11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4646 í B-deild Alþingistíðinda. (4045)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Fyrst örfá tímabær orð um pólitíska landafræði.

Menn tóku eftir því að hæstv. iðnrh. brást hinn versti við þegar hv. 3. þm. Reykv. bar honum á brýn að hafa sagt í Finnlandi að Ísland væri orðið „Singapore norðursins“. Finnsk lygi, sagði hæstv. iðnrh. Það er meira en það. Þetta er bæði finnsk lygi og haugalygi því að Singapore er alls ekkert eymdarríki á suðurhveli. Það sem gerst hefur á Íslandi að undanförnu er að Ísland er orðið að Sikiley norðurhjarans skv. nýjustu tölum um launakjör almennings, en um Singapore er það að segja að það er orðið Svíþjóð suðurhjarans. Þetta verða menn að gera sér ljóst.

Í Singapore gerðist það fyrir 1–2 árum að tekin var ríkisstjórnarákvörðun um að hækka laun um 20% á ári að raungildi í tvö ár. Hvers vegna? Jú, það var vegna þess að Singaporemenn tóku ákvörðun um að Singapore skyldi ekki verða frambúðarláglaunasvæði, dæmt til eymdarkjara vanþróaðra ríkja. Þeir tóku um það ákvörðun að ryðja sér braut í hátækniiðnaði og þar skyldi ekkert fyrirtæki þrífast sem ekki gæti staðið við háar kröfur um laun og batnandi laun í krafti mikils hagvaxtar og örrar tækniþróunar. Singapore er því eitt best stjórnaða ríki heims, eins og t. d. hópur manna úr röðum íslenskra iðnrekenda má ekki nógsamlega oft endurtaka sem fór í kynnisferð um Japan, Taivan og Singapore. Ég endurtek: Singapore, er eitt best stjórnaða ríki heims, þar sem hagvöxtur er ör, hagstjórn mjög skynsamleg og lífskjör ört batnandi, og er nú mikill munur á hversu betur er stjórnað í því landi en landi hæstv. iðnrh. vegna þess að þar hafa hlutirnir snúist svo gjörsamlega við að Ístand er orðið að Suður-Ítalíu, Sikiley, norðurhjarans og hefur tekið sæti Ítala sem botnfallið í samanburðartöflu lífskjara innan OECD. En látum það nú vera.

Tilefni þessarar umræðu er auðvitað að reyna að fá fram í allri vinsemd svör við því hvort eitthvað sé hæft í fregnum fjölmiðla um yfirvofandi nýjar skattahækkanir og yfirvofandi stórfelldar nýjar erlendar lántökur. Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist vel að fá þær upplýsingar.

Það segir í einu dagblaðanna í dag, með leyfi forseta: „Þeir Albert Guðmundsson fjmrh. og Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstfl. eru sammála um að fjárlagagatinu verði lokað með erlendum lánum. Þorsteinn leggur þó áherslu á að það geti ekki orðið uppistaðan í úrlausninni og enn fremur að einhverjar nýjar álögur séu óhjákvæmilegar“.

Spurningin er: Er þetta rétt eða er þetta ekki rétt? Á að loka fjárlagagatinu með nýjum erlendum lántökum? Á að gera það með nýjum álögum, nýjum sköttum? Um þetta er spurt.

Í Morgunblaðinu í dag er formaður Sjálfstfl. sömuleiðis spurður hvort Sjálfstfl. væri horfinn frá þeim yfirlýsingum að ekki komi til greina að leggja á nýja skatta. Svarið er véfréttarlegt, en hljóðar svo:

„Sjálfstfl. ber fyrst og fremst ábyrgð á því að stjórn á fjármálum ríkisins sé traust og örugg og að hallarekstur leiði ekki til aukinnar verðbólgu“.

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það þýðir að það stendur fyrir dyrum að hækka skatta. Tilgangurinn með þessari umr. var auðvitað fyrst og fremst að fá það staðfest. Er þetta rétt? Ég fæ ekki betur séð en að niðurstaðan sé sú, þrátt fyrir allt, að með eftirgangsmunum er því játað. Það á að leggja á nýja skatta. Í öðru lagi: Það á að leita eftir nýjum erlendum lánum. Og í þriðja lagi kemur fram að enn á að fara þá leið að taka gjald í auknum mæli fyrir veitta opinbera þjónustu. Það er ekkert nýtt. Það hefur verið í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar. En það sem hefur á skort er að stjórnin hefur ekki náð samkomulagi um neitt af þessu og ekki staðið við gefin fyrirheit. Þess vegna verð ég, virðulegi forseti, að láta í ljós undrun mína á því að hæstv. forsrh. skuli í fyrsta lagi bera mönnum á brýn ódrengskap fyrir að hreyfa þessum spurningum hér á hv. Alþingi og í annan stað svara digurbarkalega á þá leið að það sé mesti misskilningur að innan ríkisstj. sé ágreiningur. Hvað á að þýða að reyna að telja mönnum trú um þetta? Hér sitja inni 59 menn sem allir vita betur.

Auðvitað er ágreiningur í ríkisstj. Hvað þýðir að vera að neita því? Hvers vegna hafa ákvarðanir dregist vikum og mánuðum saman? Það er vegna þess að það er ágreiningur. Og um hvað er ágreiningurinn? Það er m. a. ágreiningur um að einstakir fagráðh. í þessari ríkisstj. þverneita að leggja fram þær sparnaðartillögur eða þær tillögur um niðurskurð og samdrátt í opinberri þjónustu sem er stefna þessarar ríkisstj. og forsenda fyrir því að eitthvert vit verði í fjármálastjórn ríkisstj. Því er margyfirlýst að hæstv. forsrh. hefur kvartað undan því að vald fagráðh., sjálfdæmi þeirra, hvers í sínu konungsríki sé allt of mikið til þess að hægt sé af hálfu ríkisstj. að fylgja fram samræmdri stefnu. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. heilbr.- og trmrh. er margsinnis búinn að lýsa því yfir að þeir megi spara hvar sem er annars staðar en í sínu ráðuneyti. Ekki með flötum niðurskurði, eins og hann segir.

