02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

11. mál, launamál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú hlotið slíka umræðu að ræður okkar, sem höfðum þær undirbúnar, eru orðnar allgamlar þegar þær eru fluttar. En það verður að treysta því að þær haldi enn þá gildi sínu og því skal nú ræðan, sem átti að flytjast fyrir hálfum mánuði eða þrem vikum, haldin.

Herra forseti. Það hefur löngum verið leikur stjórnmálamanna, sem ráða ekki við rekstur þjóðfélagsins, að vefja staðreyndir um stöðu þjóðarbúsins í þéttan vef blekkinganna. Menn eru upplýstir um að staða þess sé góð eða slæm án þess að sú staða sé í nokkru samhengi við stöðu heimilanna í landinu. Þessir menn ræða um þjóðarbúið eins og það sé fyrirtæki sem þeir reka án þess að það komi lífi almennings í landinu hið minnsta við. Sannleikurinn er auðvitað allur annar. Staða þjóðarbúsins er staða okkar, sem í landinu hífum, og sé um eitthvert réttlæti að ræða á að vera beint samhengi milli stöðu heimilanna og stöðu þjóðarbúsins.

Við höfum nú séð hvað hæstv. ríkisstj. Steingríms Hermannssonar hefur gert á þeirri tíð sem hún hefur verið við völd. Hún hóf feril sinn með því að afnema rétt verkafólks til að semja um kjör sín til 1. febr. 1984 og skerða hann verulega til maíloka 1985. Það hefur verið sagt hér oft, þó að full ástæða sé til að segja það enn, að slíkt afnám samningsréttar er gróf árás á þau mannréttindi sem talin eru meginforsenda lýðræðisþjóðfélags. Og mánuðum saman fékk Alþingi Íslendinga ekki tækifæri til að mótmæla þessari svívirðu. En menn hljóta að hugga sig við að þeir réttu hér upp hendur, 60 að tölu, til stuðnings við pólsku þjóðina, sem varð fyrir því hinu sama, að fá ekki að semja um kjör sín sjálf.

Það er nú sýnilegt að kaupmáttur launa hefur minnkað um rúmlega 30% þegar líður á haustið án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Hver einasta launafjölskylda í landinu stendur nú frammi fyrir alvarlegum fjárhagserfiðleikum og vart annað í augsýn en að fjöldi fólks missi heimili sín. Stjórnvöld keppast við að lýsa efnahagsvandanum, sem allir verði að axla, en engin tilraun er gerð til þess að greina hann. Vissulega hafa þjóðartekjur rýrnað nokkuð, en sú rýrnun er í engu samhengi við þær grófu kjaraskerðingar sem gerðar hafa verið og skal það nú skýrt að nokkru.

Vestrænar þjóðir hafa um árabil orðið fyrir meiri efnahagsáföllum en um langt skeið, með stöðnun, verðbólgu og atvinnuleysi í kjölfar þeirra. Á sama tíma hækkaði útflutningsverð íslenskra afurða, þó að lítils háttar rýrnun yrði á viðskiptakjörum. Það var ekki fyrr en árið 1982, sem afli minnkaði og aflaverð rýrnaði verulega, svo að það ár verður að teljast hið versta um langt skeið. Íslendingar sluppu þannig nokkurn veginn við þá kreppu sem hefur verið í löndunum í kringum okkur í mörg ár. Nú eru horfur á að ástandið skáni í þessum löndum og þar með viðskiptakjör íslenskrar útflutningsverslunar. Ísland hefur því ekki farið verr út úr þessari kreppu vestrænna þjóða en svo, að það er eina landið þar sem full atvinna hefur haldist, en á sama tíma eru milljónir manna atvinnulausar allt í kringum okkur. Íslensk kreppa er þannig stórlega orðum aukin og það er þess vegna úr öllu samhengi að skerða kjör landsmanna nú um 30%, eða öllu heldur launamanna, því auðvitað bera þeir einir skerðinguna.

Fyrrverandi hæstv. ríkisstj. skildi ekki þannig við að til þessa þyrfti að koma. Staða markaðsmála gefur heldur ekki ástæðu til svo mikillar kjaraskerðingar og afli hefur ekki minnkað að þessu marki. Þessi skerðing er því úr öllu samhengi við þjóðartekjur. Þetta verða menn að skilja. Hin eiginlega ástæða fyrir efnahagsvanda Íslendinga er að okkur hefur ekki tekist að komast frá hráefnasölu til þess að framleiða fullunna vöru. Við seljum fiskinn beint upp úr sjónum og dýrmæta íslenska orku gefum við út úr höndunum á okkur. Hráefnasala er ævinlega lítt arðbær þegar til lengdar lætur og það er enginn vafi á því að fullvinnsla sjávarafurða er forsenda fyrir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Á sama tíma og fyrirtækin selja afurðirnar í formi hráefnis er fjárfesting hömlulaus og vanhugsuð. Nú er svo komið að launakostnaður fyrirtækjanna er orðinn lægri en kostnaður vegna framkvæmda, þ.e. fjármagnskostnaðurinn. Enda hafa laun verið skert meira hér en í nokkru öðru Vesturlandanna á sama tíma. Þetta bið ég hv. þm. að hlusta vel á.

