12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4694 í B-deild Alþingistíðinda. (4096)

307. mál, staða íþrótta í landinu

Flm. (Níels Á. Lund):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að bera fram þáltill. um skipan nefndar til að gera heildarúttekt á stöðu íþrótta í landinu. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að gera heildarúttekt á stöðu íþróttamála í landinu. Starf hennar skal miðast við að unnt verði á grundvelli þeirra gagna, sem hún leggur fram, að móta samræmda stefnu í íþróttamálum til ársins 2000.

Í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá: Íþróttanefnd ríkisins, Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Íþróttakennarafélagi Íslands og tveir fulltrúar frá menntmrn. og sé annar þeirra skipaður formaður nefndarinnar.

Nefndin skili áliti fyrir fyrsta samkomudag næsta reglulegs Alþingis, þannig að unnt verði að taka til heildarendurskoðunar, ef þurfa þykir, á næsta löggjafarþingi íþróttalög nr. 49/1956, með þeim breytingum sem á þeim hafa orðið.“

Þessari þáltill. fylgir svohljóðandi grg.:

Í þeirri þáltill., sem hér er lögð fram, er lagt til að ríkisstj. skipi sérstaka nefnd til þess að gera heildarúttekt á íþróttamálum í landinu. Á áliti þessarar nefndar og tillögum verði síðan mótuð heildarstefna í þessum veigamikla málaflokki til ársins 2000, eða næstu 15 árin.

Mikið liggur nú þegar fyrir af gögnum sem nefndin getur unnið úr. Í ársbyrjun 1975 skipaði menntmrh. fimm manna nefnd til að rannsaka stöðu íþrótta í íslensku þjóðlífi. Nefnd þessari tókst ekki að ljúka störfum. Eftir er að vinna yfirlit og skrár og framkvæma rannsóknir varðandi hina ýmsu þætti sem leggja verður til grundvallar þegar meta á stöðu íþrótta.

Með þessum gögnum er m. a. unnt að athuga og gera glögga grein fyrir hvort íþróttastarfsemi og líkamsrækt með nemendum skóla og almenningi utan þeirra hefur eflst, hvort aðstaða hefur batnað og hvernig fjárveitingum hefur verið háttað frá því að Alþingi mótaði með íþróttalögum 1939 það sjónarmið „. . . að áhrif íþrótta til þroska, heilsubótar og hressingar nái til sem flestra í þessu landi“.

Í þáltill. er lagt til að í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá: Íþróttanefnd ríkisins, Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Íþróttakennarafélagi Íslands og tveir fulltrúar skipaðir af menntmrn.

Um þessa nefndarskipan er það að segja að ekki er nema eðlilegt að fulltrúi frá Íþróttanefnd eigi þar sæti, m. a. í ljósi þeirrar staðreyndar að um þá nefnd fer mikill hluti þess fjármagns sem til íþróttamannvirkja er varið og til fleiri þátta íþróttamála. Þá er einnig sjálfsagt að í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá þeim tveim fjöldasamtökum sem með íþróttamál fara í landinu, annars vegar Íþróttasambandi Íslands, sem er heildarsamtök íþróttafélaganna í landinu, og hins vegar Ungmennafélagi Íslands en starfsemi þess er að verulegu leyti bundin við íþróttir. Bæði hafa þau með að gera íþróttasamskipti innanlands sem utan. Þá er lagt til að Samband ísl. sveitarfélaga eigi einnig fulltrúa þar. Eins og allir vita eru það sveitarfélögin sem eiga hvað stærstan þátt í uppbyggingu íþróttamannvirkja og annast viðhald þeirra og rekstur, auk þess sem þau hvert og eitt veita stórum hluta tekna sinna til íþróttamála eftir því sem þeim finnst eðlilegast og best.

Þá er lagt til að einn fulltrúi verði frá Íþróttakennarafélagi Íslands. Íþróttakennarar eru þeir aðilar sem daglega vinna að íþróttamálum í einni eða annarri mynd og gjörþekkja því til þessara mála. Reynsla þeirra og tillögur væru mikils virði sem innlegg í störf nefndarinnar.

Að lokum er lagt til að tveir fulltrúar frá menntmrn. eigi sæti í nefndinni. Það er ekki óeðlilegt þar sem menntmrn. er ráðuneyti íþróttamála. Um það fara allar fjárveitingar ríkisins til opinberrar fjárveitingar ríkisins til íþróttamála og það tekur ákvarðanir um byggingu íþróttamannvirkja og skiptingu kostnaðar vegna þeirra. Þá ber einnig að nefna að menntmrn. hefur einnig með höndum ábyrgð á íþróttakennslu í skólum og ráðningar starfskrafta til þeirra hluta. Í menntmrn. er starfandi íþróttafulltrúi sem hefur með höndum þessi mál fyrir rn.

