11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4630 í B-deild Alþingistíðinda. (4031)

265. mál, Iðnlánasjóður

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Meginefni þess frv. um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð, sem hæstv. ráðh. hefur mætt hér fyrir, er þess efnis að lagður verði niður Iðnrekstrarsjóður og starfsemi sem hann hefur annast verði falin sérstakri vöruþróunar- og markaðsdeild innan Iðnlánasjóðs. Einnig að lögfest verði breytt ákvæði um tekjuöflun til þessarar starfsemi. Þau ákvæði fela í sér álögur á iðnfyrirtæki í þessu skyni með fimmföldun iðnlánasjóðsgjalds frá gildandi lögum, gert er ráð fyrir að það skili 40 millj. kr. miðað við árið 1985, að fram komi jafnhátt framlag úr ríkissjóði að lágmarki til Iðnlánasjóðs, og auk þess verði ráðstafað til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 2/7 hlutum af iðnlánasjóðsgjaldi.

Iðnrekstrarsjóður hefur nú starfað í 10 ár og gegnt mikilvægu hlutverki. Hann var stofnaður með lögum 1973 að frumkvæði Magnúsar Kjartanssonar þáverandi iðnrh. og tilgangur sjóðsins þá skilgreindur þannig m. a. að stuðla að auknum útflutningi iðnvarnings, breyttu skipulagi og aukinni framleiðni í íslenskum iðnaði. Stofnfé sjóðsins var gengishagnaður af útflutningi iðnaðarvara og 50 millj. kr. framlag á þáverandi verðlagi úr ríkissjóði.

Fyrsta fulla starfsár sjóðsins námu útborguð lán og styrkir úr honum um 10 millj. kr. reiknað á verðlagi ársins 1982. Þær tölur, sem ég fer með hér varðandi framlög til sjóðsins, eru reiknaðar á verðlagi þess árs. Tekjur sjóðsins lækkuðu síðan og útborgað fé hans ár frá ári til ársins 1978 og varð lægst það ár 6 millj. kr. á umræddu verðlagi.

Í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar var hafist handa um eflingu Iðnrekstrarsjóðs og áfram í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, enda efling sjóðsins sérstaklega nefnd í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar. Þetta gerðist með endurskoðun laga um sjóðinn og setningu nýrra laga nr. 54 vorið 1980 svo og með framlögum til sjóðsins af tekjum af tímabundnu aðlögunargjaldi sem innheimt var af innfluttum iðnaðarvörum hálft árið 1979 og árið 1980. Skv. gildandi lögum um sjóðinn er gert ráð fyrir framlagi til hans úr ríkissjóði er miðist að lágmarki við 0,6% af vinnsluvirði iðnaðar undanfarið ár skv. áætlun Þjóðhagsstofnunar og gildi það fyrir árið 1982–1985 en verði þá endurmetið með hliðsjón af þörfum, eins og segir í lögunum. Jafnframt því að tryggja sjóðnum auknar tekjur voru verkefni hans gerð víðtækari með lagabreytingunni 1980, þ. e. að styðja alhliða umbótastarf í iðnaði, einkum með tilliti til útflutnings, vöruþróunar, nýsköpunar og aukinnar framleiðni.

Skv. lögum um Iðnrekstrarsjóð er sjóðnum ætlað að rækja hlutverk sitt sem endurbóta- og örvunarsjóður m. a. með styrkjum og framlögum, með áhættulánum, með ábyrgðum gagnvart viðskiptabönkum og fjárfestingarlánasjóðum og með viðbótarlánum til fjárfestinga. Útborganir sjóðsins hin síðustu ár urðu á verðtagi ársins 1982 þessar: 1981 16 millj. kr., 1982 um 13 millj. kr., 1983 röskar 17 millj. kr. og 1984 skv. fjárlögum 11 millj. kr. og munu ekki hafa orðið lægri frá árinu 1978 að telja. Framlög ríkisins til sjóðsins voru nokkru undir þeirri viðmiðun sem lögin gerðu ráð fyrir þessi ár en þó mun hærri en áður gerðist. Eftirspurn eftir stuðningi sjóðsins fór hins vegar vaxandi, árlegur fjöldi afgreiddra umsókna óx úr um 50 að meðaltali á árunum 1974–1979 í um 110 afgreiddar umsóknir á árunum 1980–1982 að meðaltali, og enn fleiri sóttu um lán og styrki úr sjóðnum á árinu 1983.

Það var því í mikilli mótsögn við vaxandi þörf iðnaðarins og yfirlýsingar núverandi stjórnvalda að framlög til sjóðsins voru stórlega skert á árinu 1984. Nema þau skv. fjárlögum aðeins 15 millj. kr. í stað 44 millj. kr. ef farið hefði verið nákvæmlega að lögum sjóðsins. Svarar þetta til aðeins um 11 millj. kr. ráðstöfunarfjár fyrir sjóðinn á verðlagi ársins 1982, eins og þegar hefur komið fram. Er það stórfelld lækkun að raunvirði frá árinu 1983, en á sama mælikvarða nam framlag ríkisins það ár 17.3 millj. kr. Af þessum sökum hefur stjórn sjóðsins nú orðið að draga verulega úr styrkveitingum og lánum, m. a. til stuðnings við markaðsstarfsemi og til þátttöku fyrirtækja í vörusýningum, t. d. um 30% varðandi kynningarefni í tengslum við sýningar.

