12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4690 í B-deild Alþingistíðinda. (4092)

283. mál, greiðslukort

Flm. (Jón Magnússon):

Herra forseti. Á þskj. 542, 283. mál Alþingis, hef ég leyft mér að flytja þáltill. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að semja frv. til laga um greiðslukort og starfsemi greiðslukortafyrirtækja.“

Á undanförnum árum, þó sérstaklega á s. l. ári, varð notkun ákveðinnar tegundar greiðslukorta, svonefndra kreditkorta, æ algengari í viðskiptum. Segja má að undir lok ársins 1983 hafi orðið veruleg umskipti hvað notkun slíkra korta varðar. Notendum kortanna fjölgaði verulega og sölu- og þjónustuaðilum sem heimiluðu greiðslukortaviðskipti fjölgaði mjög mikið einnig. Nú eru starfandi tvö greiðslukortafyrirtæki í samvinnu við ákveðnar innlánsstofnanir, Eurocard og Visa Island.

Þetta greiðsluform hefur rutt sér til rúms víða í nágrannalöndum okkar á undanförnum árum og af viðbrögðum fólks hér má ráða að fjölmörgum finnst þetta hentugt greiðslufyrirkomutag og vafalaust á það eftir að verða mun algengara í viðskiptum hér eftir en hingað til. Til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning vil ég taka það fram að framangreindri þáltill. er á engan hátt stefnt gegn þessu greiðsluformi. Það er á margan hátt mjög heppilegt og getur sparað tíma og vinnuafl innlánsstofnana og greitt fyrir viðskiptum ef rétt er á málum haldið. Hins vegar er óeðlilegt að stjórnvöld skuli á engan hátt móta þá stefnu sem fylgja ber varðandi uppbyggingu og þróun þessa greiðslufyrirkomulags.

Þær tegundir greiðslukorta sem algengar eru í ýmsum nágrannalöndum okkar eru aðallega þrenns konar: Svokölluð kontokort eru þannig að notandinn getur keypt ákveðna eða ákveðnar vörur frá einum eða fleiri framleiðendum skv. sérstökum samningi. Svokölluð kreditkort, sem við þekkjum nokkuð vel í viðskiptum, draga úr þörf fyrir greiðslufé og kaup eru ekki takmörkuð við ákveðna upphæð. Venjulega fær þá notandinn greiðslufrest í einn til einn og hálfan mánuð. Þriðja tegundin sem notuð er í viðskiptum er svokölluð kaupkort, sem líkjast í öllum aðalatriðum ávísanareikningi nema þau eru í plastikkortaformi.

Öllum þessum þremur tegundum greiðslukorta er það sameiginlegt að þörf fyrir að bera á sér reiðufé minnkar og um er að ræða einfaldan og fyrir margan hentugan greiðslumáta. Greiðslukortin bjóða því upp á margvíslegt hagræði í viðskiptum. Ef svo væri ekki mundu notkun þeirra og vinsældir ekki vera jafnmiklar og raun hefur orðið á. En samfara notkun þeirra hljóta að koma upp ýmis úrlausnarefni sem vert er að gefa gaum og bregðast við áður en þau verða að vandamáli. Það þarf að skoða þetta greiðslukerfi með tilliti til þeirra afleiðinga sem það getur haft fyrir peninga- og lánakerfið í landinu, svo og hvaða viðskiptaleg og réttarfarsleg sjónarmið koma til athugunar við notkun þeirra. Hvað notanda greiðslukorts varðar bendi ég á að með venjulegri markaðsstarfsemi sinni tekur hann ekki þátt í ákvörðunum um hvernig kerfið á að vera og það er of seint að grípa í taumana og ætla að breyta greiðslukortafyrirkomulaginu, þó annað sýnist hentugra, eftir að ákveðin þróun hefur staðið í nokkuð langan tíma.

