11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4678 í B-deild Alþingistíðinda. (4072)

304. mál, selveiðar

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að neita þrálátum orðrómi um að ég sem „funkerandi“ formaður fjh.- og viðskn. sé að reyna að fá þetta mál þangað. Ég uni fullkomlega þeirri ósk ráðh. að um þetta mál verði fjallað í sjútvn., enda er þetta mál sjútvrn.

Ég fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram. Málið hefur verið rætt á þinginu í vetur í fsp.-tíma, þar sem var spurst fyrir um hvað því liði.

Það er langt síðan fyrst var óskað eftir lagasetningu um selveiði. Það var gert með ályktun Náttúruverndarráðs frá sumrinu 1982. Hvatinn að þeirri ályktun og þeirri ósk voru umdeildar aðgerðir til örvunar selveiða.

Þetta mál hefur síðan komið til umræðu alltaf öðru hvoru, nú síðast eftir greinargerð sem Náttúruverndarráð sendi frá sér í jan. s. l. eins og hæstv. ráðh. vitnaði til. Ég ætla að lesa niðurlag grg. Náttúruverndarráðs. Þar segir, með leyfi forseta:

„Náttúruverndarráð vill ítreka þá skoðun sína að brýna nauðsyn beri til að sett verði hið fyrsta lög um selveiðar við Ísland er tryggi fullnægjandi stjórnun þessara veiða. Ráðið telur rétt í því sambandi að sjútvrn. hafi yfirumsjón mála er selveiði varðar. Þá er eðlilegt að Hafrannsóknastofnun annist rannsóknir á selum að öðru jöfnu, en fylgist að öðrum kosti náið með rannsóknum sem aðrir kunna að hafa með höndum. Hyggilegt væri að koma á fót sérstakri nefnd er væri til aðstoðar sjútvrn. um allt er varðar stjórnun og skipulag selveiða, en í slíkri nefnd ættu m. a. að sitja fulltrúar Náttúruverndarráðs, Hafrannsóknastofnunar og hagsmunaaðila. Ofangreint fyrirkomulag mundi stuðla að því að selveiðar yrðu undir ströngu eftirliti. Jafnframt tryggði það ítarlega umfjöllun um þessi mál, bæði frá fræðilegu sjónarmiði og frá sjónarmiði náttúruverndar, en á hvort tveggja hefur verulega skort frá því að hringormanefnd hóf afskipti sín af selveiðum.

Náttúruverndarráð vill að lokum taka fram að það er að sjálfsögðu ekki andvígt skynsamlegri nýtingu sela hér við land. Hins vegar vill ráðið enn vara við ótímabærum og hæpnum aðgerðum til fækkunar sela. Eins og fram hefur komið hér að framan er þörf miklu meiri rannsókna á fjölmörgum sviðum er snerta hringormavandamálið. Þegar haft er í huga hversu gífurlegir hagsmunir eru hér í húfi verður það og að teljast nauðsynlegt að veita miklu fjármagni til hnitmiðaðra rannsókna.“

Ég held að þarna komi fram ýmis mikilsverðustu atriði þessa máls. Í fyrsta lagi kemur þarna fram það álit Náttúruverndarráðs að eðlilegt sé að komið sé á fót sérstakri nefnd er væri sjútvrn. til aðstoðar um allt sem varðar stjórnun og skipulag selveiða. Þetta er einnig niðurstaða þeirrar nefndar sem hæstv. ráðh. vitnaði til áðan og hafði samningu þessa frv. með höndum. Það var niðurstaða þeirrar nefndar, sem kom fram í 3. gr. draga þeirrar nefndar að frv., að slík nefnd væri formlegur samráðsgrundvöllur fyrir hagsmunaaðila, þ. e. eins og þeir voru og eru tilgreindir, Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnun, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands.

Ég ætla að segja þá skoðun mína að ég held að rétt væri að athuga mjög vandlega í nefnd, eins og ráðh. vék að, hvort ástæða væri til að gera þá breytingu á þessu frv. að færa þessi samráð til formlegri háttar, eins og Náttúruverndarráð og nefndin sem samdi frv. hafði hug á.

Ég tek líka undir það sem hérna hefur áður komið fram, að full ástæða er til að fara um þessi mál mjúkum höndum. Í grg. Náttúruverndarráðs er lögð áhersla á að aðgerðir í þessum efnum skuli í fyrsta lagi byggjast á rannsóknum, þannig að menn hafi fyrir sér góðan vísindalegan grundvöll fyrir aðgerðunum, og í öðru lagi að um framkvæmd þessara mála verði að ríkja sæmileg sátt í þjóðfélaginu, ekki bara milli þeirra sem hv. þm. Garðar Sigurðsson kallar „hringormavina“ og hinna, heldur líka alls almennings, landeigenda og fjölda þess fólks sem þarna kemur við sögu.

Ég hef frétt úr Morgunblaðinu frá í vetur. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Á aukafundi sýslunefndar Vestur-Húnavatnssýslu, sem haldinn var 21. des., var gerð svohljóðandi ályktun varðandi seladráp:

Aukafundur sýslunefndar Vestur-Húnavatnssýslu, haldinn 21. 12. 1983, lýsir undrun sinni á þeirri aðferð sem er viðhöfð við að halda niðri selastofninum við landið, þar sem skotmenn eru verðlaunaðir fyrir seladráp. Það hefur m. a. leitt til þess að bændur hafa orðið fyrir mikilli ágengni skotmanna, jafnvel í friðlýstum varplöndum og sellátrum. Sýslunefndin bendir á að mun eðlilegra væri að styrkja þá sem áður stunduðu selveiðar og höfðu af því tekjur, þannig að þeir gætu áfram nýtt sér kópaveiði í ábataskyni, enda er sá veiðiskapur raunhæfasta og eðlilegasta leiðin til að halda selastofninum niðri.“

Síðar segir í fréttinni:

„Þessi samþykkt var samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum. Sýslunefndarmenn líta svo á að enn sé í gildi hið fornkveðna, að á skuli að ósi stemma. Það muni sem sagt vera heppilegra að vinna á ungviðinu eins og gert er t. d. um grenjavinnslu heldur en að skotmenn séu að þenja sig út og suður um allan sjó til þess að skjóta fullorðna seli.“

Þetta er eilítill vitnisburður um að framkvæmd þessara mála hefur ekki verið eins og best væri á kosið á undanförnum árum, að ég tel. Þar að auki hefur verið óeining meðal rannsóknamanna um þann grundvöll sem þessi selafækkunarstefna hvílir á.

Ég tel að það sé full ástæða til þess að taka undir það, sem segir í áliti Náttúruverndarráðs, að það þurfi að styrkja þessar rannsóknir. Það verður aldrei um þessi mál sæmileg sátt fyrr en menn eru vissir um að aðgerðirnar séu réttar, bæði hvað varðar samband hringorma og sela svo og framkvæmdina á sjálfri selafækkuninni. Ég held að þar verði að fara þannig með löndum að almenningi sé ekki misboðið í sambandi við umgengni við skepnuna.

Ég held, miðað við að orðið er áliðið kvölds, að ég láti vera að sinni að fara nánar út í þessi selafækkunarmál. Ég ætla að ítreka að ég fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram. Ég ætla líka að ítreka þá skoðun mína að ég tel að það eigi að fara vandlega í það í nefnd hvort ekki ætti að breyta 3. gr. til þess forms sem nefndin, sem frv. samdi, ætlaði sér. Síðan mæli ég með að þegar þetta frv. hefur tekið gildi, þegar það er orðið að lögum, sem ég vona að verði, verði selormanefnd, sem nú starfar, lögð niður.