02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

11. mál, launamál

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki boðið þingheimi upp á lestur fræðirita, eins og hv. 5. þm. Vestf. (ÓÞÞ: Ég skal lána þér bókina, Guðmundur minn.) Já. Það er ekki alveg spánýtt að hann tekur að sér kennslu hér og les þá títt úr bókmenntum ýmiss konar. Og þá er hann skástur í málflutningi þegar hann les upp úr bókmenntum eða fræðiritum. Aftur á móti versna mjög gæðin í ræðuflutningi ef hann fer út fyrir lestur innan gæsalappa úr bókmenntum.

Hér hafa farið fram ítarlegar umr. um brbl. ríkisstj. og er nú ástæða til að tala í ca. þrjá klukkutíma þar um. Það væri kannske athyglisvert að minna á ræðu hv. 2. þm. Reykn. Gunnars Schram, sem að vísu lýsti stuðningi sínum efnislega við ráðstafanir ríkisstj. og taldi þeim margt til gildis, en endaði ræðu sína á því að leggja áherslu á hvort ekki væri athugandi fyrir ríkisstj. að lögin um afnám samningsréttarins væru tekin til endurskoðunar og hvort ekki væri sérstök ástæða, miðað við allt ástand í þjóðfélaginu, að taka þann þátt laganna til endurskoðunar og aflétta því banni sem er á frjálsum samningum. Þarna heyrist a.m.k. rödd eins þm. úr röðum stjórnarflokkanna sem fer ekki dult með þær skoðanir sínar að hann er í meginatriðum fylgjandi þessum lögum og telur árangur á ýmsum sviðum býsna góðan, en varar ríkisstj. jafnframt við að halda fast í að þessi ákvæði standi áfram hvað varðar afnám samningsréttarins. Og mættu nú ráðh. á hlýða.

Í öllu þessu tali, öllu þessu gífurlega talnaflóði til réttlætingar þessum lögum öllum, hefur alltaf komið upp sú röksemd, — kom alltaf upp, ég tala nú ekki um, þegar þessi lög voru í undirbúningi og myndun ríkisstj. o.s.frv., — að vísitölukerfið væri óhæft m.a. af þeim sökum að þar fengju allir prósentur á laun, þannig að sá sem er á hæstu laununum fengi prósentuhækkun en ekki krónuhækkun, þó að þetta væru jafnvel verðhækkanir á landbúnaðarafurðum, og það gæti verið þrefaldar, fjórfaldar, fimmfaldar bætur í vísitölu til þeirra sem væru á hæstu launum miðað við þá sem væru á lægstu launum.

Þetta gekk eins og rauður þráður í gegnum þennan málflutning allan. En svo litu þessi lög dagsins ljós. Þá var skyndilega gleymd kenningin um að prósentan væri ranglát. Allir fengu 8% kauphækkun — 10% í tryggingabætur sem er rétt að geta — og það er alveg sama hvort það var hæstaréttardómari eða einhver annar í efstu stigum, og er ósanngjarnt að vera að tilgreina einhvern sérstakan hóp, eða hvort það væru þeir lægstu. 8% gengu yfir línuna 1. júní. Nákvæmlega sama gerðist 1. okt. Þá var kvartað mjög um að það alvarlega í þessu máli væru kjör láglaunamanna, en þá komu 4% líka yfir alla línuna. Samræmið í þessum málflutningi er því náttúrlega hvergi til staðar og reyndist áróður einn.

En ef við lítum á hvernig þessi lög hafa virkað og þegar menn eru að tala um þá geysilegu jákvæðu virkan sem þau hafi haft, þá er nú fyrst því til að svara, að þegar rætt er um verðbólgu má reikna á misjafnan hátt. Ég er ansi hræddur um að þó að vísitalan sé tekin úr sambandi segi það í sjálfu sér ekki nema lítið um verðbólgu. Ef t.d. eru tekin útgjöld vísitölufjölskyldu og tekinn er 1. ágúst 1982 og það eru bara teknar vörur og þjónusta, þá hefur maður með lágmarkstekjutryggingu verið 294 stundir að vinna fyrir þeim útgjöldum í vísitölunni sem falla undir vörur og þjónustu. Síðan má sundurliða þetta. En 1. ágúst 1983 er hann 405 stundir 36 mínútur að vinna fyrir þessum sama lið vísitölunnar. Hann þarf að vinna 111 stundum og 30 mínútum lengur en hann þurfti árið áður. Ósköp er nú hætt við að maður, sem þarf að lengja vinnu sína um 111 stundir fyrir einföldustu vörum og þjónustu samkv. vísitöluútreikningi eða bara svo tekinn sé grundvöllur vísitölunnar sjálfrar, telji að verðbólga hafi lítið minnkað hvað snertir útgjöld á hans heimili. Og það væri hægt að sundurliða þetta ef í það væri farið. 1. ágúst 1982 er þessi sami aðili t.d. að vinna fyrir kjöti og kjötvörum 24 stundir og 24 mínútur. 1. ágúst 1983 — og hefur það nú hækkað drjúgt síðan 1982 — er hann að 34 stundir 24 mínútur. Hann er 10 vinnustundum lengur að vinna fyrir þessum eina lið vísitölunnar, sem eru kjöt og kjötvörur. Þetta má sjálfsagt færa undir minnkandi verðbólgu, en það er slík kjaraskerðing að það er í reynd gífurlega aukin verðbólga fyrir þann sem í hlut á.

