12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4692 í B-deild Alþingistíðinda. (4093)

283. mál, greiðslukort

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrst af öllu byrja á því að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þessa till. til þál. og tel að hún hefði þurft að vera komin fram löngu fyrr.

Ég vil minna á að 11. mars 1980 bar ég fram fsp. til þáv. hæstv. viðskrh., Tómasar Árnasonar, sem voru á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þarf að leita leyfis stjórnvalda til stofnunar lánakortafyrirtækis hér á landi?

2. Eru slík fyrirtæki háð eftirliti, t. d. samsvarandi bankaeftirliti?

3. Ef slík lánastarfsemi er óháð lögum, hyggst þá viðskrh. beita sér fyrir lagasetningu, sem tekur til slíkrar starfsemi og tryggir eftirlit með henni?“

Í svari þáv. hæstv. viðskrh. kom fram að ekki þyrfti að leita leyfis stjórnvalda til stofnunar slíks fyrirtækis, að lánakortafyrirtæki væru ekki skv. núgildandi eða þágildandi lögum og reglum háð eftirliti sem samsvarar bankaeftirliti.

Þriðju spurningunni, hvort ráðh. hygðist beita sér fyrir lagasetningu, svaraði hann svo, með leyfi forseta: „Viðskrn. hefur gert ráðstafanir til að afla upplýsinga um lög og reglur um lánakortafyrirtæki í nokkrum nágrannalöndum okkar og mun taka afstöðu til þess, hvort setja þurfi sérstök lög eða reglur hérlendis í ljósi þeirra upplýsinga, sem berast, og reynslunnar af lánakortastarfseminni hér í landinu.“

Í þessari umr. tók einnig til máls Kjartan Jóhannsson, sem var hæstv. viðskrh. á undan þáv. viðskrh. Hann upplýsti að hann hefði í sinni ráðherratíð óskað eftir upplýsingum frá bankaeftirlitlinu um hvert væri álit þess og seðlabankans á því hvort starfsemi af þessu tagi samræmdist lögum um bankastarfsemi. Síðan sagði hv. þm. Kjartan Jóhannsson, með leyfi forseta:

„Ég trúi að þau svör, sem bárust, séu í fórum viðskrn., og þau svör, sem viðskrh. gaf hér áðan, séu í samræmi við þá umsögn, sem barst frá Seðlabankanum eða bankaeftirlitinu varðandi þetta efni.“

Þess vegna minni ég á þessa umr. að það væri ráð að athuga hvert var álit Seðlabankans og bankaeftirlitsins á nauðsyn þess að setja um þessi mál löggjöf.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um viðbrögð flestra við þessum fsp. mínum. Í Morgunblaðið reit einn af stofnendum Kreditkorta mjög illskeytta grein og taldi fyrirspyrjanda allt til foráttu fyrir að voga sér að vera að skipta sér af þessu á hinu háa Alþingi. Ég vona að flm. þáltill. nú fái mildari meðferð og jafnvel stuðning, því að svo sannarlega á þessi þáltill. stuðning skilið. g treysti því að hv. Alþingi samþykki þessa till. á þessu þingi og unnið verði að því að setja um þessa starfsemi löggjöf.

Flm. getur tveggja atriða í grg. Hann talar um að skortur á löggjöf geti valdið réttaróvissu. Það er vissulega rétt. Síðan minnist hann á annað atriði og ekki ómerkara, sem er áhrif notkunar greiðslukorta á vöruverð. Ég held að það væri verkefni fyrir verkalýðsforustuna í landinu að láta mjög til sín heyra um hver eru áhrif aukinnar notkunar kreditkorta á vöruverð í. landinu. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson upplýsir að verkalýðsforustan noti öll kreditkort. Því fer svo fjarri að ég hafi nokkuð á móti því. En það kemur ekki í veg fyrir að hún mætti leggja nokkra vinnu í að athuga hver áhrif notkun forustunnar hefur á peningabuddur þeirra sem hún er að vinna fyrir og ég treysti að hún muni gera það. Jafnframt er ástæða til þess að neytendasamtökin í landinu létu þetta mál til sín taka.

Að endingu ítreka ég þær óskir mínar að hið háa Alþingi samþykki þessa framkomnu tillögu.