11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4680 í B-deild Alþingistíðinda. (4073)

304. mál, selveiðar

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég kem hér aðallega upp til að gera nokkrar aths. við málflutning tveggja síðustu hv. þm. og þó einkum að upplýsa þá sem virðast ekki hafa kynnt sér málin til hlítar, um þær rannsóknir sem þegar hafa farið fram á þessu sviði. Til að byrja með þá langar mig til að segja hv. 4. landsk. þm. það, að það er alls ekki einhlítt að þetta eigi að falla undir sjútvrh., það er mikið síður en svo. Og það var reyndar með sérstöku samkomulagi við landbrn., ef ég man rétt, að þetta frv. var samið á vegum sjútvrh. Selveiðar hafa nefnilega verið og eru hlunnindi lögum samkvæmt og verða það eflaust áfram um sinn.

Þess vegna er einnig mjög skiljanleg ályktun sýslunefndar Vestur-Húnavatnssýslu sem ég reikna með að sé að miklu leyti skipuð mönnum sem væntanlega vilja hag hlunnindabænda sem mestan. En hitt er alveg ljóst, að hlunnindi af sel verða væntanlega mest þegar selastofnar eru í algjöru hámarki. Þá verður afrakstur af selalátrum mestur. Og það er því miður ekki ástand sem við getum búið við miklu lengur í þessu landi, þ. e. svo lengi sem við viljum lifa á fiskveiðum. Hitt er svo annað mál, að ef við viljum lifa á selveiðum, þá er gott að hafa selastofna sem allra stærsta, eins og sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu væntanlega vill, sem stærsta selastofna og mestan afrakstur.

Það eru til upplýsingar um það, og rannsóknir á fleiri hundruð selamögum sýna það, að það eru u. þ. b. 150 kynþroska selormar í maga, þ. e. stóri hringormur, Locanema decipiens heitir selormur á latínu, og mér finnst ástæðulaust að kalla hann annað en það. Hitt er svo annað mál, að það eru margir fleiri hringormar í íslenskum fiski, því miður, og hringormanefnd hefur alls ekki breytt um nafn eins og hv. þm. var að gefa í skyn hér áðan. Það eru 150 fullþroska selormar í hverjum landselsmaga að jafnaði en 600 kynþroska selormar í hverjum útsel.

Það liggur alveg ljóst fyrir með mörgum vísindalegum, erlendum gögnum — ekki innlendum, sem hin illa hringormanefnd hefur látið rannsaka. Hún hefur kostað ærnu fé til rannsókna, ekki aðeins á hinu líffræðilega samhengi, heldur einnig — til upplýsinga fyrir hv. 5. þm. Austurl. — varið milljónum króna til leitar að leiðum til þess að finna orm og fjarlægja úr fiskholdi. Og þar er enn verið að vinna mjög mikið og víðtækt verk. En því miður hefur engin leið fundist enn sem er mannsauganu þar betri. En þessu verður að sjálfsögðu haldið áfram.

Einnig hefur miklu fé verið varið til þess að kanna hvers konar nýtingarmöguleika. Selskinn hafa verið send til fjarlægra heimsálfa þar sem flytja má inn selafurðir, sem er nú að verða nokkuð sjaldgæft. Kjötneysla, selkjötsneysla er því miður ekki neins staðar þekkt svo að nokkru nemi nema meðal eskimóa og þeir fara að sjálfsögðu ekki að kaupa selkjöt héðan. Hinu megum við ekki gleyma að það eru nokkuð hundruð þúsund selir veiddir hér á norðurísnum árlega og nýting á selafurðum, hvað snertir kjöt, bein eða spik, kemur til ákaflega lítilla álita fyrir okkur hér. Skinn hafa verið send til Austurlanda. Eina nýting selafurða sem við höfum fundið í svokallaðri hringormanefnd er nýting á selkjöti til refafóðurs. Það hefur gengið vel og á s. l. ári voru líklega hátt á annað hundrað tonn nýtt í þessu skyni, til loðdýraeldis hérlendis. Þetta er eftirsótt til þeirra hluta.

Við strendur Kanada hafa rannsóknir leitt í ljós að það er samhengi milli fjölda og útbreiðslu sela og hringormasýkingar í fiski. Það hefur einnig komið í ljós þar að útselir dreifa aðallega selorminum. Þeir sem vilja afla sér upplýsinga um þetta geta það. Með leyfi forseta vil ég vitna hér í nokkrar greinar, sérstaklega í Scott sem skrifar í Journal of Fisheries Research Board of Canada, 8. bindi 10. árgangs. Það má nefna Platt sem skrifar í Journal of Ecology. Það mun vera hefti eða árgangur 12. Það má nefna Rae og Yong sem skrifa 1972 í Marine Research, 2. hefti. Og þá getum við nefnt hér Oritzland. Það er vitnað í Fiskets Gang, 11. árgangi, hefti 22. Rae og Yong gerðu ítarlega könnun á samhengi ormatíðni og selafjölda við bresku ströndina. Við Noregsstrendur hefur komið í ljós að þorskur sem heldur sig nálægt helstu útselabyggðum þar er 90% sýktur af selormi, en sýking á hafsvæðum lengra frá er 30%. Platt kannaði hafsvæðið hér í kringum Ísland og hann leiddi góðar líkur að því að meiri sýking þorsks af hringormum á Breiðafirði en út af Vestfjörðum stafaði af útselum á þessum slóðum.