Þau atriði sem leggja verður áherslu á varðandi greiðslukort og notkun þeirra eru að greiðsluformið sé aðgengilegt fyrir sem flesta, að það hafi sem mest notagildi, notandi fái jafnan yfirlit yfir úttektir, þannig að hann hafi möguleika á að krefjast leiðréttinga ef um rangar færslur er að ræða. Það þarf að setja reglur vegna hugsanlegrar misnotkunar kreditkorta, t. d. vegna fölsunar, og um hvaða skilríki seljanda ber að krefja korthafa ef hann telur þess þörf. Greiðslukort þurfa að vera þannig að nánast sé útilokað fyrir aðra en korthafa að nota þau. Þá er full ástæða til að setja reglur um hvað korthafi á að greiða fyrir greiðslukort og notkun þess. Þar koma til skoðunar sjónarmið eins og þau að korthafi greiði raunverulegan kostnað greiðslukortafyrirtækja og til álita getur komið að korthafi greiði miðað við notkun greiðslukortsins. Slíkt mundi leiða til hagkvæmari notkunar þess. Það má einnig velta því fyrir sér hvort eðlilegra sé að korthafi greiði allan kostnað vegna notkunar greiðslukorts eða hvort leggja á þann kostnað á söluaðila eins og nú er gert.

Upplýsingar um neyslu korthafa má ekki misnota, t. d. hvað notandinn kaupir og við hvaða aðila hann verslar. Í þessu sambandi er ekki nægjanlegt að ætla að banna misnotkun, það verður að reyna að gera hana ómögulega með öllum þeim tækjum sem hugsanleg eru. Þannig eiga innlánsstofnanir viðkomandi ekki að hafa aðgang að þessum upplýsingum.

Af því sem hér hefur verið rakið sést að nauðsyn ber til að mótuð verði stefna í þessum málum og sett verði heildarlöggjöf. Neytendasamtökin og Neytendafélag Reykjavíkur og nágrennis hafa hvatt til þess að slík löggjöf verði sett og bent á að ekki megi mismuna þeim neytendum sem nota greiðslukort og þeim sem nota þau ekki. Ég hef orðið var við að kaupmenn og ýmsir þjónustuaðilar telja líka að mikil þörf sé fyrir að skýr stefna sé mótuð í þessu máli. Þeir telja að vegna aukinnar notkunar greiðslukorta og þess gjalds sem fyrirtækin greiði af hverri sölu, þar sem greiðslukort eru notuð, sé óhjákvæmilegt annað en að vöruverð hækki. Bent er á að víða þurfi verslunarfyrirtæki að greiða hærri fjárhæð til greiðslukortafyrirtækja en þau greiða í húsaleigu. Einnig benda þessir aðilar á að vegna þess hvað greiðslur koma seint þegar greiðslukort eru notuð minnki innkaupageta þeirra og fjármagnskostnaður aukist. Þá telja þeir út í hött að ekki séu settar reglur um lágmarksupphæð sem nota megi greiðslukort til greiðslu á og segja ekki óalgengt að jafnvel sé eitt stykki dagblað keypt með greiðslukorti.

Af því sem hér er sagt er ljóst að þær reglur sem mótast hafa hér á landi um notkun greiðslukorta eru settar einhliða af greiðslukortafyrirtækjum og þeim lánastofnunum sem þessi fyrirtæki eru tengd. Þessar reglur eru að mörgu leyti ágætar, en ýmis atriði þurfa þó skoðunar við, eins og hér hefur verið bent á.

Hér er um flókið mál að ræða sem snertir hagsmuni flestra þjóðfélagsþegna. Til þess að móta skynsamlega löggjöf í þessu efni þarf að kanna mörg atriði og það er eðlilegt að allir hagsmunaaðilar geti fjallað um hvernig hún á að vera. Ég tel eðlilegt að ríkisstj. hafi forgöngu í þessu máli með skipun nefndar til að semja frv. til l. um greiðslukort og starfsemi greiðslukortafyrirtækja, eins og lagt er til í þáltill. þessari. Það er viðbúið að slíkt nefndarstarf geti tekið langan tíma, þannig að ástæða er til að fara fram á að þáltill. fái afgreiðslu á þessu þingi þar sem um svo aðkallandi mál er að ræða.

Herra forseti. Ég leyfi mér að fara fram á að till. verði vísað til atvmn. Sþ.