11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4635 í B-deild Alþingistíðinda. (4039)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hliðra til í umr. í hv. Nd. svo að taka mætti fyrir mál utan dagskrár og hæstv. forsrh. fyrir að samþykkja að svara fsp. sem ég hyggst beina til hans.

Tilefnið er fyrirsögn í málgagni Framsfl. í dag á forsíðu. Þar stendur: „Gengisfelling ef ekki tekst að fylla gatið? Ríkisstj. fjallar enn um fjárlagadæmið.“ Þar er haft eftir hæstv. forsrh. að ef ekki tekst samkomulag um ráðstafanir í ríkisfjármálum verði að fella gengið umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir.

Með þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. verða þáttaskil í yfirlýsingagleði ráðherranna núna undanfarnar vikur varðandi vandamálin í ríkisfjármálum.

Í fyrsta lagi er bersýnilega á dagskrá ríkisstj. að fella gengið umfram það sem gert var ráð fyrir þegar gengið var frá kjarasamningunum 21. febr., en þá var miðað við að gengi ísl. krónunnar yrði á þessu ári fellt um 5%.

Í öðru lagi er ljóst af þessari yfirlýsingu að verði hún framkvæmd þýðir það beina kjaraskerðingu umfram það sem ella er augljóst, þar sem verðbætur á laun eru bannaðar með lögum. Þar með færi Ísland niður fyrir öll Evrópulönd í launum og leita yrði samjafnaðar í öðrum heimsátfum til þess að finna samjöfnuð eins og iðnrh. hefur bent á, en hann kallar Ísland núorðið „Singapore norðursins“ til þess að storka verkalýðshreyfingunni og hæðast að henni.

Í þriðja lagi er greinilegt að forsrh. hæstv. ætlar að kenna hæstv. fjmrh. um gengisfellinguna ef af henni verður. Þetta er gamla framsóknaraðferðin. Í stjórnarsamstarfi reynir Framsfl. alltaf að klína yfirsjónum og vandamálum á aðra þegar fer að losna um samstarfið, eins og bersýnilega á sér stað um þessar mundir þar sem hver höndin er uppi á móti annarri í ríkisstj. Framsókn er að búa sig undir kosningabaráttuna með þessum hætti og ætlar að kenna íhaldinu um það sem illa fer þegar kemur að næstu kosningum.

Í fjórða lagi kemur fram í þessari yfirlýsingu forsrh. dæmafátt virðingarleysi fyrir starfi ráðh., sérstaklega forsrh., sem ætti að vera síðastur manna til að gefa yfirlýsingar um gengisfellingar. Með yfirlýsingu er hann að gefa heildsölum og öðrum innflutningsaðilum aðvörun svo að þeir geti farið að hamstra til að raka saman fé þegar að gengislækkuninni kemur. Þannig birtist sérstök tillitssemi forsrh. við heildsalana í landinu með þessum h.ætti, og er ekki einleikið hvernig hann tekur að sér í hverju málinu á fætur öðru að þjóna undir Verslunarráðið og hagsmuni þess.

Í fimmta lagi birtist í þessari yfirlýsingu forsrh. upprifjun á einum helsta efnahagsvandanum í tíð fráfarandi ríkisstj., sem var lausmælgi formanns Framsfl. Aftur og aftur gaf hann yfirlýsingar um að gengið hlyti að falla, síga eða hrynja á næstunni og í tengslum við fiskverðsákvarðanir voru jafnvel hafðar eftir honum tölur opinberlega. Þannig voru yfirlýsingar formanns Framsfl. iðulega efnahagslegt vandamál út af fyrir sig, og væri fróðlegt að láta Þjóðhagsstofnun reikna út hvaða áhrif yfirlýsingar hans höfðu á verðbólguhraðann í tíð síðustu ríkisstj.

Yfirlýsing hæstv. forsrh. nú er fram komin eftir mikla yfirlýsingagleði ráðherranna í fjölmiðlum að undanförnu. Þær hófust þegar „gatið“ mikla var afhjúpað við hátíðlega athöfn hér á Alþingi fyrir nokkrum vikum. Síðustu dagana hafa ráðherrarnir síðan rifist hver við annan í stjórnarblöðunum.

Í Tímanum í dag segir hæstv. forsrh. frá ástandinu á stjórnarheimilinu með þessum hætti, með leyfi hæstv. forseta:

„Steingrímur sagði kannske einhverja samstöðu hafa náðst um helming vandans, en hitt vanti enn þá. M. a. gat hann þess að tillögur væru komnar fram um í kringum 200 millj. kr. sértekjur í heilbrigðis- og tryggingakerfinu, þannig að á því sviði hafi töluvert náðst.“ M. ö. o. er kannske einhver samstaða um helming vandans, ef grannt er skoðað, að mati hæstv. forsrh. eftir linnulausa fundi núna undanfarnar vikur — og samstaðan er um hvað? Jú, um að skera niður eða hækka þjónustugjöld í heitbrigðiskerfinu um 200 millj. Það er afraksturinn af þeim tíðu fundahöldum sem hafa átt sér stað innan stjórnarflokkanna og milli stjórnarflokkanna að undanförnu að mati hæstv. forsrh. skv. málgagni hans, Tímanum, í dag.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur hins vegar önnur ráð á takteinunum í þeim vanda sem nú er um að ræða. Hann segir í Morgunblaðinu í dag, með leyfi hæstv. forseta, m. a.:

Ríkisstj. hefur það verkefni að leysa þetta mál og hún kemst ekki undan því að gera það fyrir þá sök að ella stefnir hér í stórauknar erlendar lántökur.“

Hins vegar segir hv. þm. í sama blaði: „Tekjuöflun með einum eða öðrum hætti hlýtur ásamt öðru að verða þáttur í lausn málsins.“

Og þegar hann er spurður af blaðamanni Morgunblaðsins hvort þetta þýði að Sjálfstfl. sé horfinn frá þeim yfirlýsingum að ekki komi til greina að leggja á nýja skatta — þar með viðurkennir Morgunblaðið auðvitað að fyrir síðustu kosningar var því aftur og aftur lofað af íhaldinu að ekki kæmi til greina að leggja á nýja skatta — þá svarar hv. þm. með þessum orðum:

„Sjálfstfl. ber fyrst og fremst ábyrgð á því að stjórn á fjármálum ríkisins sé traust og örugg og að hallarekstur leiði ekki til aukinnar verðbólgu.“

Það er m. ö, o. bersýnilegt að formaður Sjálfstfl. er kominn að þeirri niðurstöðu varðandi ríkisfjármálavandann að það verði að leggja á nýja skatta til að leysa vandann. Þar með er Sjálfstfl. horfinn frá stærstu kosningayfirlýsingum sínum frá því fyrir síðustu kosningar og hæstv. fjmrh., sem aftur og aftur hefur undanfarnar vikur og mánuði lýst því yfir að ekki kæmi til greina að hækka skatta, virðist nú verða að láta undan ef að líkum lætur og fallast á skattahækkanir sem komnar eru um sameiginlegar tillögur frá hv. þm. Þorsteini Pálssyni og frá hæstv. forsrh.

Það er athyglisvert hvernig stjórnarliðar, skv. Morgunblaðinu í dag, lýsa ástandinu í þessum efnum þar sem þessi orð eru höfð:

Þm. stjórnarliða, sem blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við í gær, lýstu sig margir uppgefna á að fylgjast með gangi málsins og höfðu menn títt á vörum sér orðin „þæfingur“ og „þvæla“.

Um leið og hæstv. ráðh. lýsa því yfir í öðru orðinu að ekki komi til greina að taka erlend lán er því lýst yfir af sömu aðilum í blöðum að nú sé lausnin fólgin í því að taka erlend lán. Þannig er það haft eftir þm. Þorsteini Pálssyni í Dagblaðinu í dag, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít að ríkisstj. verði að leysa úr þessum vanda í öllum meginatriðum, annað væri uppgjöf. Í fyrsta lagi með sparnaði, í öðru lagi með nýjum tekjum, í þriðja lagi með því að taka auknar greiðslur fyrir opinbera þjónustu og í fjórða lagi með takmörkuðum erlendum lántökum.“

Þannig eru ekki aðeins yfirlýsingarnar um að ekki verði lagðir á skattar fallnar, heldur liggur einnig fyrir að ríkisstj. hugsar sér að reka ríkissjóð frá degi til dags, þ. e. borga laun og önnur rekstrargjöld hjá ríkinu, með erlendum fjármunum. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem það hefur gerst að ríkissjóður væri þannig rekinn með erlendum lántökum og er það ekki síst athyglisvert þegar um er að ræða þá ríkisstj. sem aftur og aftur hefur lýst því yfir að hún hafi verið mynduð til að draga úr ofurþungri byrði af erlendum lántökum hér á landi.

Ein athyglisverðasta yfirlýsingin frá ráðherrum og talsmönnum stjórnarflokkanna er svo í Morgunblaðinu í dag frá hæstv. forsrh., sem af öllum mönnum tekur sér fyrir hendur að gagnrýna ráðh. fyrir blaður út á við. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

Forsrh. var spurður“, segir í Morgunblaðinu, „hvort hann reiknaði með niðurstöðu málsins á ríkisstjórnarfundi á morgun, fimmtudag. Hann svaraði: „Ég held að hún hefði átt að vera komin fyrir löngu eða áður en farið var að tala um þetta opinberlega, en ég skal ekkert segja um það.““

Mun þetta vera í fyrsta sinn sem hæstv. forsrh. setur sérstaklega ofan í við samstarfsmenn sína fyrir málgleði og má segja að batnandi manni sé best að lifa því að sama daginn lýsti þessi sami ráðh. því yfir að gengisfelling væri ein af þeim leiðum sem ríkisstj. væri að fjalla um um þessar mundir.

Í framhaldi af þessu og í tilefni af þeim umræðum sem fram hafa farið að undanförnu leyfi ég mér að bera fyrir forsrh. eftirfarandi spurningar:

1. Er það rétt, sem haft er eftir forsrh. í Tímanum í dag, að gengislækkun verði beitt til að leysa efnahagsvandann, sem stafar af óstjórn í ríkisfjármálum, og þá er átt við gengislækkun umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir, þ. e. um 5%?

2. Stendur það til hjá honum og ríkisstj. að beita sér fyrir því að gengislækkuninni um 5% verði flýtt frá því sem gert hafði verið ráð fyrir?

Hugsanlegt er að sjálfsögðu að dagblaðið Tíminn hafi eitthvað rangt eftir forsrh. og þá finnst mér sjálfsagt að gefa honum kost á því á hv. Alþingi að leiðrétta sig í jafnalvarlegu máli.

Ég hef lokið máli mínu og vænti þess að hæstv. forsrh. sjái sér kleift að svara þeim spurningum sem ég hef fram borið.