11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4617 í B-deild Alþingistíðinda. (3987)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Við ákvörðun fiskverðs þann 10. febr. s. l. var að venju rætt mikið um afkomumál sjávarútvegsins. Þá kom í ljós að afkomuhorfur í saltfiskframleiðslu voru tiltölulega slæmar á árinu 1984 og saltfiskframleiðendur, sem stóðu að fiskverði, töldu að nokkur mismunun þyrfti að eiga sér stað annars vegar á útflutningsgjöldum saltfisks og hins vegar á útflutningsgjöldum af frystum fiski. Þeir vitnuðu til þess, að hér á árum áður voru útflutningsgjöld af frystum fiski lægri en af saltfiski og skreið og töldu rétt að til þessa væri tekið tillit við núverandi aðstæður. Ég vil taka það fram að ég tel út af fyrir sig óheppilegt að nota útflutningsgjald með þessum hætti. Hinu er hins vegar ekki að neita, sem fram kom í þeirra rökstuðningi, að fordæmi var fyrir því. Þótti eftir atvikum rétt að verða við tilmælum þeirra og var ákveðið að leggja fyrir Alþingi frv. sem kvæði á um að útflutningsgjald af saltfiski skyldi vera 4% á árinu 1984 í stað 5.5% áður. Þetta munar saltfiskframleiðsluna nokkru og minnkar þann taprekstur sem áætlaður var við ákvörðun fiskverðs.

Í Nd. var gerð sú breyting á frv. að nefndin ákvað að lækka einnig útflutningsgjald af þeirri skreið sem framleidd var fyrir 31. des. 1983 og ógreidd var á þeim degi í 4% úr 5.5%. Eins og kunnugt er hafa verið miklir söluörðugleikar á skreið. Tel ég því eðlilegt að gera þessa breytingu með tilliti til þeirra aðstæðna.

Einnig var gerð sú breyting í Nd. að ráðh. er heimilt að lækka eða fella niður útflutningsgjald af fóðurlýsi, sem framleitt er á árunum 1984 og 1985, enda flytji framleiðandi það út undir íslensku vörumerki. Hér er um mjög lítið mál að ræða fjárhagslega. En fyrirtæki hafa verið að reyna að vinna nýja markaði fyrir fóðurlýsi og áhugi er fyrir því að auka framleiðslu þess til að nýta betur þann úrgang sem nú er hent í sjóinn. Eðlilegt er að liðka til fyrir þeim aðilum sem vilja koma þessari afurð á markað. Þar af leiðandi féllst sjútvn. Nd. á að veita þessa heimild, þó aðeins á árunum 1984 og 1985. Með því ætti að fást reynsla á því hvort hér geti orðið um framtíðarmarkaði að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um mál þetta. Það skýrir sig vel í grg. með frv. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.