ræða menntun sem þarf kannske ekki að standa nema örfáa mánuði. Í flestum tilvikum er þarna um að ræða fjölskyldumenn og þess vegna held ég að það þurfi að veita þá sérstöðu varðandi skipstjórnarréttindi í landinu að þeir menn geti fengi námslán til þess að taka próf í því fagi sem þeir eiga síðan að gegna starfi í. Þetta er ekki inni í námslánakerfinu í dag vegna þess að miðað er við ákveðin tekjumörk og að mörgu leyti ákveðna námslengd einnig. Það er ekki hvetjandi fyrir fjölskyldumenn í sjómannastétt að mennta sig eins og kannske þeirra hugur stendur til og umfram allt eins og ástæða er til fyrir þjóðfélagið að stuðla að vegna þess að þeir hafa ekki aðstæður til þess að afla sér þeirrar menntunar af fjárhagsástæðum. Þess vegna ætti að gera þeim kleift að fá námslán þann stutta tíma sem þeir þurfa til þess að afla sér viðbótarmenntunar svo að þeir geti talist fullgildir starfsmenn á íslenska skipaflotanum.

Í þessu sambandi má einnig benda á að það er ótrúlegt að í íslenska skipaflotanum, sem telur um það bil 800 fljótandi atvinnutæki, er stöðvun, þar er engin framþróun í því að fagmenntaðir menn, verkfræðingar, skipaverkfræðingar og aðrir gangi til starfa. Þar hefur verið stöðnun um langt árabil. Það er mikil þróun í fyrirtækjum á landi um skipulagningu, stýringu, skynsamlega hagræðingu. Þetta á sér ekki stað í okkar fljótandi atvinnutækjaskipastól. Þetta er íhugunarefni en kemur einnig inn á þetta mál varðandi menntun og réttindi skipstjórnarmanna.