11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4648 í B-deild Alþingistíðinda. (4046)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Frú forseti. Þeir hv. þm. Reykv. hafa rætt þetta viðfangsefni, sem hér er til umr. utan dagskrár, með allsérkennilegum hætti.

Hv. 5. þm. Reykv. hélt því fram hér að staða þessa máls sýndi að ríkisstj. og þá sérstaklega Sjálfstfl. hefði gefist upp við það verkefni að beita aðhaldi í stjórn ríkisfjármála og draga úr útgjöldum ríkisins, draga úr hlutdeild ríkisútgjalda í hlutfalli af þjóðartekjum. Það voru hans orð að í þessu hefði ríkisstj. og þá sérstaklega Sjálfstfl. mistekist. Það gegnir furðu að þessi hv. þm., sem hefur tekið allmikinn þátt í störfum þingsins og í umr. um þau efni sem hér eru til umr., skuli bera fram fullyrðingar af þessu tagi í þessari umr.

Árið 1983 námu útgjöld ríkisins 30.6% af framleiðslu þjóðarinnar. Fjárlög voru samþykkt með útgjaldaákvörðunum sem námu 28.7% af útgjöldum þjóðarinnar. Við undirbúning og afgreiðslu fjárlaga var tekist á við það verkefni að skera niður útgjöld ríkisins, almenn rekstrarútgjöld og launaútgjöld, með þeim árangri að ríkisútgjöld lækka úr 30.6% niður í 28.7%. Svo kemur hv. þm. og heldur því fram að í þessu efni hafi mönnum algjörlega mistekist. Ef við hefðum þjóðartekjur á þessu ári sem væru sambærilegar við þjóðartekjurnar 1982 og verðum 28.7% þeirra til ríkisútgjalda hefðum við 1520 millj. kr. meira úr að spila á þessu ári. Ef þjóðartekjurnar væru óbreyttar frá árinu 1982 og hlutfall ríkisútgjalda það sama hefðum við þetta miklu meiri tekjum úr að spila á árinu. Það er kannske fyrst og fremst þetta sem kristallar þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Þrátt fyrir lækkun þjóðartekna hefur tekist að lækka hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu. Og við höfum kappkostað þrátt fyrir þessar aðstæður að viðhalda því velferðarþjóðfélagi sem við höfum hér uppbyggt og það eru þessar aðstæður sem við stöndum frammi fyrir.

Hv. 5. þm. Reykv. taldi það einnig til ámælis að hér væru menn að ræða um lausn á þessum vanda með því að skera niður að einhverju leyti útgjöld ríkisins til viðbótar því sem áður hefur verið skorið niður, að auka tekjur ríkisins að einhverju marki og að einhverju leyti að taka ný erlend lán. Þetta þótti hv. þm. hin mesta firra. Það er athyglisvert að bera þessi ummæli saman við ræðu formanns Alþfl., hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, sem hann flutti á hinu háa Alþingi þegar fjmrh. hæstv. gerði Alþingi grein fyrir þeirri stöðu sem nú er komin upp í ríkisfjármálunum. Þá benti formaður Alþfl. á það í ræðu sinni að þennan vanda yrði að leysa með þessum þremur aðferðum. Svo kemur hv. 5. þm. Reykv., einn af aðaltalsmönnum Alþfl. í efnahagsmálum, og telur það firru og fjarstæðu eina sem hér er verið að fjalla um og formaður Alþfl. taldi eðlilegt að við legðum til grundvallar við lausn málsins. Það er yfirleitt orðin venja að Alþfl.-þingmenn eru ekki sammála, nánast í hverju máli sem hér er til umr., og þeir skipta um skoðun í hinum stærri málum frá einu þingi til annars eins og vindurinn. Það þekkir hv. 5. þm. Reykv. vel og ummæli hans í þessari umr. lýsa einkar vel ástandinu innan Alþfl.

