11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4638 í B-deild Alþingistíðinda. (4040)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Satt að segja hef ég ýmislegt við fsp. hv. þm. að athuga. Ég tel framsetninguna ákaflega óviðeigandi, allt fært úr samhengi, rangsnúið og satt að segja mjög ódrengilega fram sett. Ég verð að segja að mér þykir leitt að hv. þm. skuli falla í þá gryfju aftur og aftur. Ég tel að fsp. utan dagskrár verði að vera málefnalegar og nákvæmar.

Ég segi aldrei í umræddri grein að gengisfellingu verði beitt til að leysa vandann, það kemur hvergi fram í greininni. Fyrirsögninni tek ég að sjálfsögðu enga ábyrgð á, hún er ekki frá mér. Hún er reyndar sett upp á blaðinu með spurningarmerki.

Í stuttu viðtali lýsi ég þeim áhrifum sem of mikil aukning á peningamagni í umferð muni hafa og viðurkennt er af öllum hagfræðingum. Það er viðurkennt af öllum hagfræðingum að of mikil aukning peningamagns í umferð leiði til þess að viðskiptahalli eykst, leiði til þess að erlendar skuldir aukist og eykur þrýsting á gengi sem, ef ekki er á móti spyrnt, leiðir til þess að það lætur venjulega að lokum undan. Þetta eru viðurkenndar hagfræðilegar staðreyndir.

Ég vil hins vegar fullvissa hv. fyrirspyrjanda um að ríkisstj. mun standa við það markmið að verðbólga í lok ársins verði u. þ. b. 10%. Til að ná því markmiði mun ríkisstj. standa við það, sem hún hefur lýst yfir, að gengisbreytingar að óbreyttum ytri aðstæðum, sem ekki er séð fyrir nú að stofni slíku í hættu, verði ekki umfram plús eða mínus 5%. Til að koma í veg fyrir þá þenslu sem er hættuleg í hvaða efnahagskerfi sem er er ríkisstj. nú að gera ráðstafanir til að draga úr halla ríkissjóðs og mun í samráði við bankana gera ráðstafanir til að draga úr þenslunni í peningamálum.

Ég vísa á bug öllum fullyrðingum og brigslyrðum hv. þm. um ósamkomulag í ríkisstj. Um slíkt er ekki að ræða. Ráðh. og stuðningsmenn ríkisstj. vinna af fullri einlægni að því að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið og þeim mun verða náð.