12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4723 í B-deild Alþingistíðinda. (4114)

278. mál, kynning á líftækni

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um kynningu á líftækni. Hún er á þskj. 535. Mig langar til að lesa ályktunina, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa sjö manna nefnd til að annast kynningu á aðferðum og möguleikum líftækni. Iðnrh. skal skipa formann nefndarinnar án tilnefningar. Aðrir nm. skulu skipaðir skv. tilnefningu frá eftirtöldum aðilum: 1) Alþýðusambandi Íslands. 2) Háskóla Íslands. 3) Rannsóknaráði ríkisins. 4) Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 5) Tækniskóla Íslands. 6) Vinnuveitendasambandi Íslands.

Nefndin skal ljúka störfum innan eins árs frá skipun hennar. Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Í grg. segir svo, með leyfi forseta:

Líftækni er vaxandi framleiðslusvið á Vesturlöndum. Að mati kunnáttumanna munu aðferðir líftækninnar hasla sér völl í fjölmörgum greinum, svo sem matvælaframleiðslu, eldsneytisvinnslu, eyðingu úrgangs, umhverfisvernd, efnaiðnaði o. fl. Ýmsir telja að líftæknin muni valda byltingu á þessum sviðum og verða einkennandi fyrir atvinnurekstur 21. aldarinnar.

Á vegum Rannsóknaráðs ríkisins hefur tekið til starfa stór hópur vísindamanna sem mun gera tillögur um mótun framtíðarstefnu í líftækni. Störf þessa hóps munu óumflýjanlega taka nokkurn tíma. Líftæknin er nú þegar stórtækur þáttur í atvinnulífi Vesturlanda og fyrirsjáanleg staðreynd í atvinnulífi okkar.

Það er löngu tímabært að hefja kynningu á grundvallaraðferðum og möguleikum líftækninnar. Sú kynning þarf að fara fram meðal almennings, skólamanna, sveitarstjórnarmanna, verkafólks og atvinnurekenda.

Nú fara fram í þjóðfélaginu miklar umræður um nýsköpun íslensks atvinnulífs. Það er nauðsynlegt að líftæknin tengist þeirri umræðu með þeirri þekkingu sem þegar er fyrir hendi. Framtíðarhlutverk líftækninnar, fjölbreytileiki aðferða hennar og hráefna og möguleikar til starfrækslu smárra jafnt sem stórra eininga gera hana að girnilegasta kosti okkar í dag. Fjöldi atvinnurekenda og framtakssams athafnafólks vill kynnast framtíðarsýn þessara nýju hugmynda.

Íslendingar hafa oft nagað sig í handarbökin vegna sofandaháttar og þunglamalegra viðbragða í síbreytilegri samtíð sinni. Við höfum nú þegar næga þekkingu til að hefja almenna kynningu meðal lærðra og leikra. Hver ársfjórðungur sem þjóðin lifir við skert lífskjör er henni dýr og verður ekki bættur. Hér er lagt til að nefndin láti semja fræðsluefni um líftækni, t. d. greinargóðan bækling, myndbönd og blaðagreinar. Þessum upplýsingum ætti að dreifa sem víðast, m. a. til skóla, verkalýðsfélaga, fyrirtækja, t. d. í landbúnaði, sjávarútvegi, matvælaiðnaði, mjólkuriðnaði, efnaiðnaði og þess háttar, og sveitarstjórna.

Einnig væri eðlilegt að skipuleggja fræðsluerindi og fundi í tengslum við þessa kynningu.

Lagt er til að nm. fái laun samkv. reglum um nefndarstörf hjá hinu opinbera. Nefndinni verði heimilað að kaupa ráðgjöf og aðstoð, sem svarar einu ársverki skv. launaflokki BHM (115). Kostnaður nefndarinnar, svo sem vegna launa nm., aðstoðarfólks og ráðgjafa, vegna prentunar og dreifingar bæklings og kynningarfunda og þess háttar skal greiðast úr ríkissjóði.