Til eru þeir sem trúa því að þarna sé bara um bráðabirgðaráðstafanir að ræða og síðan munum við rétta okkur við og kaupmáttur rétta sig við. Þetta var sagt 1. júní og margir voru þeirrar skoðunar að þetta mundi vara aðeins skamma stund. Það er hægt að reikna út tekjur og gjöld á mismunandi hátt, en svo að farið sé eftir einföldustu og viðurkenndustu reglum, sem ekki eru umdeildar, þá er kaupmátturinn 1981 — þetta er miðað við kaupmátt kauptaxta —101 stig. 1982 er hann 100 stig, og var nú almennt launafólk ekki ofhaldið af því. Árið 1983 er áætlað að hann verði að meðaltali 81%. Fyrsta ársfjórðunginn — þetta byrjar að hrapa áður en núv. ríkisstj. tekur við — er kaupmátturinn 91 stig, annan ársfjórðunginn er hann 84 stig, þriðja ársfjórðunginn 1983 er hann 77 stig og fjórða ársfjórðunginn 1983 er hann 74 stig. Ef haldið er nú í að spá og leita t.d. álits hagdeildar Alþýðusambands Íslands — hennar spádómar hafa reynst standast og það kaupmáttarstig sem gefið hefur verið upp hefur staðist ótrúlega vel — þá er spáð að á árinu 1984 verði kaupmátturinn fyrsta ársfjórðung 70 stig, annan ársfjórðung 69 stig, þriðja 66 og fjórða 64 stig. Þarna er því ekki um neinar bráðabirgðaráðstafanir að ræða. Þarna er um að ræða aðgerðir sem eru varanlegar aðgerðir, nema veruleg breyting verði á um að negla niður varanlega skerðingu á launum.

Það eru engir tilburðir uppi í þá átt sem hv. 2. þm. Reykn. var að fjalla um í sambandi við skattalækkanir á tekjuskatti t.d. Ég hygg nú að menn séu sammála yfirleitt, hvar í flokki sem þeir standa, um að sveitarfélög séu þannig stæð að ekki sé að vænta lækkana þaðan. Hins vegar er það rétt hjá 2. þm. Reykn. að tekjuskattur hefur oft verið kynntur sem skattur launamanna og ég held að þetta sé rétt og sér í lagi að tekjuskattsstiginn er í reynd orðinn hreint út sagt fáránlegur því að 50% regluna er búið að færa svo langt niður á tekjuskalanum að hún nær til almenns launafólks, sem engum dettur til hugar að séu raunverulegt hálaunafólk. Það er rétt hjá hv. þm. 2. þm. Reykn., að lagfæring á tekjuskattsstiganum gæti verið þáttur í kjarabótum, og skal því á engan hátt mótmælt og ekki standa á stuðningi við það, en hins vegar er um 28% hækkun að ræða á tekjuskatti einstaklinga miðað við síðasta ár, en lögð áhersla á að laun megi helst ekki hækka yfir 6%, og ég held að það sé gert ráð fyrir af fjárlaga- og hagsýslustofnun að þau fari alls ekki yfir 12–15%, svo að það er engin skattalækkun á leiðinni. Menn hafa sjálfsagt sín rök fyrir því, ég skal ekki della um það.

