11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4634 í B-deild Alþingistíðinda. (4033)

198. mál, Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er samið af nefnd sem fyrrv. heilbr.- og trmrh. setti á fót í desember 1982. Það hefur fengið afgreiðslu í Ed. Það er álit þessarar nefndar að ekki sé annað fært en að skipa fyrir um þau mál sem snerta stofnun sjónstöðvar með lögum vegna þeirrar samræmingar sem þeim er ætlað að hafa í för með sér og þess kostnaðar sem af þeim muni leiða. Ég mun víkja nánar að því síðar.

Með þessu frv. er sérstaklega tekið á eftirfarandi þáttum: starfsemi sjónstöðvar, skipulagningu sjónverndar í landinu, úthlutun hjálpartækja og hlutdeild hins opinbera í augnlækningaferðum og samvinnu við aðra aðila sem sýsla með störf á þessu sviði.

Á undanförnum árum hafa verið sett margs konar lög til að koma þeim þegnum þjóðfélagsins til hjálpar sem á hjálp hafa þurft að halda. Má í því tilviki nefna almenn lög um aðstoð við þroskahefta, almenn lög um málefni fatlaðra, enn fremur sérlög eins og lög um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, en sú stofnun annast hvers konar þjónustu fyrir heyrnarskerta, svo sem prófun heyrnar og úthlutun heyrnartækja.

Sú þjónusta sem veitt hefur verið á sviði sjónverndar, þ. e. félagsleg þjónusta og endurhæfing sjónskertra, hefur svo til eingöngu verið í höndum Blindrafélagsins, en það var stofnað árið 1939. Eins og kunnugt er hefur félagið verið einn helsti brautryðjandi í málefnum blindra hér á landi og helgað starfsemi sína hagsmunamálum blindra og sjónskertra ásamt Blindravinafélagi Íslands.

Um efnisatriði þessa frv. er það helst að segja að lagt er til að sett verði á laggirnar stofnun á vegum ríkisins er nefnist Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra. Engin slík stofnun hefur verið fyrir hendi hér á landi til þessa. Þeir sem njóta mundu þessarar þjónustu yrðu fyrst og fremst þeir sem ekki geta við dagleg störf notað venjuleg gleraugu sökum sjóndepru.

Þetta frv. skýrir sig sjálft og því fylgir ítarleg greinargerð og sömuleiðis fskj. yfir kostnað sem leiða mun af frv. ef að lögum verður. Gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. janúar 1985.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.