11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4628 í B-deild Alþingistíðinda. (4030)

265. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 68/1967 um Iðnlánasjóð ásamt síðari breytingum. Frv. þetta gerir ráð fyrir minni háttar breytingum á núgildandi lagagreinum um Iðnlánasjóð. Meginbreytingin er sú að áformað er að bæta nokkrum lagagreinum inn í núgildandi lög um Iðnlánasjóð til að einfalda og styrkja sjóðakerfi iðnaðarins.

Frv. þetta felur í sér að Iðnrekstrarsjóður er lagður niður en í stað hans er stofnuð vöruþróunar- og markaðsdeild í Iðnlánasjóði og mun hún taka við starfsemi Iðnrekstrarsjóðs. Frv. þetta er samið í iðnrn. í samráði við fulltrúa frá Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna og Iðnaðarbanka Íslands hf.

Með breytingu þeirri sem frv. felur í sér er stefnt að því að efla vöruþróunar- og útflutningsstarfsemi íslenskra iðnfyrirtækja. Jafnframt er sjóðakerfi iðnaðarins einfaldað og gert aðgengilegra fyrir þá sem þangað vilja leita.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. segir m. a., með leyfi virðulegs forseta:

„Unnið verði að endurskipulagningu fjárfestingasjóðakerfisins, stefnt verði að fækkun sjóða með sameiningu þeirra til að draga úr kostnaði og gera starfsemi þeirra heilsteyptari, m. a. með samræmingu lánskjara.“

Þessi breyting er því í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj.

Áætlanir um fjárfestingu tengjast oftlega fyrirætlunum um nýjar framleiðsluvörur og markaðssetningu. Það er því eðlilegt að ákvarðanir um lán og styrki til einstakra fyrirtækja vegna þessara þátta séu teknar á einum stað en dreifist ekki á fleiri aðila. Einn öflugur sjóður er auk þess hæfari til að takast á við stór og viðamikil verkefni.

Með þessu frv. er lagt til að lán og styrkir til vöruþróunar og markaðsstarfsemi verði að hluta fjármagnaðir með hækkun iðnlánasjóðsgjalds úr 0.05% af aðstöðugjaldsstofni í 0.25%. Einnig er gert ráð fyrir að starfsemi Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins verði að verulegu leyti fármögnuð með þessari hækkun gjaldsins.

Brýn nauðsyn er að efla alla starfsemi er lýtur að vöruþróunar- og markaðsstarfsemi, þ. e. með því að auka tekjur sjóðsins af hinu sérstaka gjaldi og með framlagi ríkissjóðs. Hér er því lagt til að iðnlánasjóðsgjaldið hækki í 0.25% sem þó er aðeins helmingur þess sem það var fyrir 1983. Þar á móti kemur framlag úr ríkissjóði jafnhátt þeim hluta gjaldsins, 4/7 hlutum, sem verja skal til vöruþróunar og markaðsstarfsemi hjá Iðnlánasjóði. Hér er því um að ræða sameiginlegt átak iðnaðarins og hins opinbera til þess að auka verulega fjármagn til þessarar starfsemi.

Rétt þykir að hafa hækkun iðnlánasjóðsgjalds og framlag ríkissjóðs tímabundið og er því lagt til að upphæð og skipting gjaldsins verði tekin til endurskoðunar fyrir árslok 1988. Fyrr er vart unnt að meta árangur af þeirri starfsemi sem hér er fjallað um. Vöruþróun og markaðsleit skilar yfirleitt ekki árangri fyrr en að nokkrum tíma liðnum og því er lagt til að þessi skipan gildi í a. m. k. þessi 4 ár.

Iðnaðarbanki Íslands hf. mun sjá um daglegan rekstur sjóðsins eins og verið hefur, en gert er ráð fyrir að samningur þar að lútandi verði endurskoðaður.

Rétt er að víkja nokkrum orðum að Iðnrekstrarsjóði. Iðnrekstrarsjóður var stofnaður árið 1973 og starfar nú skv. lögum nr. 54/1980. Í upphafi styrkti sjóðurinn nær eingöngu aðgerðir til að efla útflutning. En með lagabreytingu árið 1980 var hlutverk sjóðsins aukið verulega og samhliða því var auknu fjármagni veitt til hans. Á undanförnum árum hafa styrkveitingar Iðnrekstrarsjóðs í stórum dráttum skipst á þrjá aðalþætti, þ. e. útflutningsaðgerðir, vöruþróun og nýiðnað og iðngreinaverkefni og framleiðniaðgerðir.