Fyrirtækin lenda í greiðsluþroti með þessar vanhugsuðu og stjórnlausu framkvæmdir og nægi sjóðir landsmanna ekki til þess að borga brúsann er auðvitað gengið á launin þeirra. Ég vil í þessu sambandi minna menn aðeins á umr., sem hér fór fram á síðasta þingi, þegar rætt var um skiptingu gengismunar, sem í ljós kom að enginn vissi nákvæmlega hver yrði, því að hann hoppaði á nokkrum dögum úr 80 millj. upp í 230 millj., enda: Á hverju voru þær upplýsingar byggðar? Af 200 fyrirtækjum, sem hæstv. þáverandi sjútvrh. hafði beðið að segja sannleikann um stöðu fyrirtækjanna, af þeim 200 sem voru sendir spurningalistar þóknaðist 50 að svara. Þess vegna hlaut ég að spyrja héðan úr ræðustól: Hvaðan eru þessar upplýsingar fengnar um óseldar birgðir í landinu? Nægja svör 50 fyrirtækja af 200? Ég held nefnilega að margumrædd staða fyrirtækjanna og afkoma sé stundum meira en vafasöm og ill til að byggja á efnahagsaðgerðir. Við þekkjum öll fyrirtæki sem hafa langan lista af gagnslausum ættingjum á launaskrá sem aldrei líta inn í fyrirtækið. Þetta er svo fólkið í landinu látið borga.

En láglaunasvæði heimsins, eins og Ísland er að verða, er auðvitað draumur auðhringanna. Það er engin tilviljun að þau líta landið hýru auga. Ódýr vinnukraftur og ódýr orka gefa mikinn gróða í þeirra vasa, sem síðan er fluttur úr landi og svikinn undan skatti. Jafnvel þó að Alusuisse væri staðið. að verki við að meðhöndla íslensku þjóðina eins og heimsvaldasinnar meðhöndla vanþróaðar þjóðir þriðja heimsins er stjórnvöldum nú meira í mun að ná sér niðri á Hjörleifi Guttormssyni, gera góðlátlegt grín að honum og skensa hann í sjónvarpsþáttum, en að reisa við heiður þjóðar og þings. Og þetta þarf engum að koma á óvart. Þessi sömu stjórnvöld hafa alltaf verið reiðubúin að selja landið og auðlindir þess í hendur útlendinga, hvort sem er til atvinnureksturs eða hernaðar. Og vitanlega er það hugsuð stefna. Við, sem ekki kjósum þá leið, vitum jafnvel og þau að með því að lækka launin í landinu fyrir erlend fyrirtæki er hægt að ná stöðugra verðlagi og stöðugra gengi. Því minni sem tilkostnaður fyrirtækjanna er, því minni er þörf á gengisbreytingum vegna útflutningsins. Þetta vita allir.

Það er því vafalaust auðveldasta leiðin til lækkunar verðbólgu að selja ódýran vinnukraft, sem auk þess er betur menntaður en víðast hvar annars staðar, og ódýra orku erlendum auðhringum, til þess að svokölluð staða þjóðarbúsins batni. En við höfnum þeirri leið, Alþb.menn, því að við vitum að hún er ekki til þess fallin að bæta kjör landsmanna. Hún er bara til að bæta kjör þjóðarbúsins þeirra. Staðreyndirnar blasa við. Stór hluti þeirra erlendu skulda sem við glímum nú við að greiða eru til komnar vegna orkuöflunar, sem erlendir auðhringar nýta langt undir framleiðslukostnaði, svo að virkjanir okkar eru með öllu óarðbærar og verða það um langan aldur. Og þið skuluð gera ykkur ljóst, góðir þm., — og landsmenn allir, að það eru þeir, landsmenn, sem greiða mismuninn. Í hvert einasta skipti sem við greiðum rafmagnsreikninginn okkar er stór hluti af honum greiðsla fyrir Alusuisse en ekki okkar eigin notkun. Það er nefnilega ekki bara bankakerfið og skrifstofubáknið sem eru óarðbær. Í þessum tilvikum eru orkubúin það líka.