En hvað er það raunverulega sem er að ske? Það sem raunverulega er að ske er ósköp einfalt. Kjör almennra launþega verða skert um tæp 30% á þessu ári án þess að nokkuð sé gert hjá þeim sem eru á lægstu launum. Fyrirsjáanleg er veruleg skerðing á árinu 1984. Menn eru hér að tala um einhverjar bráðabirgðaráðstafanir. Hér eru engar bráðabirgðaráðstafanir á ferðinni. Hér er um aðgerðir að ræða sem, ef ekki verður gripið inn í annaðhvort af einstökum þm. innan stjórnarliðsins eða þá að ríkisstj. snúi eitthvað við á sínum brautum eða þá að henni hreinlega takist ekki að halda þessu í horfi, stefna í varanlega skerðingu. Svo er lögð áhersla á það, það er alltaf boðskapurinn, að ef einhver launahækkun verði sé árangurinn af aðgerðum um að færa niður verðbólguna að engu orðinn. Í sjálfu sér er þetta alger viðurkenning á því, sem haldið hefur verið fram, að aðgerðir til þess að færa niður verðbólgu byggjast fyrst og fremst á skertum kaupmætti og ef eitthvað er hresst upp á hann kemur verðbólgan upp aftur.

Það kom fram hér í ræðu að grípa yrði þarna inn í með hressilegri uppbyggingarstefnu og það mætti ekki byggja eingöngu á launum. Það hefur ekkert komið fram frá hæstv. ríkisstj. — kannske ræða á einhverjum hátíðarfundi eða fundum úti á landsbyggðinni — um aðgerðir sem yrðu til þess að slá á verðbólgu annað en halda niðri launum, enda er þá af nægu að taka í máli manna.

Það er réttilega bent á að þjóðarbúið eigi við alls konar erfiðleika að etja. Við skulum ekki vera að þrefa um staðreyndir. Það er rétt. Það eru alls konar erfiðleikar sem við eigum við að etja. Það er af Þjóðhagsstofnun áætlað að þjóðartekjur á mann muni á árinu verða um 9%. Það var sagt hér áðan 11%. Það má vel vera að þetta sé einhvers staðar á bilinu milli 9 og 11% og Þjóðhagsstofnun hafi eitthvað breytt sinni spá, en spáin er um 9% minnkandi þjóðartekjur, en kaupmátturinn lækki um 28%. Það sem ber á milli hagdeildar Alþýðusambandsins og Þjóðhagsstofnunar um kaupmáttarrýrnun — þarna miða ég við kaupmátt kauptaxta — er að Þjóðhagsstofnun gerir í sinni spá ráð fyrir að launaskrið verði einhvers staðar milli 4 og 6%.Launaskrið eru greiðslur umfram samninga. Það má vel vera að svo verði einhvers staðar í þjóðfélaginu. Hitt fullyrði ég, að á almennum vinnumarkaði hjá verkafólki er þessu ekki til að dreifa. Það má vel vera að það gerist í einhverjum sérstökum stofnunum, en það hefur hvergi verið skilgreint hjá Þjóðhagsstofnun. Þetta er það eina sem ber á milli hagdeildar Alþýðusambandsins og Þjóðhagsstofnunar, þ.e. þetta dularfulla launaskrið. Ég býst við að slíkt geti átt sér stað hjá sérfræðingum og sérstökum sérhæfðum stéttum, en ég fullyrði að hjá öllu almennu verkafólki hafa yfirborganir ekki aukist.

Raunverulega held ég að við séum í mjög alvarlegri hættu út af fleiru en þeirri skerðingu sem ég hef tilgreint hér. Svo hagar til og hefur gert um árabil á Íslandi — að nokkru leyti má leita skýringa til atvinnuhátta, veðurfars o.s.frv. — að vinnutími hér er lengri en tíðkast annars staðar. Það hefur komið fram hjá kjararannsóknanefnd og í hvers konar könnunum að tekjur t.d. verkamanna eru þetta 30–40% af yfirvinnu. Nú fer það að vísu eftir starfsgreinum. En ég fullyrði það og þykist tala þar af töluverðum kunnugleika, að í fjölda starfsgreina er vinnutími nú styttri. Hann hefur dregist saman, mjög mismunandi eftir starfsgreinum, en síðan á miðju sumri eða síðsumars hefur vinnutími almennt dregist saman. Þetta á sér stað bæði í sambandi við innflutning og þetta á sér líka stað í sambandi við minnkandi framkvæmdir á vegum ríkis, á vegum bæjarfélaga og munar svo á næsta ári samkv. fjárlögum. Svo er annað að deila um hvaða framkvæmdum beri að fresta o.s.frv. En allt mun þetta hafa þau áhrif að það dregur úr heildartekjum þegar yfirvinna er 30–40% af tekjum. Ég veit um nokkra vinnustaði þar sem yfirvinna hefur að nokkru leyti eða að mestu fallið niður og þeir sem til viðbótar dagvinnu hafa haft svona 30–40% — þetta er árstíðabundið eftir atvinnugreinum o.s.frv. — verða kannske með 10–20%. Þegar er komið til vandkvæða í þjóðfélaginu, það fjölgar nauðungaruppboðum, það er samdráttur í viðskiptum o.s.frv. Þegar það er farið að segja svona til sín eftir 5 mánuði, hvernig halda menn að það verði þá eftir 12 mánuði?

