11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4666 í B-deild Alþingistíðinda. (4061)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Pálmi Jónsson:

Virðulegi forseti. Mér þótti vænt um að fá að heyra hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni með hvaða sniði hann hyggst flytja ræðu við 2. umr. um allt annað dagskrármál. Skulum við bíða eftir að ræða það þegar þar að kemur.

Ég get hins vegar fullyrt að það eru ákaflega lítil líkindi til þess að það velti á þingsæti fyrir mig eða hv. 1. flm. þessa frv., hv. 5. þm. Norðurl.v., hvernig fer um þetta mál og svo er um annað sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson gerði hér að umtalsefni.

Hitt er svo annað mál að hér hefur verið gerð athugasemd af þremur hv. þm. við það að frv. til l. um heimild til að selja ríkisjarðir sveitarfélögum eða einstaklingum skuli vísað til hv. landbn., svo sem jafnan hefur verið, og tillögur gerðar um að vísa slíkum málum til fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Ég er slíkri till. og ábendingu gersamlega ósammála. Það er ekki einungis fyrir það að hér er um gamalgróna þingvenju að ræða. Margar þingvenjur okkar eru vitaskuld góðar, svo sem þessi, en þó geta þær eins og annað þurft endurskoðunar við í tímans rás. Ég er andvígur þessu fyrst og fremst vegna þess að eðli sínu samkvæmt og samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands fer landbrn. með flestar ríkisjarðir, ekki að vísu þær sem heyra undir dóms- og kirkjumrn., þ. e. kirkjujarðir og prestssetursjarðir. Landbúnaðarlöggjöfin er mjög náin um meðferð á þessum eignum og eigendaskiptum og það er eðli máls samkvæmt að um þessi mál sé fjallað á vegum landbrn. og á vegum landbn. Alþingis.

Ég heyrði því skotið hér fram að það fengist varla svo skipað í landbn. á Alþingi að þar væri neytandi. Ég veit ekki betur en að ég sé neytandi í þessu þjóðfélagi. (Gripið fram í: Guðmundur er stórneytandi.) Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er kannske meiri neytandi en ég, a. m. k. á neftóbak, en ekki skal ég fara lengra út í þá sálma. En þetta eru auðvitað engin rök í svona máli, heldur fyrirsláttur.

Ég vil svo bæta því við að ég hef af því nokkurn kunnugleika að meðferð á jarðeignum ríkisins kostar oft og tíðum vafninga, starfslið og tíma og þar með fjármuni af hálfu ríkisins. Ef að svo væri, eins og sumir hv. alþm. hafa viljað leggja til, að flestar eða allar jarðir á landinu væru í ríkiseign þá er víst að það þyrfti að fjölga stórlega ríkisstarfsmönnum og mundi mjög vaxa kostnaður í Stjórnarráðinu við meðferð þessara mála. Þetta get ég fullyrt um. Að vísu var svo á þeirri tíð er ég kom í landbrn. að nauðsynlegt var að leggja í mikla vinnu vegna þess að skráning ábúðarsamninga og eftirgjald af jarðeignum ríkisins, sem heyrðu undir það rn., voru mjög á reiki og í rauninni í hinni mestu óreiðu. Það tók mjög mikinn tíma og mikla vinnu að koma skikki á þau mál, sem var gert. Eigi að síður er það svo, að það fylgir meðferð þessara mála oft mikil vinna og mundi verða stórum meiri ef ríkisjörðum fjölgaði. Ég tel þess vegna kost að þeim fækki og þeim er vel borgið í höndum sveitarfélaga og þeirra einstaklinga sem hafa sýnt að þeir eru dugmiklir bændur og forsjármenn fyrir sig og sitt heimili og þar með stólpar í sinni sveit.