Lagt er til að nefndin miði störf sín við eftirfarandi tímabil frá skipunardegi:

a) 1.–2. mánuður. Drög að kynningarstarfinu samin og kynnt iðnrn. og atvmn. Sþ.

b) 3.–6. mánuður. Kynningargögn samin og framleidd og fundir skipulagðir með félagasamtökum og einstökum byggðarlögum.

c) 7.–12. mánuður. Kynningarstarf skv. framansögðu. Áhersla skal lögð á að hvetja fólk til fyrirspurna og safna hugmyndum.

Í lok þessa 12 mánaða tímabils skal nefndin skila skýrslu um starfsemi sína til iðnrn., atvmn. Sþ. og þeirra aðila sem tilnefndu fulltrúa í nefndina.

Nefndin skal skila öðrum gögnum sínum til Rannsóknaráðs ríkisins sem skal annast vörslu þeirra og frekari dreifingu ef óskað er.“

Í framhaldi af lestri þessarar grg., áður en ég fer lengra út í almenna umr., langar mig að lesa lokaorð í grg. dr. Jóns Braga Bjarnasonar um lífefnatækni, sem er birt í þessu þskj. sem fskj. 1. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og fyrr greindi er helsti þrándur í götu þróunar lífefnatækninnar á Íslandi áhugaleysi og skortur á rannsóknarviðleitni. Áhugaleysi fjárveitingavaldsins og forustumanna atvinnuveganna stafar fyrst og fremst af eðlilegum þekkingarskorti, en máttleysi rannsóknastarfseminnar af andvaraleysi stjórnmálamanna og forsvarsmanna rannsóknastofnana. Hinn auðfengni afli undanfarinna ára og áratuga hefur auðvitað haft slævandi áhrif á viðleitni til nýjunga, en það er lífsnauðsyn að nýta betur innlent hráefni, einkum þegar skortur er á því. Hér er um háþróaðan iðnað að ræða sem er ekki mannfrekur en skilar miklu í aðra hönd, og það er sú tegund atvinnustarfsemi sem mannfá, neyslufrek þjóð þarf á að halda.

E. t. v. getur könnun Rannsóknaráðs haft veruleg áhrif til að auka áhuga manna á lífefnatækni, en ljóst er þó að meginniðurstöður hennar verða á sama veg og könnun iðnrn. fyrrum, þ. e. að lífefnatækni lofar góðu en að rannsókna sé jafnframt þörf. Það þarf því að fylgja fast eftir með öflugu rannsóknarstarfi.

Þegar er fyrir hendi vísir að rannsóknum á sviði lífefnatækni við Háskóla Íslands. Þennan vísi verður að styrkja og efla nú þegar svo unnt verði að viðhalda þeirri þekkingu og reynslu sem búið er að byggja upp. og samfelldni nái að haldast í þessum rannsóknum. Ekki er fært að bíða eftir niðurstöðum könnunar Rannsóknaráðs og tilvonandi jákvæðum viðbrögðum“.

Í þessum lokaorðum dr. Jóns Braga koma fram atriði sem ég tel að séu áhugaverð og við ættum aðeins að líta á nánar.

Í fyrsta lagi er sagt að máttleysi rannsóknastarfseminnar á þessu sviði stafi af andvaraleysi stjórnmálamanna og forsvarsmanna rannsóknastofnana. Ef við lítum aðeins nánar á það atriði má það líklega nokkuð til sanns vegar færa.

1974 var skipuð nefnd til að kanna þær hugmyndir sem menn höfðu þá um lífefnavinnslu á Íslandi. Nefndin komst auðvitað að þeirri niðurstöðu að þetta væri hið besta mál og að þarna væru ýmsir möguleikar, það væri ýmiss konar innlent hráefni sem menn gætu auðveldlega gert dýrmætara og þetta væri mál sem ætti að styðja. Það þyrfti að styrkja, efla og athuga nánar.