Raunverulega er þessi helstefna ríkisstj. ekki komin fram nema að sáralitlu leyti. Hún er þegar komin fram í upp undir 30% skerðingu. Og hún er þegar komin fram í ýmsum atvinnugreinum ekki öllum. Það er ekki um atvinnuleysi að ræða, það vil ég taka fram, en það er um minnkandi yfirvinnu að ræða og sú hefur verið regla á landi hér, eins og við höfum margtekið fram, að það almenna er 30–40% yfirvinna. (Forseti: Á hv. þm. langt eftir af ræðu sinni?) Já, svona upp undir tvo tíma. (Forseti: Hann getur haldið áfram til kl. 4, en þá verður fundi frestað.) Já, þá mun ég eiga eftir 1 tíma og 55 mínútur, en ég mun hlíta þeirri ákvörðun forseta.

Ég held að ef menn íhuga hvernig launauppbygging er á landi hér komi í ljós að hún er svo gerólík því sem er t.d. í nágrannalöndum okkar. Ef við bregðum okkur til nágrannalanda okkar, förum t.d. til Danmerkur, þá er verkamannakaup þar mjög svipað í dönskum krónum og verkamannakaup á Íslandi er í íslenskum krónum. Að vísu eru skattar þar miklu hærri, en hins vegar er þarna gífurlegur munur á kaupmætti fyrir unna klukkustund. Það sem heldur uppi kaupmætti á Íslandi með þessu lága kaupi er fyrst og fremst yfirvinnugreiðslan. Það hefur oft verið talað um að hækka dagvinnukaup.

Ég held að ef kaupmáttarskerðing yrði 30% á þessu ári og það drægi úr yfirvinnu og heildartekjum manna þar af leiðandi, þá hljóti að koma að því að áfram verði haldið á næsta ári, kannske ekki með sama hraða, en allar líkur á því að yfirvinna dragist mun meira saman. Hvert stefnir þá? Ég held að það fari ekki fram hjá nokkrum manni, sem vill viðurkenna einföldustu hluti og einföldustu staðreyndir, að það stefnir í hreint óefni. Það má vera að sú ríkisstj. sem ætlar að halda í og rígbinda sig við þessa stefnu í launa- og verðlagsmálum álíti að hún geti verið við völd lengi. En ákaflega held ég að hún verði orðin rúin trausti almenns launafólks ef hún heldur áfram á þann hátt sem hún hefur gert fram að þessu og ætlar sér að gera á næsta ári.

Ég mun síðar í ræðu minni gera grein fyrir ýmsum fleiri þáttum, en ef t.d. teknar eru breytingar á launum og breytingar á verðlagi og við tökum 1. júlí 1982 og 1. ágúst 1983, þá hafa laun hækkað um 58%, en verðlag hefur hækkað um 109%. Nú ber hins vegar að tala hagfræðilega. Verðbólgan er á niðurleið, segja menn. Laun hækka um 58%, verðlag um 109%. Ég held að svona kenningar, þó að enginn sé að gera lítið úr afleiðingum verðbólgu, dæmi sig sjálfar. Rösklega helmingi hærri verðlagshækkanir en kauphækkanir hljóta að hafa sín áhrif og segja til sín.

Það er talað um að lánskjaravísitalan hafi lækkað að undanförnu. Rétt er það. En lánskjaravísitala á árinu 1983 rauk ekki aðeins upp fyrri hluta ársins, heldur hefur hún ætt upp með miklu meiri hraða í allt sumar. Menn eru að hrósa sér af því að þeir hafi náð að nokkru niður lánskjaravísitölu, sem þeir með sínum eigin aðferðum eru búnir að keyra upp úr öllu valdi.

Ég mun nú hlýða forseta og gera hlé á máli mínu. —[Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég skal draga mál mitt mjög saman, þó að ærin ástæða væri til að tala í tvo tíma til viðbótar eins og ég hafði uppi í tali mínu áðan.

