11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4614 í B-deild Alþingistíðinda. (3981)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta á þskj. 593.

Um árabil hafa gjaldeyrisbankarnir greitt til ríkissjóðs ákveðið hlutfall af tekjum af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta. Þessir tekjustofnar voru fyrst á lagðir með lögum nr. 86/1960, um útflutningssjóð o. fl., og síðar skv. lögum nr. 4/1960, um efnahagsmál. Núgildandi ákvæði eru í lögum nr. 40 frá 1969, um umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna. Skv. þeim lögum greiða bankarnir til ríkissjóðs 60% af vergum tekjum vegna þessara viðskipta, en 40% renna til viðkomandi gjaldeyrisbanka. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um raunverulegan kostnað gjaldeyrisbankanna vegna þessara viðskipta, en upplýst er að mismunur kaup- og sölugengis hefur verið ákveðinn meiri en vera mundi ef ekki kæmi til skattlagningar á þessi viðskipti. Sama má segja um ýmis þjónustugjöld sem leyfilegt er að taka samkv. gjaldskrá.

Skv. ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 65 frá 1982, um skattskyldu innlánsstofnana, var gjald þetta ákveðið 50% frá gildistöku laganna til ársloka 1982, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 40/1969. Í frv. til þeirra laga var gert ráð fyrir að hlutfall þetta lækkaði á árinu 1983 í 40%. Þá var einnig gert ráð fyrir heildarendurskoðun laganna fyrir árslok 1983 í ljósi þeirrar reynslu sem þá væri fengin af framkvæmd þeirra. Ákvæði frv. um þetta efni náðu ekki fram að ganga umfram lækkun úr 60% í 50% á árinu 1982. Í bráðabirgðaákvæði skv. tölul. V í lögunum var hins vegar ákveðið að starfandi bankamálanefnd skyldi endurskoða lög nr. 40 frá 1969 fyrir þingbyrjun haustið 1982. Skilaði bankamálanefnd áliti til fjmrh. með bréfi dags. 24. nóv. 1982. Fylgdu bréfi nefndarinnar tvenn drög að frv. til l. um umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna. Var í öðru þeirra gert ráð fyrir að skatturinn yrði 50% til frambúðar, en í hinu að hann félli niður í áföngum á árunum 1983–1985. Ekki varð af því fyrir árslok 1982 að fyrir Alþingi væri lagt frv. um þetta efni. Hækkaði gjaldið því aftur úr 50% í 60% 1. jan. 1983.

Með frv. þessu er lagt til að gjald þetta verði fellt niður í áföngum á árinu 1984–85. Áætlað er að tekjutap ríkissjóðs á árinu 1984 vegna þessa nemi 18 millj. kr., en 36 millj. kr. á árinu 1985 miðað við verðlag ársins 1984. Sem rök fyrir niðurfellingu gjaldsins má nefna að innlánsstofnanir greiða tekjuskatt frá og með rekstrarárinu 1983 skv. lögum nr. 66/1982. Þykir ekki fært að skattleggja sömu tekjur til frambúðar með tvennum hætti. Þar sem niðurfelling gjaldsins þegar í stað mundi hafa í för með sér verulegan missi tekna sem áætlaðar eru í fjárl. fyrir árið 1984 er lagt til að gjaldið verði fellt niður í áföngum.

Þá er lagt til að fjmrh. verði heimilað að endurgreiða eða falla frá innheimtu á 1/6 hluta gjaldsins vegna ársins 1983. Með því er komið í veg fyrir þá tímabundnu hækkun gjaldsins sem leiddi af því hversu síðbúnar tillögur um frambúðarskipan þess urðu.

Með niðurfellingu gjaldsins er þess að vænta að mismunur kaup- og sölugengis erlends gjaldmiðils verði ákveðinn með hliðsjón af breyttum aðstæðum svo og ýmis gjöld vegna þessara viðskipta endurskoðuð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr. og 2. umr.