11.04.1984
Efri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4624 í B-deild Alþingistíðinda. (4008)

240. mál, ábyrgð á láni fyrir Arnarflug

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Nefndin hefur rannsakað mál þetta allítarlega og fengið á fund sinn m. a. forystumenn Arnarflugs sem hafa veitt um það upplýsingar og svarað ýmsum spurningum og skýrt stöðu síns félags. Þar að auki hefur n. notið aðstoðar fjmrn., m. a. ráðuneytisstjóra. Að vel athuguðu máli telur n. rétt að ráðh. fái þá heimild sem hér um ræðir. Enda liggja fyrir upplýsingar af hans hálfu héðan úr þessum ræðustól og frá ráðuneytisstjóra á fundum n. um það að ábyrgð verði einungis veitt skv. reglum ríkisábyrgðasjóðs sem kveða á um það að ábyrgð verði aldrei hærri upphæð en sem nemur 70% verðmætis fullgildra veða.

Á fundinum sat hv. þm. Stefán Benediktsson og er hann sammála nm. um þessa afgreiðslu. Eiður Guðnason var fjarverandi en aðrir nm. styðja það að mál þetta verði samþykkt hér og nú.