11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4625 í B-deild Alþingistíðinda. (4018)

119. mál, tollskrá

Guðrún Helgadóttir:

Virðulegi forseti. Ég kemst ekki hjá því að taka til máls þó að komið sé að 3. umr. þessa máls.

Eins og menn minnast var samþykkt á hinu háa Alþingi í vetur þáltill. um að ríkisstj. undirritaði svonefndan Flórens-sáttmála. Ég undraðist það dálítið þá að stjórnarþm. skyldi flytja slíkt mál fremur en að ríkisstj. tæki einfaldlega þá ákvörðun að undirrita samninginn, en lýsti því jafnframt yfir að vitaskuld væri sama hvaðan gott kæmi. Nú bregður svo við að hér hefur legið fyrir þinginu frv. til l. frá hinum sama flm., hv. þm. Gunnari Schram, um einn lið í Flórens-sáttmálanum, þ. e. að lagt er til að tollskrá verði breytt til þess að niður falli tollar af tækjabúnaði til vísinda. Ég kom að máli við hann þegar þetta mál hafði verið afgreitt út úr hv. fjh.- og viðskn. og innti hann eftir því hvort það væri með vilja gert að undan væru skilin önnur atriði sáttmálans, sem eru t. d. bækur, tímarit og skýrslur, listaverk, safngripir með menntunarlegt, vísindalegt eða menningarlegt gildi, sýningarefni og hvers kyns hljóðritað efni með menntunarlegt, vísindalegt og menningarlegt gildi. Síðan er talað um vísindatæki og búnað og vörur til afnota fyrir blinda, en af þeim hafa þegar verið felldir niður tollar.

Hann athugaði málið og bað mig að tefja ekki málið við 2. umr. þar sem hann mundi einfaldlega flytja nýtt frv. til að taka inn önnur atriði sem Flórens-sáttmálinn fjallar um, sem eru ekki síður mikilvæg en vísinda- og tæknibúnaðurinn sem er auðvitað gott að fá afgreitt.

Nú hef ég haft samband við fjmrn. og þá varð undrun mín eiginlega enn þá meiri vegna þess að í því góða rn. telja menn að þetta frv. hafi jafnvel verið með öllu óþarft. Í lögum um tollskrá nr. 120 frá 1976 segir í 3. gr. 6. tölul., með leyfi forseta:

„Fjmrn. er heimilt . . . að láta koma til framkvæmda tollfrelsis- og tollalækkunarákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum.“

Þeir embættismenn telja því að þetta frv. hefði jafnvel verið óþarft. En nú er það komið fram og sjálfsagt að samþykkja það. Þá liggur alveg ljóst fyrir að jafnnauðsynlegt er að um önnur atriði sáttmálans verði jafnframt lagt fram frv.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á þessu. Ég geri ráð fyrir að menn hafi kannske ekki allir áttað sig á þessu. En eftir stendur og sú niðurstaða er alveg óumdeilanleg að annaðhvort þarf frv. fyrir öll atriði sáttmálans eða það þarf ekkert frv. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ef þetta frv. var nauðsynlegt til frekari ítrekunar á núverandi heimild í tollskrárlögum á það ekkert frekar við um vísinda- og tæknibúnað en önnur atriði. Ég mun að sjálfsögðu styðja þetta frv., en ég vil beina því til þm. hv. Ed., og mun ræða við nm. í fjh.- og viðskn. þar, að þeir kanni hvernig þetta mál stendur því hér er sannarlega einkennilega að farið um lagasetningu.