Á sama tíma og stjórnvöld tala um hættulega miklar erlendar skuldir hefur verið tekin skóflustunga að nýrri flugstöð á Keflavíkurflugvelli þessu forgangsverkefni fyrir þjóðarbúið þeirra. Íslenska ríkið hikar ekki við að taka erlent lán á næsta ári að upphæð 100 millj. kr. Allt í allt sýnist mér að það verði að taka lán upp á 700 millj. kr. sem framlag Íslendinga í þessa flugstöð. Hafa menn hugsað um hvað sú upphæð felur í sér? Fyrir 700 millj. kr. mætti leggja varanlegt slitlag á allan hringveginn og alla aðalvegi til bæja og kauptúna landsins. En það liggur meira á flugstöð. Víst þarf einhvern tíma að byggja hæfilega stóra flugstöð. En hingað til hafa menn komist leiðar sinnar án stórvandræða. Var þetta verkefni forgangsverkefni í samgöngumálum þjóðarinnar á meðan flestir flugvellir landsins eru lífshættulegir vegna lélegs frágangs? Og hér í dag er svo rætt um það að nú stendur til að moka þá bara alls ekki og fella meira eða minna niður flugsamgöngur út til byggða landsins. En það er mesti munur fyrir okkur sem þurfum að streyma í gegnum flugstöðina á Keflavíkurflugvelli að hún verði byggð!

Nei, þetta verkefni, flugstöðin á Keflavíkurflugvelli, var ekki forgangsverkefni og það vita stjórnvöld mætavel, enda var þessi ákvörðun ekki tekin af Íslendingum sjálfum heldur af Bandaríkjastjórn, ríkisstjórn erlends stórveldis. Það er nú svo komið fyrir okkur — og koma Pólverjar nú enn upp í hugann. Á sama tíma er framkvæmdafé til heilbrigðismála um 100 millj. kr. eða það sama og lagt verður á næsta ári í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Og 700 millj. eru ámóta tala og 17 ára framlag til flugvallarmála í þessu landi, eins og það hefur verið. Í þetta fer kjaraskerðing landsmanna, í flugstöð á Keflavíkurflugvelli, í höll yfir Seðlabankann, höll fyrir hégómlega embættismenn sem fá að ráðskast með fé landsmanna eins og þeim sýnist. Og mætti nefna ótal viðlíka þarflegar framkvæmdir. Því að þörfina fyrir framkvæmdir á að meta á einungis einn hátt, að þær komi landsmönnum að gagni. Það gera þessar framkvæmdir ekki og þess vegna eru þær óarðbærar. En fyrir þetta eiga landsmenn að herða sultarólina. Hvers vegna una menn þessu svo? Hvers vegna mótmælir ekki hver einasti launþegi í landinu þessum aðgerðum? Skýringin er vafalítið sú að það hefur tekist að rugla dómgreind launþega með þeim yfirburðum í fréttaflutningi sem valdhafar hafa. Menn verða að gera sér ljóst að í fréttum er staða þjóðarbúsins ævinlega rædd frá sjónarmiði atvinnurekenda og valdhafa en ekki frá sjónarmiði launþega eða heimila landsins. Verkalýðshreyfingin hefur ekki þau ítök í þessum stofnunum, blöðum, útvarpi og sjónvarpi sem atvinnurekendur og valdhafar hafa. Raunveruleikinn í þjóðfélaginu kemur alls ekki fram í fréttum.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson hélt hér jómfrúrræðu sína fyrir reyndar mörgum dögum, viku eða hálfum mánuði. Og hann ræddi auðvitað mjög um að fyrirtækin yrðu að vera arðbær. Ég er alveg sammála þm., nema að því leyti að ég er hrædd um að hann skilgreini það að vera arðbær dálítið öðruvísi en ég geri. Ég er ansi hrædd um að hann telji að það fyrirtæki sé arðbært sem vegna lágra launa til þeirra manna sem auðinn framleiða græði. Spurningin snýst nefnilega um það — fyrir hvern eru atvinnuvegir landsmanna arðbærir? En ég sé nú að hv. þm. er ekki viðstaddur svo ég er ekkert að hella mér yfir hann. Auk þess er svo langt síðan hv. þm. talaði að ég er auðvitað búin að gleyma því sem hann sagði, en ég man að ég var mjög ósammála.