Íþróttir og það mikla starf sem þeim fylgir þarfnast stefnumörkunar ekkert síður en aðrir stórir málaflokkar. Ekki ber svo að skilja að engin stefnumörkun hafi átt sér stað varðandi íþróttir því eins og allir vita eru bæði í gildi íþróttalög ásamt mörgum fleiri þáttum sem móta stefnu á þessu sviði. Eins ber á það að líta og leggja ber ávallt áherslu á að sveitarfélög og þá ekki síður hin frjálsu félagasamtök, hafa alltaf mótað sína stefnu sjálf og eiga að gera það áfram.

Hitt er svo aftur annað mál að til þess að hægt sé fyrir þessa aðila eina sér eða alla saman að móta samræmda stefnu í íþróttamálum er nauðsynlegt fyrir þá að fyrir liggi úttekt á stöðunni eins og hún er í dag. Það er þessari nefnd ætlað að gera. Þegar þeirri úttekt er síðan lokið á að vera auðvelt að móta samræmda stefnu allra aðila í íþróttamálum.

Athugun nefndarinnar er margþætt, en helstu þættir sem athuga þyrfti og ég vil benda á eru:

A. Skólar. Aðstöðu þá sem þeir veita til íþróttaiðkana þarf að athuga, bæði bundinna í námsskrá og með frjálsri þátttöku. Einnig þarf að gera grein fyrir árangri af framkvæmd sundskyldu og öðrum íþróttaiðkunum í skólum.

B. Ungmenna- og íþróttafélög. Auk þess sem aðstaða til íþróttaiðkana, keppni og félagsmála er athuguð skal athugun einnig beinast að starfrækslu íþróttamannvirkja og hvernig þau verði best nýtt, bæði fyrir félagsbundna iðkendur og ófélagsbundinn almenning. Afla þarf upplýsing um kostnað við íþróttaiðkanir svo sem laun, starfrækslu, flutninga og tæki. Afla þarf upplýsinga um innlend og erlend íþróttaviðskipti, umfang þeirra og kostnað. Þá þarf einnig að athuga hverjar séu sérþarfir fatlaðra í íþróttum og kostnaður í sambandi við það.

C. Afreksíþróttir. Athuga þarf starf tengt Ólympíuleikum, heimsmeistarakeppni, Evrópukeppni, Norðurlandakeppni, landskeppni og annarri slíkri keppni. Lýsa þarf umfangi þeirra, og greina frá kostnaði einstaklinga, félaga og samtaka s. l. ár og hver stuðningur opinberra aðila hafi verið og hver hafi verið hlutur erlendra íþróttaaðila.

D. Almenningsíþróttir. Að síðustu er lagt til að þurfi að skoða sérstaklega almenningsíþróttir. Gerð verði grein fyrir möguleikum almennings til ófélagsbundinna íþróttaiðkana og hver sé þróunin á því sviði. Í því sambandi komi fram að hve miklu leyti fjölskyldan geti notið íþróttaiðkana saman og almenningur óháð aldri og kynjum.

Mikið hefur þegar áunnist og verið gert af hálfu opinberra aðila í þessum málum en hvort íþróttaaðstaðan nái til allra þyrfti að athugast betur og gera úrbætur ef með þarf. Ástæða er til að ætla að skipuleggja megi betur en gert er nýtingu íþróttahúsa. Á flestum stöðum eru íþróttahúsin fullbókuð frá morgni til kvölds og það eru oftast ákveðin félög eða hópar sem þeirra geta notið. Þær raddir heyrast oft að erfitt sé fyrir hinn almenna mann að fá þar inni jafnvel þótt benda megi á að húsið standi ónotað. Þessu tel ég að breyta mætti mikið til batnaðar með aukinni hagræðingu og skipulagningu.