Ég veit ekki hvað kallað er óeining meðal rannsóknamanna í þessu samhengi. Ég vil halda því fram að óeining rannsóknamanna, þeirra sem hafa rannsakað fyrirbrigðið, er engin. Um þetta eru allir sammála. Hins vegar eru ýmsir sem ekki taka þessar niðurstöður trúanlegar, ekki síst ef þeir hafa ekki lesið þær.

Það má lengi deila um það hvenær rannsóknir eru nægilegar. Það væri nógu fróðlegt að fá það upplýst hvað menn telja óyggjandi rök fyrir samhengi milli selafjölda og hringormasýkingar í fiski. Það væri nógu gaman að vita hvenær menn telja óyggjandi rök fyrir því, hvenær hringormasýking fer vaxandi. Við höfum bónusskýrslur úr frystihúsum og bónusskýrslur byggja á því hversu marga orma fólk tínir úr fiskflökum. Við höfum þær í allmörg ár, líklega um 15, 20 ár. Þær sýna svo ekki verður um villst að þarna er um verulega aukningu að ræða. Ef menn vilja heldur vísindalegar talningar höfum við hér Cutting og Burgess frá 1960 sem sýna að meðalfjöldi hringorma á Íslandsmiðum í þorski var 1.5 í þorski, sennilega þá einstaklingi. Frá Platt 1973 höfum við 4.8. Jónbjörn Pálsson líffræðingur gerði rannsóknir á þessu 1973. Hann fékk 7.1. Og Erlingur Hauksson gerði þessa rannsókn 1981. Hann fékk 9.6. Þetta eru vísindalegar rannsóknir, ef menn taka þær frekar trúanlegar en þær sem byggðar eru á bónusskýrslum frystihúsa.

Ég gæti sjálfsagt haldið hér áfram langt fram yfir miðnætti með þeim gögnum sem ég hef hér, en ég ætla ekki að gera það. Það er aðeins eitt sem hv. 5. þm. Austurl. vék að í upphafi síns máls, að ekkert samráð hefði verið haft við Hafrannsóknastofnun, engin samvinna af hálfu hringormanefndar. Það er ekki rétt. Ég hef þau bréfaviðskipti undir höndum, en þau eru þess eðlis, sérstaklega svarbréf Hafrannsóknastofnunar, að ég vil ekki lesa það úr þessum ræðustól. Annað er það að skipun hringormanefndar var á sínum tíma eingöngu framkvæmd vegna óskar frá hagsmunaaðilum um að sett yrði upp eitthvert sérstakt „apparat“ til þess að gera á þessu heildaryfirlit og stunda rannsóknir. Kostnaður hefur aldrei verið greiddur neinn úr ríkissjóði af störfum þessarar nefndar og að sjálfsögðu getur þessi nefnd haldið áfram að starfa þó að formaður hennar verði látinn víkja, sem reyndar hefur verið boðið fram þar sem formaður nefndarinnar er það eina sem hið opinbera hefur með þessi mál að gera.

Hafrannsóknastofnun á að stunda rannsóknir á þessu sviði, en hún hefur ekki gert það, vegna peningaskorts sjálfsagt. En það er enginn sem segir í neinum lögum að íslenskir ríkisborgarar megi ekki kosta og stunda rannsóknir á íslenskum náttúrufyrirbærum. Það hefur engin stofnun einkarétt á því að rannsaka íslensk náttúrufyrirbæri. Hvað halda menn að væri þá um Kvískerjabræður, Einar á Skammadalshól og þar fram eftir götunum ef bannað hefði verið að stunda rannsóknir af öðrum en opinberum stofnunum? Ef afrán sela af fiskstofnum er svo líka tekið með í reikninginn sést að þarna er um annað og líka ekki hverfandi hagsmunamál fyrir íslenskan sjávarútveg að ræða. Sá selafjöldi sem við Íslandsstrendur lifir er nokkuð vel upplýst nú að er milli 40 og 50 þúsund dýr. Þessar rannsóknir og talningar hafa farið fram nokkrum sinnum og borið nokkuð vel saman. Hvort þetta eru 40 þús. dýr eða 50 þús. dýr veit ég ekki nákvæmlega. Það er mjög auðvelt að reikna það út að til þess eins að draga fram lífið þurfa þessi 40–50 þús. dýr að éta yfir 100 þús. tonn af fiski á ári. Það er alveg ljóst og líffræðileg staðreynd. Þetta eru að vísu allar tegundir af fiski, þetta geta verið sandsíli, loðna, skeljar og hvað sem er, en rannsóknir á nokkuð hundruð selamögum sýna að algengasta fæðutegundin er smár þorskur. Þá geta menn reiknað það út að ef sá þorskur væri einhvers virði — þetta hafa verið u. þ. b. 30% þorskur, tveggja, þriggja ára, — ef sá þorskur vex upp geta menn líka reiknað hann úf til verðmætis ef menn vilja. En það er önnur saga. Að sjálfsögðu er það ekki meining mín að selum verði nokkurn tíma útrýmt við Ísland, en stanslausri, gegndarlausri fjölgun þeirra verðum við að sporna við.

Nú eru veiðar aftur farnar að nálgast það sem þær voru á árunum frá 1960 og fram undir 1980, þegar veidd voru frá 5 þús. og upp í 7 þús. dýr. Það var árleg veiði á hverju ári að segja. Á árinu 1981 var þessi tala komin niður fyrir 3 þúsund. Nú eru selaveiðar vegna örvunar með greiðslu veiðilaunanna komnar upp í 5 þús. dýr s. l. ár. Það heggur ekki skarð í selastofninn enn þá, en það stemmir kannske stigu við fjölgun hans.