12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4720 í B-deild Alþingistíðinda. (4109)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að flytja hér yfirgripsmikla ræðu um framburðarkennslu í íslensku og málvöndun. Ég efast satt að segja mjög um persónulega hæfni mína til þess og þekkingu til að ræða það nema þá því betur undirbúinn. Ég vildi aðeins rifja hér upp gamalt atvik. Fyrst vildi ég taka það fram að í umgengni við eldra og yngra fólk vekur sérstaklega athygli mína mismunurinn á tungutakinu, það er orðfátæktin hjá unga fólkinu, erfiðleikarnir við að tjá sig á eðlilegan hátt í mæltu máli.

Það sem kom mér til að brjótast hér upp voru tvö atvik sem ég ætla að segja hér frá. Menn geta lagt þau út á hvern þann veg sem þeim sýnist. En þessi atvik snúast um tvo verkamenn, vini mína, og skeðu fyrir nokkrum árum. Annar var rösklega tvítugur, hinn eitthvað yfir sjötugt. Þetta skeði í sama mánuði. Þessi rösklega sjötugi verkamaður hafði legið veikur um skeið. Og þar sem hann lá rúmfastur gerast gleðitíðindi. Sonur hans uppkominn kom heim úr siglingu og færði honum a. m. k. eina þrjá rommkúta og kassa af Havanavindlum. Þegar gamli maðurinn hafði gætt sér á þessum rommkút seig á hann höfgi og sennilega hefur Havanavindillinn fallið á sængina. Gamli maðurinn vaknaði við það að tveir slökkviliðsmenn voru að berjast við að koma honum í sjúkrakörfu en hús loguðu öll og sængurföt hans líka. Þá sagði gamli maðurinn: Látið mig bara liggja, piltar. Mér er ekki vandara um en Njáli í brennunni. Meira mælti hann ekki í þessu lífi. Þetta voru nú karlmannleg andlátsorð.

Í sama mánuði kom á fund okkar nokkurra ungur maður. Hann hafði lokið héraðsskólaprófi og var eitthvað dapur og sagði, með leyfi forseta: Helvítis djöfull, maður. Svo komu fleiri blótsyrði sem ég hirði ekki um að nefna. Nú, er eitthvað að? spurði ég. Já, helvítis andskoti. Mamma dó í nótt.

Honum var harmur í huga. Orðgnóttin og íslenskan lék honum ekki betur á tungu en þetta. Tvítugur og sjötugur, tungutakið ólíkt. Sá eldri ólst upp við Njálu, sá yngri hafði ágætt próf úr Reykholti, setri Snorra Sturlusonar.