11.04.1984
Efri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4624 í B-deild Alþingistíðinda. (4009)

240. mál, ábyrgð á láni fyrir Arnarflug

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. frsm., 4. þm. Norðurl. v., er ég samþykkur þessari afgreiðslu málsins, enda ríkt lagt á við hæstv. fjmrh. að hann fari að lögum í þessu máli. Ég veit reyndar ekki hvort það er með öllu verjandi að orða nál. með slíkum hætti. En ég vil taka það skýrt fram að hvernig svo sem þessu máli er velt fyrir sér fer ekkert á milli mála að sú upphæð, sem hér er verið að biðja um fyrirgreiðslu fyrir, er í krónutölu mjög svipuð þeirri upphæð sem segja má að þessu fyrirtæki hafi verið lögð á herðar við stofnun þess þegar það gekk inn í þrotabú og var nánast þvingað til að kaupa ákveðnar eignir til þess að öðlast flugleyfi á vissum leiðum milli landa. Ég tel að hér hvíli mjög mikil ábyrgð á stjórnvöldum og að það sé ekki verjandi að velta þessu vandamáli yfir á herðar skattgreiðenda. Ég vona að þm. allir muni fylgjast mjög vel með því hvernig með þetta mál verður farið og bregðist harkalega við ef í ljós kemur að þær aðgerðir sem af því leiða verða millifærsla á peningum eða skuldum frá þeim aðilum sem raunverulega bera ábyrgð á þessu fjárfestingarslysi, því að þetta er eitt af þessum mörgu fjárfestingarslysum sem við erum að berjast við, yfir á herðar skattgreiðenda.