11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4666 í B-deild Alþingistíðinda. (4062)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég ætla að bæta við í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi eru og verða jafnvel á næstu árum uppi umræður í landinu um grundvallaratriði eins og eignarhald á landi. Það eru þegar fyrir þinginu frv. sem fást við þau atriði. Það er mitt mat að það sé réttast að hinkra við með jarðasölur til að sjá hver niðurstaða verður í þeim málum ef umr. fæst um þau. Varðandi tæknilega meðferð þessa máls hygg ég að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Pálma Jónssyni að eðlilegt sé að landbrn. og landbn. höndli með ríkisjarðir hvað varðar búsetu og umsýslan og rekstur þeirra. En ég tel að þegar um er að ræða sölu sé verið að tala um breytingar á eignum þjóðarinnar, sem þingið fjallar um, og þá eigi að taka málið fyrir í fjh.- og viðskn. Alþingis. Það er staðföst trú mín.