11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4617 í B-deild Alþingistíðinda. (3985)

63. mál, sjóntækjafræðingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. Ed. tók til umfjöllunar frv. til l. um sjóntækjafræðinga. Eins og hv. þm. rekur minni til var þetta frv. afgreitt héðan frá Ed. með nokkrum breytingum. Nú hefur það gerst að smávægileg breyting var gerð á frv. í Nd. og því er það komið hér til umr. á nýjan leik.

Það er ekki mikil breyting sem gerð var í Nd. við 3. gr. frv., nánast orðalagsbreyting. Eins og frv. hljóðaði eftir 2. umr. í Ed. var 3. gr. á þessa leið:

„Nú uppfyllir umsækjandi skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur ekki íslenskt ríkisfang, er þá ráðh. heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi að fengnum meðmælum sömu aðila og um getur í 2. gr.

Breyting var gerð í Nd. þar sem stendur „að fengnum meðmælum“. Þar er lagt til að standi: að fenginni umsögn. Þá er komið sama orðalag í öllum þeim greinum þar sem getið er um og vitnað til umsagnaraðila.

Ég talaði um það áðan að hér væri aðeins um orðalagsbreytingu að ræða. Það skal viðurkennt að hér er um nokkra efnisbreytingu að ræða, en smávægilega. Meðmæli eru þrengri merkingar en umsögn.

Heilbr.- og trn. hefur ekkert við þetta að athuga og leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem var lögð til í Nd.