11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4622 í B-deild Alþingistíðinda. (4000)

182. mál, umferðarlög

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð vegna aths., sem fallið hafa varðandi ljósanotkun bifreiða, frá hv. 3. þm. Vesturl., sem hefur skrifað undir nál. með fyrirvara og hefur nú lagt hér fram brtt., og einnig vegna orða hv. 3. þm. Suðurl.

Það má segja að við séum að endurtaka það sama og kom fram við 1. umr. Þetta eru sömu þm. og þá lýstu skoðun sinni. Hún er því nokkuð vel kunn. Mig langar þó að benda hv. 3. þm. Suðurl. á að ekki er ætlað að taka upp notkun ökuljósa hér allan sólarhringinn vegna þess að svo sé erlendis. Frv. er í sjálfu sér ekki að erlendri fyrirmynd hugsað. Það er ekki svo víða erlendis sem almenn ljósaskylda hefur verið tekin upp, en þó er það á döfinni og er verið að koma slíkri skyldu á víða á Norðurlöndum. Segja má að ástæðan hafi verið skilgreind hér. Ég gerði það áðan og kannske einmitt best með þeim orðum sem ég tók upp úr bréfi frá Blindrafélaginu. Þetta er öryggisatriði sem er talið skipta miklu máli. Það skiptir miklu máli að gera allt það sem tiltækt er til að fækka slysum í umferðinni. Það er alveg sama hvort sú umferð fer fram í lofti, á láði eða legi. Það er jafnalvarlegt mál hvar sem umferðarslys verða. Hér er verið að fjalla um umferðarslys á landi.

Hv. 3. þm. Suðurl. minntist á að það væri bjart allan sólarhringinn. Þetta er ekki alveg rétt vegna þess að menn sjá misvel til. Sumir eru sjóndaprir og það er einmitt verið að taka tillit til þeirra sem ferðast í umferðinni fótgangandi, þurfa að gæta sín á ökutækjunum. Það er verið að fara fram á það að þeir sem stjórna ökutækjunum taki tillit til þessara vegfarenda með því að kveikja á ljósunum, jafnvel þó um hábjartan dag sé, því að sjóndaprir sjá þá ökutækin fyrr en ef engin ljós eru sem gefa til kynna að ökutæki sé á ferð. Þetta er meginmálið sem ég vil einu sinni enn ítreka.

Það mætti e. t. v. nefna það hér að Bifreiðaeftirlit ríkisins telur notkun ljósa við akstur bifreiða, bifhjóls og létts bifhjóls allan sólarhringinn allt árið til mikils öryggis. Þetta kemur fram í umsögn þess. Ég held að það hljóti að vera óhætt að taka mark á því sem starfsmenn Bifreiðaeftirlits ríkisins segja um þessi mál.

Mér þykir við þetta tækifæri, úr því að ég er nú komin aftur í ræðustólinn, rétt að skýra frá öðru atriði sem kom fram í umsögn Bifreiðaeftirlitsins. Ég vil leyfa mér að lesa síðustu mgr., með leyfi forseta, en þar stendur:

Bifreiðaeftirlit ríkisins hefur gefið út námsskrá til undirbúnings almennu ökuprófi. Í henni er lögð mikil áhersla á að nemendur læri að gæta varúðar, einkum þar sem hætturnar eru mestar, jafnframt að sýna lipurð og tillitssemi í akstri. Þá er lögð áhersla á að nota ljós bifreiðarinnar einnig til að vekja athygli á eigin bifreið. Þessi viðbót við sjálft svarið kann að skýra nánar afstöðuna gagnvart einstökum liðum frv.“, segir Guðni Karlsson, forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins, í sinni umsögn.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að hafa öllu fleiri orð um þetta. Nefndin var sammála um að gera ekki breytingar á frv. Þó get ég út af fyrir sig verið sammála því að málamiðlun væri að sleppa skyldunotkun ljósa yfir hásumartímann, eins og brtt. hv. 3. þm. Vesturl. fjallar um. Þetta var nokkuð rætt þegar frv. var lagt fram. Í meðförum allshn. á síðasta þingi var m. a. forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins þeirrar skoðunar að kannske væri rétt að lögleiða þetta í áföngum og miða ljósatímann við skólatíma í fyrstu. En hann hefur skipt um skoðun. Ég held að ég hafi skýrt frá þessu áður, en ég get ítrekað það nú. Hann telur að það eigi að ganga alla leið til að tryggja sem best öryggi í þessum efnum. Þess vegna hefur niðurstaðan orðið sú, að allshn. varð sammála um að koma ekki með brtt. við frv. Þess vegna verð ég að lýsa því yfir að ég get ekki fallist á brtt. þótt svo ég viðurkenni að frv. svo breytt væri spor í rétta átt.