11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4670 í B-deild Alþingistíðinda. (4068)

279. mál, heimilishjálp í viðlögum

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á lögum frá 25. janúar 1952 um heimilishjálp í viðlögum. Hér er um að ræða gömul lög eins og nafnið sumpart bendir til og er til marks um það eins og fleira hve sundurlaus okkar félagsmálalöggjöf er. Eins og kunnugt er styðst félagsleg aðstoð við einstaklinga í sveitarfélögum við framfærslulögin frá 1947 sem eru meingölluð og að mörgu leyti tæplega sæmandi nútíma þjóðfélagi. Í stað þess að breyta hins vegar þeim lögum í heild hefur verið farið út í það á síðustu árum að flytja sérlög um ýmsa málaflokka og hópa eins og málefni aldraðra og málefni fatlaðra og auk þess hafa verið gerðar ýmsar minni háttar breytingar í gegnum tíðina á lögunum um heimilishjálp í viðlögum. Ástæðan til þess, virðulegi forseti, að þetta frv. er hér flutt er sú að á undanförnum árum hafa sveitarfélög, a. m. k. flest, veitt fötluðum heimilisaðstoð skv. rúmri túlkun á lögunum um heimilishjálp í viðlögum. Sennilega hafa sveitarfélögin túlkað orðalagið „vegna sjúkdóma“, eins og það er í lögunum, þannig að það næði yfir fatlanir. Nú er það svo að fötlun flokkast ekki undir sjúkdóma og fatlaðir líta ekki á sig sem sjúklinga. Þess vegna taldi ég að nauðsynlegt væri að flytja þetta frv. um að bæta inn í upptalningu laganna þessu orði þannig að síðari hluti gr. orðist svo:

„Hlutverk heimilishjálparinnar er að veita hjálp á heimilum þegar sannað er með vottorði læknis eða ljósmóður eða á annan hátt, sem aðilar taka gilt, að hjálparinnar sé þörf um stundarsakir vegna sjúkdóma, fötlunar, barnsburðar, slysa, dauðsfalla eða af öðrum ástæðum.“

Í fyrsta lagi er sem sagt ástæðan sú að ég vildi að það væri ótvírætt í lögunum að fatlaðir ættu að njóta heimilishjálpar skv. þeim. Önnur ástæðan til þess að ég flutti þetta frv. er sú að upp á síðkastið hefur gætt tilhneigingar til að túlka nýsett lög um málefni fatlaðra á þá lund að þau tækju til og gerðu ráð fyrir heimilishjálp til þess hóps landsmanna sem kallast fatlaðir. Í þessu er stundum bent á 10. gr. laganna um fatlaða. Hún er túlkuð á þá lund að skv. henni eigi að greiða framfærslukostnað og/eða heimilishjálp. Þessi skilningur hefur að mati aðila verið rangur þar sem umrædd grein gerir eingöngu ráð fyrir peningagreiðslum til framfærenda sem vilja annast gæslu og umönnun barns í heimahúsi. Framfærendur taka því að sér þjónustu sem hugsanlega er ekki hægt að veita af hinu opinbera. Þessi skilningur kemur reyndar berlega fram í þeim drögum að reglugerð vegna laganna um málefni fatlaðra sem nú mun vera til umfjöllunar í félmrn.

Skv. 6. gr. laganna um málefni fatlaðra skal veita fötluðum þjónustu á almennum stofnunum. Fatlaðir einstaklingar í þjóðfélaginu eiga að sjálfsögðu allan sama rétt og við hin sem köllumst vera ófötluð. Það er því í grundvallaratriðum röng stefna að ýta almennum þjónustuþáttum út úr almennri löggjöf yfir í sérlöggjöf þótt hún sé fyrir hendi. Lög um málefni fatlaðra byggja líka á þeirri grundvallarhugsun að öll almenn þjónusta sé hinum fatlaða tiltæk. Lög um fatlaða eru því viðbót sem kemur ekki í staðinn fyrir almenn lög eða viðtekna hefð í framkvæmd.

Í lögum um heimilishjálp, þ. e. skv. breytingum á þeim lögum frá 10. apríl 1974, er gert ráð fyrir því að heimilishjálp nái einnig til aldraðra. Skv. lögum um aldraða er þessi þjónustuþáttur tekinn þar inn og því þarflaus í lögum um heimilishjálp í viðlögum. Hins vegar er gert ráð fyrir því í lögum um málefni aldraðra að um þessa aðstoð verði sett reglugerð. Ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. að því hvað líður setningu reglugerðar um heimilishjálp við aldraða skv. lögum um málefni aldraðra en þar sem hæstv. ráðh. er ekki hér nú verð ég að nota annað tækifæri til þess.