En svo er nú komið að þúsundir framfærenda landsins hafa hvorki í sig né á vegna þess að laun manna á Íslandi eru undir því lágmarki sem til þess þarf. Það ætti að vera sjálfsögð launastefna að hver einasti einstaklingur hafi þau laun sem hann getur lifað af. Því fer nú fjarri, m.a. vegna þess að beinlínis er gert ráð fyrir að tveir einstaklingar vinni fyrir fjölskyldu. Raunveruleikinn er hins vegar allur annar. Um 6000 íslensk börn búa hjá öðru foreldri, í langflestum tilvikum mæðrum sínum, sem vitanlega eru flestar láglaunakonur, og þessar fjölskyldur geta engan veginn dregið fram lífið af þessum launum. Biðraðir við félagsmálastofnanir landsins tala sínu máli um ástandið á þessum heimilum.

Það getur vel verið að Steingrími Hermannssyni og ráðherrum hans sé meira í mun að sjá fallegar verðbólgutölur í árslok en að þessi 6000 börn hafi sómasamlegt viðurværi og raunar mörg þúsund önnur börn láglaunafólks. En nokkuð er ég viss um að hvorki verða tölur hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar eins fallegar og hann heldur nú né afkoma þessara barna bærileg í árslok.

Það má vel vera að svo sé búið að heilaþvo menn og slæva vitund þeirra um eigið gildi með afflutningi staðreynda að menn láti sér þetta í léttu rúmi liggja. Það kom enda í ljós, þegar undirskriftir undir mótmæli verkalýðshreyfingarinnar lágu fyrir, að allt of fáir launþegar höfðu tekið þátt í undirskriftasöfnuninni.

Því hefur linnulaust verið haldið fram að síðasta ríkisstj. hafi stundað sams konar kjaraskerðingar. Og menn hafa gert gys að félagsmálapökkunum. Þeir hafa að vísu fengið nýja merkingu nú hina allra síðustu daga þegar í ljós kom að félagsmálapakki hefur sýnt sig frá hinni nýju ríkisstj. til ráðh. hennar. Slíkar yfirlýsingar eru vísvitandi ósannindi. En það er eins og vant er þegar stjórnmálamenn tala saman, það er enginn að hirða um sannleikann, menn eru að pexa í þessari kappræðu karlaveldisins sem er endalaust haldið hér uppi. Það er nefnilega stórhættulegt að trúa slíkum yfirlýsingum. Félagsmálapakkarnir — í hverju fólust þeir, hvað fólst í þeim? Fæðingarorlof og almannatryggingabætur verulega bættar, atvinnuleysisbætur fyrir alla launþega án tillits til tekna maka, úrbætur í málefnum fatlaðra, þroskaheftra, aldraðra, meðlagsgreiðslur strax við fæðingu barns, sem konur urðu áður að berjast fyrir kannske mánuðum saman — og árum saman jafnvel, lífeyrir sjómanna við 60 ára aldur, úrbætur í málefnum hinna öldruðu, fjöldi nýrra stofnana fyrir þá o.s.frv., o.s.frv. Allt eru þetta kjarabætur í beinhörðum peningum fyrir þúsundir fjölskyldna í landinu. Og víst er að menn kunna að finna fyrir því verði framlög til þessara mála skert eins og nú horfir.

Ég skal nú stytta mál mitt, herra forseti. En ég vil aðeins leggja áherslu á að það er ekkert eins hættulegt þjóðfélaginu í heild, sjálfu lýðræðinu í landinu eins og að launþegar verði sinnulausir um hvernig farið er með arðinn af vinnu þeirra og rétt þeirra til að semja um það. Auðvitað er sjálfsvirðing og vitund hins vinnandi manns forsenda fyrir sjálfstæðu og fullvalda ríki. Að þessu sinnuleysi er markvisst unnið með því að halda staðreyndum frá fólki, en þess í stað er það matað á ósönnum áróðri. Þessar aðferðir eru kunnar í mannkynssögunni allri. Með þeim er alið á vanmetakennd hins almenna manns og ótrú hans á að hann eigi nokkurn möguleika á að hafa áhrif á eigið líf og lífsafkomu. Þegar svo er komið er hætta á að íslenskir launamenn verði fyrr en varir leiguliðar erlendra auðvaldsafla.

Góðir þm. Íslendingar eru rík þjóð. Ég vil enn taka undir það að ég er sammála hæstv. fjmrh. sem sagði svo hér í gær. Og hér er betur og meira unnið en víðast hvar annars staðar. Samt hefur orðið hér meiri kjaraskerðing en í nokkru öðru landi í Evrópu, þó að þar ríki raunverulegt kreppuástand. Menn ættu að hugleiða hvort þeir hafa skilið þetta samhengi milli þjóðartekna og þess sem þeir bera sjálfir úr býtum. Ég held að það ætti að vera hlutverk hv. alþm. að reyna að upplýsa fólk um það, fólkið í þessu landi, heldur en að halda áfram að jagast hér um hrein ósannindi eins og verulega hefur átt sér stað í þeirri umr. sem hér hefur farið fram.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.