13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þeir sem fylgdust með umræðunni á s.l. vori um það hvort Alþingi skyldi koma saman sem fyrst eftir kosningar eða ekki — og það gerðu vissulega allir hv. alþm. — vita mætavel hver mín afstaða var til þess máls. Hún var í stuttu máli sú, að Alþingi skyldi koma saman hið allra fyrsta eftir kosningar. Ég hef flutt fyrir því ýmis rök. Sum þeirra hafa verið tíundað hér þegar í dag af sumum ræðumönnum og undir þau get ég tekið. Ég legg aðeins áherslu á þessi meginatriði: Mér þótti forsetadæmið á Alþingi vera óeðlilega skipað þegar svo fór að tveir af forsetum þingsins urðu ráðherrar. Mér þótti líka óeðlilegt að ekki væri formlega starfandi fjvn. og það sama gilti um utanrmn. Síðast en ekki síst þótti mér nokkuð nærri löggjafarvaldinu gengið með því að hafa Alþingi svo lengi frá störfum.

Ekki síst var það í mínum huga óheppilegt að draga svo lengi að kalla þing saman vegna þess að búast mætti við því að umræðan á haustþinginu yrði fremur ófrjó. Og það er að sýna sig einmitt núna, þennan fyrsta dag sem umræður standa á þinginu, að við eyðum tíma okkar í að tala um það sem ekki varð. Og við eigum eftir að sjá það ennþá betur þegar verður farið að ræða um brbl. Sú umræða um það sem var gert á s.l. vori kemur sjálfsagt til með að taka upp tíma þm. fram undir jól ef ég þekki stjórnarandstöðuna rétt.

Allt þetta þótti mér nægja til þess að sú ákvörðun yrði tekin að þingið yrði kallað saman. Þetta var líka skoðun meginhluta þingflokks sjálfstæðismanna og sú skoðun hefur ekkert breyst. En ég ætla að taka það skýrt fram að það er ekki mitt álit að hér hafi neitt lögbrot verið framið. Þetta vald er formlega í höndum forsrh., um það var ekkert deilt og á ekki að þurfa að deila.

Þá kem ég að því sem er meginástæða þess að ég kvaddi mér hér hljóðs. Það er ræða hv. þm. Svavars Gestssonar, sem mér þótti satt að segja með eindæmum og endemum, svo ekki sé meira sagt. Hann er að gera hér að umtalsefni yfirlýsingar þingmanna, þ. á m. þm. Sjálfstfl. frá s.l. vori — áður en þingi var slitið — þess efnis að nýkjörið þing skyldi koma saman eigi síðar en 18 dögum eftir kosningar. Um það voru þá þm. þriggja flokka sammála. Þar var Framsfl. einn fyrir utan. En munurinn á Sjálfstfl. og Alþb. er sá, að við vildum standa við þessa yfirlýsingu og fylgja þáltill. sem flutt var. Hverjir voru það sem komu í veg fyrir að sú till. yrði afgreidd með þinglegum hætti áður en þinginu var slitið? Það var Alþb. með hv. þm. Svavar Gestsson í broddi fylkingar. Hann kom í veg fyrir að þessi till. fengi þinglega meðferð. Hann samdi um það við Framsfl. að koma í veg fyrir það að till. yrði samþykkt gegn því að vantraustið, hið raunverulega vantraust á kollega hans, hv. þm. Hjörleif Guttormsson, yrði ekki samþykkt. Þetta var ástin á lýðræðinu hjá hv. þm. Svavari Gestssyni þá. Nú er hann að blaðra hér um lýðræðisást. Ja, honum ferst, ég segi ekki annað.

Mér þykir líka óviðurkvæmilegt af hv. þm. Svavari Gestssyni að vera að tala hér um að stjórnarflokkarnir sýni stjórnarandstöðunni hroka. Þetta er rangt. Við höfum átt marga fundi nú síðustu daga, formenn þingflokkanna, og þar hefur verið, fullyrði ég, hið besta samkomulag. Það fólst ekki í því neinn hroki þótt stjórnarflokkarnir höfnuðu þeirri tillögu stjórnarandstöðunnar að stjórnarandstaðan fengi einn af aðalforsetunum. Það er út í hött að líkja því saman sem var á síðasta kjörtímabili, þegar hæstv. núv. iðnrh. Sverrir Hermannsson gegndi forsetastörfum í Nd. Það var ekki af neinni sérstakri tillitssemi við stjórnarandstöðuna sem Alþb. studdi það að hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson gegndi þá forsetastörfum á Alþingi. Það veit ég að hv. þm. Svavar Gestsson veit þó hann vilji kannske segja annað í dag.

Þetta samstarf, sem hefur tekist nú í upphafi þings, fullyrði ég að er til fyrirmyndar. Ég held að þeir fundir sem við höfum átt, formenn þingflokka, hafi einmitt leitt það af sér að meiri samstaða varð um forsetakjör og skipan í önnur trúnaðarstörf hér í upphafi þings en nokkru sinni hefur orðið. Það er illt verk af hv. þm. að vera að tala núna um að stjórnarliðar sýni stjórnarandstöðunni hroka.

Mér þykir það líka sæma illa hv. þm. Svavari Gestssyni að vera að gera hér mál úr útgáfu brbl. á s.l. vori. Þar gekk sú ríkisstj. sem hann sat í lengra en sæmilegt gat talist eins og hæstv. forsrh. hefur nú alveg nýlega staðfest. Ég get bætt við öðrum brbl. sem sú ríkisstj. gaf út og sýndi Alþingi með því dæmalausa lítilsvirðingu. Það voru brbl. í jan. 1981. Það var fullt tækifæri til þess að ræða þau mál. Það voru brbl. um efnahagsmál. Það var full ástæða til að ræða þau mál á þinginu í des. 1980, en það þótti ekki hlýða vegna þess að ríkisstj. vissi að hennar meiri hl. var þá tæpur. Þar var gengið á svig við þingræðið undir forustu hv. þm. Svavars Gestssonar og þeirra sem þá sátu með honum í ríkisstj. En nóg um þetta.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson spurði hvort þingflokkur sjálfstæðismanna hefði skipt um skoðun. Ég hef svarað því nú þegar að þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ekki skipt um skoðun í þessu efni. Meiri hl. hans taldi að þingið ætti að koma saman. Við teljum enn að svo hefði átt að vera, en teljum tilgangslaust að eyða tíma í að ræða það frekar nú.

Aðeins að lokum, af því að hann spurði líka hvaða utanrmn. hefði verið að störfum í sumar: Mér finnst að hann ætti að ræða það við formann sinn, Kjartan Jóhannsson, sem gekkst að ég held töluvert upp við það að verða formaður þessarar svokölluðu utanrmn. í sumar, nema hann vilji þá niðurlægja hann sérstaklega hér í þingsölum með því að gera lítið úr því starfi sem hann vann sem formaður þessarar nefndar, sem ég vil nú ætla að hafi ekkert verið annað en starfshópur sem hæstv. utanrrh. kallaði til, og nota ég þá orð sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson viðhafði á fyrsta fundi nýkjörinnar utanrmn. í gær. (JBH: M.ö.o., engin utanrmn.) Starfshópur.