Lagt er til að vöruþróunar- og markaðsdeild taki við starfsemi Iðnrekstrarsjóðs frá 1. júlí 1984 og taki þá við eignum og skuldum sjóðsins.

Í uppgjöri fyrir Iðnrekstrarsjóð hinn 31. des. 1983 kemur fram að eignir sjóðsins eru um 43 millj. kr. Samþykkt óútborguð lán voru 8.4 millj. kr. og samþykktir óútborgaðir styrkir voru 1.7 millj. kr. Engin lán hvíla á sjóðnum. Ekki hefur verið lagt mat á þann hluta af eignum sjóðsins sem eru útistandandi lán. Reikna má með að eitthvað af vöruþróunarlánum verði afskrifað þannig að raunveruleg eign sé nokkru lægri en reikningar sýna. Auk þess nema ábyrgðir sjóðsins um 10.6 millj. kr. en óvíst er hvort og þá hve mikið af ábyrgðum sjóðurinn þarf að leysa til sín. Ábyrgð þessi er nær eingöngu tengd einu fyrirtæki.

Lagt er til að sjóðnum verði heimilað að kaupa hlutabréf í starfandi fyrirtækjum og taka þátt í stofnun nýrra fyrirtækja þegar stjórn sjóðsins telur slíkt samræmast markmiði sjóðsins. Stjórn Iðnlánasjóðs mun gefa út nánari reglur um starfsemi vöruþróunar- og markaðsdeildar.

Við það er miðað að 0.25% gjaldið verði lagt á iðnaðinn á árinu 1985, á gjaldstofn ársins 1984. Árið 1983 nam 0.05% iðnlánasjóðsgjaldið 4 millj. 660 þús. kr. Ef gert er ráð fyrir 75% meðalhækkun útgjalda hjá fyrirtækjum milli áranna 1982 og 1983 gæfi 0.25% gjald 40.25 millj. kr. í tekjur fyrir Iðnlánasjóð fyrir árið í ár sem skiptist þannig:

A. 1/7 hluti eða 5.75 millj. kr. til stofnlána.

B. 2/7 hlutar eða 11.5 millj. kr. til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins.

C. 4/7 hlutar eða 23 millj. kr. til áhættulána og vöruþróunar- og markaðsdeildar.

Lagt er til að framlag ríkissjóðs til deildarinnar vegna áhættutána verði jafnhátt þeim 4/7 hlutum af gjaldinu sem lagt er á iðnaðinn vegna áhættulána. Er sú viðmiðun höfð í huga að framlög ríkissjóðs vegna áhættulána séu jafnhá því sem iðnaðurinn í landinu leggur fram til áhættulánastarfsemi vöruþróunar- og markaðsdeildar.

Lagt er til að ákvæði um framlag ríkissjóðs taki gildi á árinu 1985 skv. fjárlögum fyrir árið 1985. Framlag ríkisins skal veitt árlega á fjárlögum til og með árinu 1988 en verði þá endurskoðað. Að öðru leyti vísast til greinargerðar með frv. varðandi stofnun vöruþróunar- og markaðsdeildar.

Í frv. er lagt til að stjórn Iðnlánasjóðs verði heimilt að veita lán til kaupa á tölvubúnaði og tölvukerfum. Ákvæði um þetta í núgildandi lögum eru ekki afdráttarlaus og skýr. Notkun á tölvum og hvers kyns rafeindabúnaði hefur aukist mjög í iðnaði hin síðari ár og á eftir að aukast enn meir. Stjórnvöld hafa komið til móts við þessa þróun með því að fella niður öll aðflutningsgjöld af þessum tækjum til iðnaðarins.

Lagt er til að heimildir um tryggingar, er sjóðstjórnin metur gildar, verði rýmkaðar. Þannig verði heimilt að veita lán gegn tryggingu þriðja aðila er gæti verið tryggingafélag eða annað fyrirtæki en það sem sækir um lánið.

Að lokum er lagt til í frv. að fella skuli niður allar breytingar á lögum nr. 68/1967 og endurútgefa lögin í heild. Þá er ákvæði um að fyrir árslok 1988 skuli taka ákvæði laganna, er lúta að gjaldtöku af iðnaðinum til Iðnlánasjóðs og skiptingu þess, til endurskoðunar.

Gert er ráð fyrir að frv. þetta, ef að lögum verður, öðlist gildi 1. júlí 1984 og frá þeim tíma falli lög um Iðnrekstrarsjóð úr gildi. Iðnlánasjóður mun frá þeim tíma yfirtaka eignir Iðnrekstrarsjóðs og ábyrgjast allar skuldbindingar hans. Ég legg áherslu á að frv. þetta hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.