Það er því út af fyrir sig ánægjuefni að ríkisstjórnin og iðnrh. hyggjast í einhverju bæta ráð sitt eins og fram kemur að nokkru í fyrirliggjandi frv. Frv. felur í sér endurskipulagningu með samruna Iðnrekstrarsjóðs og Iðnlánasjóðs eða réttara sagt að Iðnrekstrarsjóður verði lagður undir Iðnlánasjóð. Það getur vissulega verið skynsamlegt markmið að sameina sjóði og haft í för með sér hagræðingu sem sjálfsagt er að vega og meta. Fleira hangir þó hér á spýtunni. Ég tel vafamál að heppilegt sé að hafa áhættusjóð eins og iðnrekstrarsjóð nátengdan fjárfestingarlánasjóði og undir sömu stjórn og Iðnlánasjóður. Á öðrum Norðurlöndum er algengt að slíkir sjóðir séu aðgreindir, fjárfestingarlánasjóðir og þróunarsjóðir. Enn hæpnara tel ég þó vera að tengja slíkan áhættusjóð svo náið viðskiptabanka eins og Iðnaðarbankanum svo sem lagt er til að gert verði og það enn frekar þar sem Iðnaðarbankinn er að verða hreinn einkabanki skv. ákvörðun hæstv. iðnrh. Viss hætta er á því að bankinn noti vörslu sjóðsins til að tryggja sína hagsmuni á kostnað iðnaðarpólitísks ávinnings og markmiða sem Iðnrekstrarsjóði hefur verið ætlað að sinna. Um þetta verður auðvitað ekki fullyrt en ég vek athygli á þessari hættu og tel nauðsynlegt að í samningum við bankann, ef að ráði verður að leggja sjóðinn til hans, verði gengið þannig frá að girt verði fyrir þetta svo sem verða má.

Varðandi stjórn og vörslu þessa fjármagns að öðru leyti vil ég segja: Með breytingu á lögum um Iðnlánasjóð og afnámi laga um Iðnrekstrarsjóð verða mun færri sem koma að þessu máli, þ. e. úthlutun þess fjármagns til iðnþróunarmála sem til fellur ef ákvæði frv. verða lögfest.

Stjórn Iðnrekstrarsjóðs skipa nú sjö menn, þar af sex skv. tilnefningu. En í stjórn Iðnlánasjóðs sem á að yfirtaka Iðnrekstrarsjóð, eru þrír menn, þar af tveir skv. tilnefningu Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna. Þeir sem settir eru til hliðar skv. frv. úr stjórn og umráðum þessa fjár eru m. a. Alþýðusamband Íslands, Landssamband iðnverkafólks og

Ég vek sérstaka athygli á þessu. Mér er ekki kunnugt um að samráð hafi verið haft við þessa aðila um breytta tilhögun en hæstv. ráðh. leiðréttir það þá í umr. ef svo hefur verið.

Þetta er raunar í samræmi við fleira hjá hæstv. ríkisstj. þegar um er að ræða samskipti við alþýðusamtökin í landinu. Hér er verið að ýta þeim til hliðar frá því að fylgjast með þessum iðnþróunarmálum og ráðstöfun umrædds fjármagns. Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem í 10 ár hefur átt aðild að stjórn Iðnrekstrarsjóðs, er einnig ýtt til hliðar eins og alþýðusamtökunum, á sama tíma og Iðnaðardeild Sambandsins er ættað að reiða fram verulega fjármuni til hliðstæðrar starfsemi á vegum Iðnlánasjóðs.

Ég tel ástæðu til þess að spyrja um afstöðu ráðh. Framsfl. til þessa atriðis og hvort þeir hafi gert sér grein fyrir þeirri breytingu sem hér er á ferðinni í sambandi við áhrif Sambands ísl. samvinnufélaga á ráðstöfun þessa fjármagns.

Líka er ástæða til þess að spyrja um ástæður fyrir þessari skipulagsbreytingu, aðrar en hagræðingarsjónarmiðið eitt sem hæstv. ráðh. færði fram. Var ástæðan kannske sú öðru fremur að víkja Sambandi ísl. samvinnufélaga frá áhrifum á útdeilingu fjárins?

Að sjálfsögðu var í lófa lagið að afla fjár til þessarar starfsemi með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir án þess að leggja Iðnrekstrarsjóð niður. Sá er möguleiki til staðar að fela umsjá þessa fjár stjórn eða nefnd sem sömu aðilar komi að, þó að sjóðirnir séu tengdir nánari böndum en gert hefur verið. Ég veit heldur ekki til þess að ágreiningur hafi ríkt um afstöðu eða stefnu innan stjórnar Iðnrekstrarsjóðs á liðnum árum og af þeim sökum hafi verið ástæða til skipulagsbreytingar.