Ég vil að lokum undirstrika, virðulegi forseti, að með þessu frv. er einungis verið að árétta viðtekna starfsreglu og að leggja áherslu á það almenna sjónarmið að fatlaðir eigi sama rétt og allir aðrir til þjónustu síns sveitarfétags og að það sé óeðlilegt að skjóta sér á bak við lögin um málefni fatlaðra, sem eru sérlög, þegar kemur að þjónustu við fatlaða á vegum heimilishjálpar.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, leiðir þetta mál hugann að því hve brýn þörf er á því að okkar félagsmálalöggjöf verði endurskoðuð og samræmd. Fyrir mörgum árum, ég hygg að það hafi verið í tíð Magnúsar Magnússonar fyrrv. félmrh., hófst ákveðinn undirbúningur að því að endurskoða og samræma félagsmálalöggjöfina alla, löggjöf um félagslega þjónustu sveitarfélaganna og opinberra aðila. Þessari vinnu var haldið áfram í minni tíð í félmrn. Satt að segja skilaði sú vinna verulega myndarlegri úttekt á þessum málaflokki. En það kom í ljós að mínu mati að þegar niðurstöður lágu fyrir lágu jafnframt fyrir tillögur um allt of viðamikla löggjöf um þessi mál, tillögur sem gerðu ráð fyrir því að kveðið væri á um félagslega aðstoð í sveitarfélögunum í einstökum smáatriðum. Það var í rauninni gengið allt of langt í þeim efnum. Miklu nær er að setja um félagsmál almenna rammalöggjöf um réttindi þeirra sem félagslegrar þjónustu þurfa að njóta.

Grannþjóðir okkar hafa lent í miklum ógöngum í þessum efnum. Danir hafa sett mjög víðtæka félagsmálalöggjöf, sömuleiðis Svíar og Norðmenn, þar sem er um að ræða einhverja stærstu lagabálka sem þeirra lagasöfn hafa inni að halda. Þeir hafa lent í þeim vandræðum að reyna að taka á allt of mörgum smáum atriðum í þessum lögum sínum. Ég held að við eigum að setja hér upp almenna rammalöggjöf sem tryggir mönnum tiltekin grundvallarréttindi.

Af því að ég er kominn hér í ræðustólinn vil ég að allra síðustu víkja að því að nú stöndum við á Íslandi frammi fyrir alveg nýju félagslegu vandamáli sem aldrei hefur áður komist á dagskrá hér á landi. Það er það, að skv. lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð fá menn atvinnuleysisbætur í tiltekinn tíma, enda hafi þeir unnið ákveðinn tíma á næstu 12 mánuðum þar á undan. Þegar þessi tími er liðinn missa menn rétt til atvinnuleysisbóta og geta verið án atvinnuleysisbóta í 4, 5, 6 eða 7 mánuði. Nokkur dæmi um þetta munu nú t. d. vera á Akureyri. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem það kemur upp í stórum stíl að fólk fullnýtir sinn atvinnuleysisbótarétt. Þetta fólk sem fullnýtir sinn atvinnuleysisbótarétt og hefur lent í því í grannlöndum okkar getur snúið sér þá að sérstakri félagslegri löggjöf sem á að tryggja þessu fólki ekki lakari kjör en það hefur haft meðan það naut atvinnuleysisbótanna. Engin slík löggjöf er til hér á landi. Engin slík þjónusta er til hér á landi og félagsmálastofnanirnar, sem ættu kannske að annast þessi vandamál í hinum einstöku byggðarlögum, hafa enga fjármuni til að koma til móts við vanda þessa fólks. Ég held að þetta sé því miður verkefni sem við verðum að taka mjög alvarlega á, sérstaklega ef við förum að horfa framan í vaxandi atvinnuleysi á komandi árum. Ég tel reyndar ekki vansalaust að jafnríkt þjóðfélag og það íslenska skuli vera með jafnstórar gloppur í sína félagsmálalöggjöf og þetta atriði bendur til, að fólk, sem hefur tæmt sinn atvinnuleysisbótarétt, á hvergi höfði að að halla ef það er ekki sjúkt eða fatlað og getur með þeim hætti lent inni á almannatryggingalöggjöfinni. Hér er þess vegna um að ræða ákaflega alvarlegt vandamál sem er nauðsynlegt að verði fjallað sérstaklega um. Er að mínu mati ekki óeðlilegt að það sé nefnt í tengslum við þetta litla frv. um lagfæringar á þessum þætti félagsmálalöggjafar okkar.

Ég vona, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vel tekið af hv. Alþingi. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.