12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4710 í B-deild Alþingistíðinda. (4104)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að auka mörgum orðum við þessa umr. Það gleður auðvitað gömul augu mín að sjá slíka till. lagða fram og gömul eyru að heyra um þessi mál rætt.

Mig minnir að hv. 7. landsk. þm. hafi orðað það svo að þetta væri tímabær umræða og tímabær tillögugerð. Umræður og göfug áform í þessum efnum var, er og verður tímabært mál. Það er hins vegar engin nýlunda á hinu háa Alþingi að þessi mál beri á góma. Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp örstutta tillögugerð frá árinu 1977 þar sem ég ber fram till. til þál. um íslenskukennslu í fjölmiðlum ásamt með hv. þm. Tómasi Árnasyni, Jónasi Árnasyni rithöfundi, Gylfa Þ. Gíslasyni fyrrv. ráðh. og hv. þm. Karvel Pálmasyni. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að sjónvarp og útvarp annist kennslu og fræðslu í öllum greinum móðurmálsins. Þrettán manna ráð“ og taki menn nú eftir, því að spurt var af hálfu hv. 7. landsk. þm. um framkvæmdina: „Þrettán manna ráð, kosið hlutfallskosningu á Alþingi, skal hafa með höndum stjórn þeirra mála.“

Í grg. sagði svo með leyfi hæstv. forseta:

„Engum dylst að íslensk tunga á nú í vök að verjast. Á þetta sérstaklega við um talað mál, framburð og framsögn. Einnig fer orðaforði fólks þverrandi og erlend áhrif hvers konar vaxandi. Engum orðum þarf að fara um lífsnauðsyn þess, að stemma stigu við slíkri óheillaþróun, og snúa við inn á þá braut íslenskrar málhefðar sem ein verður farin ef íslensk menning á að lifa og dafna.

Ríkisútvarpið hefur lagt nokkuð af mörkum til fræðslu og kennslu í íslenskum fræðum, tungu og bókmenntum. Er það góðra gjalda vert, en það er skoðun flm. að betur megi ef duga skal, og á það einnig við um meðferð tungunnar yfirleitt í munni þeirra sem í útvarp tala.

Áhrifaríkasti fjölmiðillinn, sjónvarpið, hefur hins vegar í engu sinnt fræðslu í meðferð íslenskrar tungu. Virðist jafnvel ekki lögð sérstök rækt við orðfæri eða framburð þeirra sem þar starfa.“ Þetta átti nú og á sínar undantekningar og mæli ég þetta af sérstökum ástæðum sem mér nú koma í hug. „Á þessu þarf að verða gjörbreyting“, segir enn. „Langsterkasta áróðurstækið, sem flust hefur inn á gafl á hverju heimili landsins, þarf að taka tröllataki til eflingar íslenskri menningu, sérstaklega til viðreisnar íslenskri tungu, en það er brýnasta verkefnið nú.

Lagt er til að kosið verði hlutfallskosningu á Alþingi þrettán manna ráð sem hafi með höndum stjórn þessara mála í fjölmiðlunum. Verkefnið er viðamikið og þykir flm. því ástæða til að allmargir eigi hlut að máli, enda hefur þjóðin til þess arna á að skipa mörgum mjög hæfum mönnum.“ Svo mörg voru þau orð.

Þetta mál var rætt ítarlega á hinu háa Alþingi veturinn 1977–1978 og niðurstaðan varð samþykkt þál. um íslenskukennslu í Ríkisútvarpinu, samþykkt á Alþingi 5. maí 1978, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að kennsla og fræðsla í Ríkisútvarpinu í öllum greinum móðurmálsins verði efld“.

Nú er að spyrja um framhaldið. Og það er ekki ný fsp. sem menn varpa fram nú. Það hefur verið spurt skriflega og formlega á hinu háa Alþingi um framkvæmd þessarar þál. Mér flaug í hug svarið á dögunum, þegar menn æddu hér upp með fyrirgangi og hneykslan af því sem fallið hafði milli stafs og hurðar þáltill. frá hinu háa Alþingi um lífefnaiðnað og líftækni. Þar kom m. a. upp hæstv. fyrrv. menntmrh., og þykir mér nú mjög miður að hann skuli vera fjær, og hneykslaðist á því og taldi að það þyrfti nú sérstakrar athugunar við hvernig það mætti vera að till. eins og þessi hefði mislagst með þeim hætti að hún hefði ekki komið til meðferðar af framkvæmdavaldinu. Það var nú að mér komið að fara upp og minna hann á að ýmsar tillögur hefðu verið samþykktar á hinu háa Alþingi og ályktað í ýmsum málum sem framkvæmdavaldið hefði ekkert gert með.