Ég hef rakið það hér að framan, að kjaraskerðing mun liggja einhvers staðar á bilinu 28–30% um áramót. Ég hef fært að því mjög sterkar líkur að kjaraskerðing muni á árinu 1984 verða 10 til 20%. Ég hef fært að því ákaflega sterkar líkur líka, þó að þar geti að vísu ýmislegt óvænt spilað inn í á báðar hliðar, að það sé útlit á minnkandi vinnu og þar af leiðandi verulegum tekjumissi hjá almennu verkafólki. Ég hef líka fært rök að því, að engar ráðstafanir hafa verið gerðar sem rétta hlut þess fólks sem býr við hvað lægst laun í landinu. Og ég hef fært rök að því, að þegar sé ákveðin kreppa að skella á hjá því fólki og það sé verulega farið að þrengja að því, og þegar farið sé að þrengja að því á þann hátt að veruleg hætta er á að menn missi íbúðir sínar o.s.frv. og verulegur samdráttur verði eftir fimm mánaða veru hv. ríkisstj., þá verði ástandið orðið skuggalegt eftir 12 mánaða veru hennar að öllu óbreyttu.

Barátta hæstv. ríkisstj. gegn verðbólgunni hefur verið bann við kjarasamningum. Það hefur verið lagt bann við verðbótum og verkafólk hefur jafnframt verið aðvarað, ef því hefur ekki beinlínis verið hótað, að ef það semdi ekki eins og ríkisstj. væri þóknanlegt mundi hún gera sínar ráðstafanir. Verðhækkanir hafa verið hömlulausar og aldrei magnaðri en síðan ríkisstj. tók við, þó heldur sé farið að lægja þeim ósköpum öllum, á sama tíma og hún hrósar sér af að verðbólga hafi dottið niður. Hún hefur sennilega aldrei verið meiri en á fyrstu þremur valdamánuðum núv. ríkisstj. Ég held að það sé óþarfi að vera að ítreka þessar staðreyndir öllu meira. Ég vil hins vegar ítreka áskorun mína, sem fleiri hafa tekið hér undir, að ríkisstj. gefi nú samningsréttinn frjálsan að nýju og svipti ekki launþega svona hlutum sem hafa verið taldir til almennustu mannréttinda. Og ég vil líka ítreka fyrri ummæli mín hér, að ég tel að það séu möguleikar á bráðabirgðasamkomulagi þar sem fyrst og fremst væri tryggt að þeir sem væru með lægst laun fengju einhverjar úrbætur.

Ég skal vera fyrstur maður til að viðurkenna að þarna er við ákveðna erfiðleika að etja, ef það kemur einhver ákveðin kauphækkun að hún gangi ekki í prósentutölu upp allan stigann eins og var í lögum núv. ríkisstj. Ég held að innan verkalýðshreyfingarinnar, þó að ég geti ekki mælt fyrir hönd hennar allrar, sé ákaflega sterkur vilji til þess að ná bráðabirgðasamkomulagi um þetta fólk sem hefur tæplega 11 þús. kr. kauptryggingu og býr við minnkandi yfirvinnu, í sumum tilvikum enga, öðrum tilfetlum einhvern kaupauka sem í ýmsum tilfellum fer líka minnkandi, — að það verði samið við þetta fólk um leiðréttingu mála.

Ef ríkisstj. ætlar sér af einhverjum metnaði að standa fast gegn þessum kröfum þá spái ég því að það sé verst fyrir hana sjálfa. Ég held að hún sé þar að stífla ákveðið fljót sem eigi eftir að sprengja sér farveg. Og ég held að það sé rétt hjá hv. 2. þm. Reykn. að sé einhver möguleiki á að taka höndum saman til að mæta ákveðnum erfiðleikum í þessu þjóðfélagi þá eigi að gera það í samvinnu og ákveðnu samkomulagi, en ekki með lögum og valdboði eða þeim þjösnaskap sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur sýnt. Ég held að öll hennar pólitík stefni á ógæfuhlið, kalli á ófrið í þjóðfélaginu og ég er hræddur um að í kjölfar þess ófriðar muni margt reynast brothætt í þessu þjóðfélagi, þ. á m. ráðherrastólar. Ég held að hæstv. ráðh. ættu nú að leggja það til í sínum þingflokkum til að byrja með að samningsrétturinn væri gefinn frjáls. Allt þetta tal þeirra um frelsi hefði þá einhverja undirstöðu.

Ég vil sem sagt ítreka þá kröfu að samningsrétturinn verði gefinn frjáls og ég vil ítreka þann möguleika að gert verði bráðabirgðasamkomulag sem tryggir þeim sem lægst laun hafa einhverjar úrbætur án þess að það næði yfir allan launastigann. Þráist ríkisstj. við þetta þá getur hún engan sakað um nema sjálfa sig.