11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4665 í B-deild Alþingistíðinda. (4059)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það færist mjög í vöxt á seinni árum að flutt séu hér frv. um að selja bújarðir sem eru í eigu ríkisins, þjóðareign. Ég held að það orki mjög tvímælis hversu langt hefur verið gengið í þeim efnum og oft hafi verið seilst furðu langt til raka til að koma þessum jörðum í einkaeignarhald, vegna þess að ekki hefur verið séð að ríkiseign á jörðinni hafi hindrað á henni eðlilega ábúð.

Þetta var ekki aðalerindi mitt í ræðustól, heldur hitt að lýsa því yfir að ég tel að sá þingsiður, sem tíðkast hefur, að vísa málum af þessu tagi til landbn. sé með öllu óeðlilegur. Þess vegna styð ég fyrir mitt leyti till. hv. þm. Guðmundar Einarssonar um að málið fari til fjh.- og viðskn. en ekki til landbn., þegar það kemur til ákvörðunar Nd.