Hvað er þá um þetta að segja? Það er ósköp einfalt. Fyrir nokkrum mánuðum kom hér til valda ný ríkisstj. Hún boðaði nýja stefnu. Hún sagði: Nú verða á algjör umskipti. Nú verður ekki lengur neinn framsóknarskottís í ríkisfjármálum. Nú verður ekki lengur nein sjálfvirk óðaverðbólga samkv. sjálfvirkri loforðaóskhyggjustefnu Alþb. Hér verða á algjör umskipti. Við ætlum að kveða verðbólguna niður. Og hvernig ætlum við að gera það? Við ættum að gera það með því í fyrsta lagi að afnema vísitölukerfi launa sem part af sjálfvirku verðhækkanakerfi. Í öðru lagi ætlum við að koma í veg fyrir vaxandi viðskiptahalla og erlendar lántökur. Hvernig ætlum við að gera það? Það hljótum við að gera með því að stöðva sjálfvirkni í erlendum lántökum ekki síst til hins opinbera geira. Og koma í veg fyrir að nýju erlendu lánsfé verði veitt út í gegnum ríkisforsjárkerfið í framkvæmdir og fjárfestingar sem ekki eru arðbærar. Og í þriðja lagi: Við ætlum með því að minnka ríkisgeirann, með því að skera niður ríkisútgjöldin, að skapa forsendur fyrir því að við getum fylgt fram stefnu okkar um að lækka skatta.

Það er eitt grundvallarstefnuatriði núv. ríkisstj. að hlutur ríkis og ríkisstofnana af þjóðartekjum á að fara minnkandi. Ef því er ekki fylgt eftir með niðurskurði situr skattapólitíkin gamla eftir. Og hvað er það sem raunverulega hefur hér gerst? Það sem hér hefur verið að gerast á undanförnum vikum er að ríkisstj. sem lagði upp með fyrirheit um róttæka stefnubreytingu er nú að reka sig hvarvetna á vegg. Hún er að reka sig á það í ríkisfjármálum, í skattapólitík sinni, í lánapólitík sinni, að hún hefur sjálf svikist um að gera það, sem var grundvallaratriði þessarar stefnu, að taka upp skurðarhnífinn og skera niður ríkisútgjöld, minnka hlut ríkisgeirans, lækka hlut hinnar opinberu skattheimtu, draga úr erlendum lánum, gera strangari arðsemiskröfur og búa þannig smám saman í haginn fyrir nýtt vaxtarskeið í íslensku atvinnulífi. Þetta var hin róttæka yfirlýsing í upphafi. Það sem við erum að horfa núna upp á er að það er aftur að sækja í sama farið. Þetta er að verða gamli framsóknarskottísinn. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann að því hvort hann eigi langt mál eftir eða hvort hann vilji fresta máli sínu til kl. 18.00 þegar fundir byrja aftur að loknum þingflokksfundum.) Virðulegi forseti. Ég sé enga ástæðu til að hafa þessa ræðu miklu lengri, þó að hún gæti verið það eftir efnum og ástæðum. Ég skal ljúka ræðu minni með örfáum orðum.

Það sem þessi ríkisstj. stendur frammi fyrir er einföld spurning: Ætlar hún þrátt fyrir allar stóru yfirlýsingarnar að verða sams konar ríkisstjórn og þessar sorglegu og dæmalausu ríkisstjórnir framsóknar og Alþb. á undanförnum árum? Ætlar hún að fara uppgjafarleiðina? Ætlar hún að hrekjast yfir í að slá vandamálunum á frest, að leysa vanda sinn núna í ríkisfjármálunum með nýjum erlendum lántökum, sem engin réttlæting er fyrir og er yfirlýsing um gjaldþrot þessarar stefnu? Ætlar hún að fara þá leið enn að leysa vandann í ríkisfjármálum, sem ráðh. treysta sér ekki til að leysa, með því að varpa honum yfir á herðar skattgreiðenda rétt einu sinni enn og sitja uppi með að úrræði þeirra sé sami grautur í sömu skál?

Ég vek athygli á því að stærsti þátturinn í niðurskurðarleiðinni, ef hún verður farin, er sá auðvitað að skera niður meðlagsgreiðslurnar til atvinnulífsins og fyrirtækjanna í landinu. Þær upphæðir nema milljörðum kr. innan ríkisfjármálageirans. Þá geta menn rétt spurt sig hvort þeir sjálfstæðismenn í ríkisstj. undir forustu hv. 1. þm. Suðurl. séu líklegir til að ná samkomulagi um það við sameinaða framsóknarforustuna að byrja nú á að skera niður þarflausar himinhrópandi útflutningsbætur, kolvitlausar niðurgreiðslur og önnur slík gæluverkefni hins háopinbera kerfis sem nemur eins og ég segi milljörðum kr. Ef þeir ekki koma sér að þessu verki er stefnan sprungin.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að votta þm. Þorsteini Pálssyni samúð mína fyrir að sitja upp í hvílíkri framsóknarríkisstjórn. Vegna þess að ég veit fyrir fram að hann nær engum árangri hér eftir í þessari ríkisstj. — [Fundarhlé.]