Enn merkari og athyglisverðari var ræða hv. 3. þm. Reykv. Ég held að flestir geri sér grein fyrir að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum vanda í þessum efnum, að það er alvarlegt ástand þegar svo mikill halli er á rekstri ríkissjóðs. Og ég held að flestir geri sér grein fyrir að miðað við það mikla fall í þjóðartekjum sem við höfum þurft að horfast í augu við á undangengnum árum er það verulegum erfiðleikum háð að halda áfram óbreyttu útgjaldastigi ríkisútgjalda án þess að mæta erfiðleikum af þessu tagi. Maður skyldi ætla að hv. þm., sem nokkur undangengin ár hefur gegnt embætti ráðh., gæti rætt um þessi alvarlegu mál af fullkominni ábyrgð og raunsæi, en það var öðru nær. Hann var á móti því að láta reka á reiðanum. Hann vakti á því athygli réttilega að það mundi leiða til meiri þenslu í hagkerfinu og kjaraskerðingar fyrir launafólk. Það var kostur sem hann hafnaði með öllu. Ég get enn á ný tekið undir það með hv. þm. að það er leið sem við getum ekki sætt okkur við og munum ekki sætta okkur við. En hann var líka á móti því að skera niður ríkisútgjöld til að jafna tekjur og gjöld ríkisins. Það kom ekki til greina að mati hv. þm., formanns Alþb. Hann var líka algjörlega andvígur því að mæta þessum aðstæðum með nýrri tekjuöflun. Það var algjör fjarstæða af hans hálfu. Og að sjálfsögðu komu erlendar lántökur ekki til greina af hans hálfu. Hann er á móti því að láta reka á reiðanum. Hann er andvígur því að grípa til nokkurra þeirra úrræða sem kostur er á til þess að taka á þessu vandamáli. (Gripið fram í.) Þetta er málflutningur formanns Alþb. Mundi nokkur maður treysta þeim aðilum, sem tala um þetta alvarlega mál með þessum hætti, fyrir stjórn landsmála? Ég held að svarið sé augljóst og það sé nei.

Það er ekki tilviljun að þessi hv. þm. hefur nú mætt meiri niðurlægingu í eigin flokki og innan verkalýðshreyfingarinnar en aðrir forustumenn Alþb. Hann setti á stað mikla hreyfingu og hafði um hana forustu að fella kjarasamningana sem gerðir voru. Hann flutti miklar ræður, herhvöt til launafólksins í landinu að fella þessa kjarasamninga. Hann brýndi forustumenn verkalýðshreyfingarinnar að samþykkja ekki þá kjarasamninga sem Alþýðusambandið hafði staðið að. Hann hélt langar ræður um að það væri ekki rétt stöðumat sem forusta launþegahreyfingarinnar hefði komist að. Eigi að síður var það ákvörðun fólksins í landinu að hafa þessar upphrópanir að engu. Og nú er svo komið að allir helstu forustumenn Alþb. í verkalýðshreyfingunni hafa samþykkt vítur á þennan málflutning og þessi vinnubrögð hv. þm. Það er því ekki einungis hér á Alþingi sem hann er ber að því að sýna ábyrgðarleysi í málflutningi, vera á móti öllum tillögum sem geta leyst þann vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Hann stendur einnig berskjaldaður að þessu leyti í eigin flokki.

Það er þetta val sem þjóðin stendur frammi fyrir, að þessu þjóðfélagi sé stjórnað út frá þessum sjónarmiðum. Það er ekki nein tilviljun að þjóðin hefur hafnað því. Þjóðin veit alveg hvað það kostaði að láta þessi sjónarmið ráða um of ferðinni við stjórn efnahagsmála. Það var engin tilviljun að verðbólgan fór í hæstu hæðir undir fjármálastjórn Alþb. Meðan Alþb. hafði stjórn ríkisfjármála lét það reka svo á reiðanum að það var útilokað að láta enda ná saman öðru vísi en með verðbólgu. Hagur ríkissjóðs byggðist á viðskiptahalla og óhóflegum innflutningi. Áföll þjóðarbúsins var það eina sem Alþb. gat gert út á þegar það hafði stjórn ríkisfjármálanna með höndum. Ég sé ekki betur en hv. 3. þm. Reykv. sé enn að bjóða upp á þann valkost, en því mun þjóðin að sjálfsögðu hafna.

Það var ein leið, að vísu, sem hv. þm. benti á. Það má auka skattheimtu á atvinnufyrirtækin. Nú er það atmennt viðurkennt að atvinnulíf landsmanna stendur ekki eins traustum fótum og við höfum kosið. Um langan tíma hefur verðmætasköpunin um of verið dregin út úr atvinnufyrirtækjunum, framleiðslufyrirtækjunum hringinn í kringum landið með rangri gengisskráningu og of háum sköttum. Ef við ættum að tryggja aukna framleiðslu í landinu, auka verðmætasköpun, er það höfuðverkefni við þær aðstæður sem við búum við í dag að leyfa verðmætasköpuninni í ríkari mæli en áður að sitja inn í fyrirtækjunum til áframhaldandi uppbyggingar, til þess að skapa ný atvinnutækifæri, til þess að treysta velmegunina í landinu og bæta lífskjörin. Það er eina leiðin til þess að við getum unnið okkur út úr vandamálunum að auka framleiðsluna. En þá er það eina tillaga hv. 3. þm. Reykv., formanns Alþb., að leggja aukna skatta á atvinnulífið, að reyna að leggja meira farg á atvinnustarfsemina og drepa hana í dróma með þeirri einu afleiðingu að auka hér hættuástand í atvinnumálum og stofna til atvinnuleysis. Það eru úrkostir Alþb. Það er rétt að þjóðin geri sér grein fyrir því hvaða valkostir eru hér fyrir hendi.