Mikið er til af góðri íþróttaaðstöðu í landinu og hefur mikil aukning orðið á henni nú síðustu ár. Ég vil nefna sem dæmi að nú eru 111 íþróttahús í landinu og þar af 55 byggð síðan 1970 eða yngri en 15 ára. Alls eru til staðar rúmir 40 þús. fermetrar af íþróttasölum í landinu og rúmir 19 þús. fermetrar af sundlaugum. Þá eru til 109 grasvellir og um 100 malarvellir og um þessar mundir er verið að vinna að 50 vallarsvæðum í landinu. Samtals eru til í landinu rúmlega 670 íþróttamannvirki. Þessar upplýsingar koma fram í fréttabréfi frá Íþróttasambandi Íslands frá því í febr. s. l. og eru unnar af Þorsteini Einarssyni fyrrv. íþróttafulltrúa ríkisins. Þótt öll þessi mannvirki séu geysilega mikið notuð mætti eflaust auka nýtingu þeirra. Sérstaklega ber að athuga hvort ekki megi gefa almenningi aukið tækifæri á að nýta þau.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeirri breytingu á daglegu lífi fólks á Íslandi sem ég tel að í vændum sé. Þar á ég við aukinn frítíma fólks. Eins og vitað er byggist góð fjárhagsleg afkoma manna hér ekki síst á löngum vinnutíma og margir hverjir vinna jafnvel reglulega tvöfalda vinnu. Með aukinni tölvuvæðingu og hagræðingu á öðrum sviðum vil ég vona að vinnutími manna hér styttist án þess að það bitni á fjárhagslegri afkomu þeirra. Þar með eykst frítími þeirra sem ég tel afar nauðsynlegt að hver og einn fái tækifæri á að nýta á heilbrigðan og þroskavænlegan hátt sjálfum sér og öðrum til farsældar og hamingju. Ég tel afar mikilvægt að þessu sé nægur gaumur gefinn.

Í tómstundastarfi má greina á milli tveggja stórra þátta. Annars vegar skapandi starfs sem krefst þess eða ætlast til þess að einstaklingurinn sé virkur í starfinu, skapandi, gefandi eitthvað af sjálfum sér og þiggjandi eitthvað á móti. Hins vegar er aðeins ættast til þess í sumu tómstundastarfi að einstaklingurinn sé hlutlaus þiggjandi, mataður af öðrum. Ofnotkun á slíkri afþreyingarstarfsemi tel ég afar hættulega og geti leitt til verri siða.

Áherslu ber því að leggja á hið skapandi starf. Þar má nefna ýmsa þætti tómstundastarfs, svo sem hvers konar félagsmál, listir, safnanir, klúbbastarfsemi, útivist, nám utan skóla og fleiri og fleiri þættir. En einn allra, allra stærsti þátturinn og sá vinsælasti eru íþróttir hvers konar. Íþróttir eru bæði heilbrigðar og vinsælar meðal almennings og leggja ber því sérstaka rækt við þær. Því er þessi till. flutt í þeirri von að íþróttamálin verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar og mótuð heildarstefna næstu 15 árin eða til ársins 2000.

Í framhaldi af þessari athugun þarf nefndin að gefa ábendingar um hvaða ákvæði íþróttalaga þarfnist breytinga eða hvort þörf sé á heildarendurskoðun þessara laga. Íslensk íþróttalög má rekja til þess að í apríl 1938 skipaði þáv. forsrh. og kennslumálaráðh., Hermann Jónasson, 9 manna milliþinganefnd er, eins og segir í till. þeirri sem þá var flutt, með leyfi forseta: „ .. geri till. til ríkisstj. fyrir næsta reglulegt Alþingi um það hvernig hagkvæmast verði að efla íþróttastarfsemi og líkamsrækt meðal þjóðarinnar, fyrst og fremst með það sjónarmið fyrir augum að áhrif íþrótta til þroska, heilsubótar og hressingar nái til sem flestra í þessu landi.“

Nefndin skilaði till. að frv. til íþróttalaga á tilskildum tíma og í des. 1939 var það afgreitt sem lög frá Alþingi nr. 25 12. febr. 1940. Síðan hefur verið skv. þeim starfað að mestu óbreyttum. Endurskoðuð voru lögin og afgreidd frá Alþingi 28. mars 1956. Breytingar voru gerðar á lögunum 1968 og einnig 1972. Það er ekki ólíklegt að núgildandi íþróttalög þurfi breytinga við þótt því sé ekki slegið föstu.

Stefnumótun á að ná til ársins 2000 eða næstu 15 ára. Búast má við mikilli aukningu í þátttöku í íþróttum eins og ég sagði áðan, ekki er síst þess að vænta að hún eigi sér stað meðal almennings í ljósi breyttra atvinnuhátta og styttri vinnutíma. Það er því mikilsvert að sveitarfélög eins og aðrir geri sér þetta ljóst í tíma og bregðist við því á þann hátt að almenningur geti nýtt frístundir sínar til íþróttaiðkana sjálfum sér og öðrum til gagns og ánægju.

Að lokum skal á það lögð áhersla að ætlast er til að höfuðmarkmið nefndarinnar verði að gera tillögur sem miða að því að sem flestir hafi jafna möguleika til íþróttaiðkana hvar á landinu sem er.

Herra forseti. Að loknum þeim umr. sem hér fara fram um þessa till. legg ég til að henni verði vísað til hv. allshn.