Ég vek hins vegar athygli á að hlutverk Iðnrekstrarsjóðs er mun víðtækara en fjárfestingarlánasjóða þar sem er m. a. stefnumarkandi afstaða til iðnþróunarmála. Ég er andvígur þeirri þrengingu sem fram kemur varðandi stjórnun þessara mála, eins og það birtist í frv.

Ég kem þá að tekjuöflunarhlið frv. þar sem gert er ráð fyrir fimmföldun iðnlánasjóðsgjalds frá gildandi lögum og gert ráð fyrir að það skiptist með tilteknum hætti í sjöunda hluta milli vöru- og iðnþróunardeildar

Iðnlánasjóðs eða þeirrar starfsemi sem Iðnrekstrarsjóður hefur haft með höndum og svo útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins.

Ég minni á að iðnlánasjóðsgjald var lækkað úr 0.5% í 0.05% eða um 90% með lögum 4. maí 1982 og var það auðvitað nokkur hagsbót fyrir iðnaðinn. Nú er verið að stíga það skref að hálfu til baka að mér skilst með samkomulagi við Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna. Ég bið um að það verði leiðrétt ef rangt er hermt að um það sé full samstaða við þessi samtök iðnaðarins.

Ég tel vissulega góðra gjalda vert að samtök iðnaðarins eru reiðubúin að fallast á slíka gjaldtöku af iðnfyrirtækjum til þeirrar iðnþróunarstarfsemi sem hér er gert ráð fyrir svo og til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Ég vek hins vegar athygli á að hér er verið að lækka framlag ríkisins til þessara mála frá því sem ákvæði eru um í gildandi lögum. Á ég þá við framlag ríkisins sem veitt var í reynd á árunum 1980–1983. Það er í samræmi við þá miklu skerðingu sem ríkisstj. knúði fram á þessu ári til Iðnrekstrarsjóðs skv. fjárlögum. Með framlagi iðnfyrirtækja skv. frv. væri ráðstöfunarfé sjóðsins í heild sem næmi 25 millj. kr., reiknað á verðlagi ársins 1982, og er þá gert ráð fyrir 20% verðbreytingu frá miðju ári 1983 til jafnlengdar 1984. Til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins var veitt 2.9 millj. kr. á fjárlögum 1983 og sömu upphæð í krónutölu á þessu ári þannig að framlag ríkisins var rýrt skv. fjárlögum að raungildi.

Nú segir í c-lið 3. gr. 4. lið þessa frv. að 2/7 hlutum af Iðnlánasjóðsgjaldi skuli ráðstafað óskiptu til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins en ekkert segir í frv. um mótframlag af hálfu ríkisins í þessu skyni. Ég spyr því hæstv. iðnrh. hvert viðhorf hans sé varðandi framlag ríkisins til Útflutningsmiðstöðvarinnar, ég hygg að það hafi numið 2.9 millj. kr. á fjárlögum þessa árs eða þar um bil. Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir að lögfesta mótframlag af hálfu ríkisins til Útflutningsmiðstöðvarinnar í þessu frv. hliðstætt og gert er varðandi framlagið til vöruþróunardeildar Iðnlánasjóðs?

Fari svo að dregið verði úr framlagi ríkisins í þá starfsemi, þ. e. til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, er um enn meiri samdrátt á ríkisframlagi til iðnaðarins áð ræða í tengslum við þetta frv. en að því er varðar Iðnrekstrarsjóð einan.

Herra forseti. Ég tel þá stefnu sem í þessu frv. felst í ýmsum greinum ranga. Þar er fækkað um helming þeim aðilum sem útdeila fjármagni til þróunarstarfsemi í iðnaði og alþýðusamtökin og Samband ísl. samvinnufélaga útilokuð frá áhrifum á þau mál. Með frv. er rýrt framlag ríkisins til þessara mála frá því sem verið hefur á undanförnum árum og verulega frá því sem kveðið er á um í gildandi lögum sem gert var ráð fyrir að endurskoðuð yrðu frá árinu 1985 að telja. Væntanlegum einkabanka, þ. e. Iðnaðarbankanum, er falin ávöxtun fjármagns sjóðsins, sem m. a. á að nota til styrkja og áhættulána.

Til bóta horfir hins vegar skv. frv. að iðnaðurinn leggur skv. því meira af mörkum til iðnþróunarmála en áður. Slíkt framlag hefði hins vegar átt að koma sem viðbót við óskert framlag ríkisins, því að nauðsyn ber til að efla þá starfsemi sem Iðnrekstrarsjóður hefur staðið að með góðum árangri á undanförnum árum. Iðnaðurinn hefur borið skarðan hlut frá borði í opinberum framlögum miðað við aðra atvinnuvegi um langt skeið. Að leiðréttingu í þeim efnum hefur verið unnið á undanförnum árum en hér er stefnt í átt til vaxandi misræmis að þessu leyti.

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri n. sem um frv. fjallar og mun leita þar eftir umsögnum og upplýsingum um þetta mál. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða það frekar á þessu stigi.