Ég þarf ekki að kvarta undan því að á hinu háa Alþingi hafi ekki verið áhugi á þessum málum og vel vikist undir, þegar þau hefur borið á góma, með ályktanir og samþykktir. Ég minni auðvitað á samþykkt Alþingis frá 1973 þegar stafsetningarsullumbullið reið hér húsum. Það var gerð samþykkt á hinu háa Alþingi. Hvað gerði framkvæmdavaldið? Það beitti valdníðslu hreinni eins og það hefur jafnan gert í þessum málum. (Gripið fram í: Hvað gerði það?) Ekki neitt, hlýddi ekki boði hins háa Alþingis. Yfir því hef ég kvartað að hið háa Alþingi hafi látið misbjóða sér með þeim hætti sem hér ber raun vitni um. Yfir því hef ég sárlega kvartað æ ofan í æ og fyrir því m. a. hef ég lýst því yfir að ég muni, meðan ég gegni ráðherrastöðu, framkvæma hvað eina sem hinu háa Alþingi þóknast að samþykkja. Og ég hef bætt við, með leyfi forseta: hversu vitlaust sem það kann að vera — af því sem þetta er siðferðisskylda þeirra sem með framkvæmdavaldið fara. Það þarf að taka þessi mál sérstökum tökum og láta framkvæmdavaldið finna til þess í hvers þjónustu það er og hver ræður þegar til kastanna kemur.

Það er með ólíkindum að menn skuli una því að í þessu máli, einu mikilvægasta af málum sem hið háa Alþingi fæst við, skuli hreinni og beinni valdníðslu vera beitt æ ofan í æ árum saman. Skellt hefur verið skollaeyrum við þegar menn hafa yfir þessu kvartað og gagnrýnt þetta harðlega, sem hefur skeð ár eftir ár og oft á ári. Ég spurðist fyrir um það fyrir tveimur árum eða svo hvað liði framkvæmd þál. frá 5. maí 1978. Svör gáfust ekki. Eitthvert þvarg um það að þeir teldu ýmis tormerki á að framkvæma þetta í Ríkisútvarpinu, stjórnendur þar. Og mála sannast er það — og maður getur dæmt það af viðbrögðum hins háa Alþingis, hinum jákvæðu viðbrögðum þess — að hér hlýtur að stranda á embættismannavaldinu. Það er alveg óhjákvæmilegt. Framkvæmdavaldið, sem á hér sæti meðal okkar þm. og erum við einir af þeim, mundi ekki haga sér með þessum hætti ef það væri ekki hið valdagíruga embættismannavald sem þarna hefði úrslitaáhrif. Og aumingjaskapur framkvæmdavaldsins að láta þetta embættismannavald setja sér stólinn fyrir dyrnar. (Gripið fram í.) Það var auðsýnt hverjir réðu ferðinni þegar ályktunin í stafsetningarmálunum var gerð um árið. Það vissu allir menn. En það hlýtur einnegin að vera að þarna, þegar kemur til kasta framkvæmdavaldsins að gefa fyrirmæli um að framkvæma ályktun eins og þá sem ég hef vitnað hér til, þá getur ekki verið öðrum um að kenna en embættismannavaldinu, sem hundsar fyrirmælin, og aumingjaskap framkvæmdavaldsins sem lætur þar við sitja.

Ég á sérstakt erindi að taka undir með tillögugerð eins og þeirri sem hér liggur fyrir. En ég minni auðvitað á að sporin hræða. Ég gerði það að lokum um árið að fallast á að það ákvæði tillgr. sem gerði ráð fyrir þrettán manna ráði væri numið brott. Það hefði ég aldrei átt að gera. Ég boða hér brtt., viðaukatillögu við tillgr. á þskj. 514 um framkvæmdaaðila, valinn af hinu háa Alþingi, sem fær þetta verkefni í hendur, því það er margsannað að þeir sem við hafa átt að taka og fara að vilja Alþingis hafa skellt við skollaeyrum. Við það verður ekki unað lengur. Æ fleiri sjá í hvert óefni stefnir. Ég bið um það að sú n. sem fær þetta til meðferðar taki sérstaklega tillit til þeirrar reynslu sem af þessu hefur fengist. Það er þýðingarlaust og ég hef engan áhuga á því að samþykkja enn á ný till. þessa efnis ef við ekki ráðum fram úr framkvæmdinni um leið, ef við ekki segjum fyrir um það nákvæmlega hverjir skuli hafa með höndum framkvæmdina, vegna þess að það er margsannað að þeim er ekki treystandi sem hafa átt að sjá um framkvæmdina áður fyrr. Hvers vegna ekki þrettán manna akademíu? Það er a. m. k. góð tala. Ég geri ráð fyrir því að ég muni flytja viðaukatillögu sem gengur í þá átt. Vildi ég þá mega mælast til við hv. n. að hún taki þetta mitt málskot sérstaklega til meðferðar og kysi helst, og mun enda koma því á framfæri við hana. að hún flytti slíka breytingu.

Ég legg höfuðáherslu á þetta: að við sjáum fyrir framkvæmdinni um leið. Ég er sannfærður um að þeir sem til þessa yrðu valdir mundu víkjast undir það með glöðu geði. Hver og einn þingflokkur mundi fá til þess mannskap sem ekki þyrfti að þiggja há laun fyrir þó sjálfsagt sé líka að menn hafi fyrir snúð sinn.

Þetta var aðalerindið og eins að rifja upp fyrir fólki þessa hörmungarsögu um aumingjaskapinn hjá framkvæmdavaldinu og frekju og yfirtroðslu embættismannavaldsins sem hefur haldist það uppi að hafa að engu viljayfirlýsingar og ákvarðanir hins háa Alþingis.