11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4621 í B-deild Alþingistíðinda. (3997)

182. mál, umferðarlög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er einn af flm. þessa frv. og kem hér aðeins vegna brtt. sem hv. 3. þm. Vesturl. mælti fyrir áðan. Mig langar til að benda hv. þm. í því sambandi á umsögn Bifreiðaeftirlits ríkisins um þetta frv. Þar segir með leyfi forseta:

„Bifreiðaeftirlit ríkisins telur notkun ljósa við akstur bifreiðar, bifhjóls og létts bifhjóls allan sólahringinn allt árið til mikils öryggis.“ Þeirra álit fer því ekki á milli mála.

Ég skil vel hvað vefst fyrir hv. 3. þm. Vesturl. í þessu máli. Það er svolítið ankannalegt að hugsa sér bifreiðar aka um með fullum ljósum á sólskinsdögum. En þeir eru nú ekki margir hér á landi og ég held að öryggisatriði þess að þetta sé almenn regla vegi miklu þyngra en smekksatriði í þessu efni.