12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4701 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

307. mál, staða íþrótta í landinu

Flm. (Níels Á. Lund):

Herra forseti. Ég vil þakka þann stuðning sem þessi þáltill. hefur fengið á hinu háa Alþingi og vonast til að framgangur hennar í gegnum þingið verði með svipuðum hætti. Ég vil aðeins bæta því við þessa umr. að nú er mikið rætt um hvers konar fyrirbyggjandi störf og mikið rætt um fíkniefnavanda. sérstaklega er verið að tengja saman í hverju orði ungt fólk og fíkniefni. Ég vil vara við þeim hugsunarhætti að tengja það einboðið alltaf saman og vil benda á þann mótandi þátt sem slíkt getur haft. Ég nefni þetta vegna þess að ég held m. a. að ein leiðin í fyrirbyggjandi starfi sé að bjóða upp á hollt starf á öðrum sviðum. Þar hljóta íþróttirnar að skipa veglegan sess eins og þær hafa gert.

Hv. þm. Karvel Pálmason ræddi áðan um þá aðstöðu sem boðin er. Ég ætla ekki að fjölyrða um það nema ég vonast til að sú úttekt, sem fyrirhuguð er, komi til með að svara þeim spurningum t. d. hvort rétt sé að velflest sjávarpláss séu ekki með neina aðstöðu til sundkennslu. Ýmsum svona stórum spurningum er nauðsynlegt að fá svör við og ég vona einmitt að þessi nefnd komi til með að skila slíkum svörum.

Miklar breytingar hafa orðið, sérstaklega hvað varðar fjölgun í almenningsíþróttunum. Ég vil nefna ykkur sem dæmi að 1973 voru iðkendur taldir 48 þús. en 1982 eru þeir komnir í 82 þús. Þarna er að vísu eflaust eitthvað um tvítalningu að ræða en aukningin er samt geysileg. Samtals eru núna taldir vera um 88 þús. iðkendur ýmissa íþróttagreina á landinu. Við sjáum að þetta er ekki lítill fjöldi og það er ekki lítill þáttur sem íþróttir skipa í okkar þjóðfélagi. Ég fullyrði það að þetta er m. a. einn sá þáttur sem gæti nýst okkur hvað best í að brúa hið margumtalaða kynslóðabil.

Hins vegar hefur orðið vart þeirrar þróunar að meira ber á að þeir sem stunda íþróttir vilja ráða hvenær þeir fara í íþróttir án tillits til þess hvort þeir eru í ákveðnum félagsskap, án tillits til þess hvort þeir hafa einhvern ákveðinn tíma eða án tillits til aldurs eða kyns. Þeir vilja fá að ráða því sjálfir og stjórna því þar með án þess að vera félagsbundnir. M. ö. o., iðkun almennings fer stórvaxandi og það er einmitt sá þáttur, sem við þurfum að skoða.

Ég ætla ekki að ræða um þann stóra þátt sem félagsleg hlið íþróttanna er. En eins og ég bryddaði aðeins á fyrst í þessari seinni ræðu minni eru íþróttirnar ekki hvað síst hlekkur í hinu stóra og mikla fyrirbyggjandi starfi sem við erum að ræða um daginn út og daginn inn. Við sjáum kannske ekki alltaf fram á hvað sé best og kannske horfum við þar ekki til þeirra átta sem við ættum helst að gera heldur leitum lausnanna á stöðum sem minna kemur út úr.