Átta árum síðar er málið tekið upp aftur á Alþingi, það er 1982, og þá er samþykkt þáltill. um þetta mál þar sem er skorað á Alþingi að athuga hvort þetta sé nú hagkvæmt. Það var búið að athuga það átta árum fyrr að þetta er hagkvæmt.

Tveimur árum áður en Alþingi Íslendinga var að velta því fyrir sér hvort þetta væri hugsanlega hagkvæmt voru aðilar erlendis, eins og t. d. starfshópur rannsóknaráðs breska ríkisins og konunglega breska vísindafélagsins, búnir að komast að því að líftækni mundi, eins og mig minnir að hafi verið nokkurn veginn þeirra orð, skapa algerlega nýtt atvinnulíf með lítilli orkuþörf og muni skipta sköpum fyrir efnahagslíf heimsins á næstu öld. Þetta voru Bretarnir búnir að finna út 1980. Tímaritið Economist segir 1979 eða 1980, ég man ekki alveg hvort, að lífefnaiðnaður muni setja svip sinn á atvinnulíf næstu aldar í jafnríkum mæli og stóriðja efna- og málmiðnaðarins setur svip sinn á þessa öld. Þetta var 1979 eða 1980.

1982 heldur könnunardeild Economist, — það er reyndar sérfyrirtæki, það er deild sem tekur að sér könnun á ýmsum hagfræðilegum málum, — þing í Hollandi um líftækni og um það hvort Evrópumenn gætu yfirleitt verið í þessum bransa. Þá var gefin út skýrsla sem heitir: Líftækni. Mun Evrópa standa sig í kapphlaupinu? eða: Biotechnology. Can Europe stay in the race? Þetta er 1982. Þá eru þegar nægar upplýsingar til þess að þarna kemur saman stór hópur manna, bæði úr fyrirtækjum og rannsóknastarfsemi, og flytur mörg erindi um líftækni, um ýmis vandamál sem henni fylgja, um siðfræðileg vandamál sem eru fylgjandi því að búa til nýjar gerðir lífs, um lögfræðileg vandamál sem því fylgja, um ýmis hagfræðileg mál, þ. e. hversu hagræn þessi iðja er, hvernig samstarfi fyrirtækja og skóla eigi að vera háttað. Það er fjallað um þetta á mjög fjölbreyttan hátt.

Þetta er 1982. Þetta er sama árið og Alþingi Íslendinga er að taka upp þetta mál og „spekúlera“ í því hvort það sé eitthvert vit í þessu. Það var búið að athuga þetta fyrir íslensk stjórnvöld átta árum fyrr. Síðan var þessi þáltill. send í iðnrn., þaðan var hún send í Iðntæknistofnun og síðan hefur ekki heyrst af henni. Ég lít því svo á að dr. Jón Bragi hafi nokkuð til síns máls í lokaorðum sínum þegar hann segir að áhugaleysi fjárveitingavaldsins og forustumanna atvinnuveganna stafi fyrst og fremst af eðlilegum þekkingarskorti, en máttleysi rannsóknastarfseminnar af andvaraleysi stjórnmálamanna og forsvarsmanna rannsóknastofnana.

Ég held að við megum vara okkur á því að verða ekki öðru sinni andvaraleysinu að bráð. Nú hefur verið stofnaður starfshópur skv. skipunarbréfi sem er fskj. nr. V í þessu þskj. Það er Rannsóknaráð ríkisins sem gengst fyrir því að skipa þann starfshóp. Þar eru saman komnir þeir sem vita helst um þessi mál, tæknilega eða líffræðilega, hjá okkur í dag. Þetta er álitlegur hópur vísindamanna. Er áætlað að hann ljúki störfum haustið 1985, en það gæti jafnvel dregist. Sú vinna sem þessi hópur á að inna af hendi er nauðsynleg fyrir almenna stefnumörkun til að gera sér grein fyrir hvaða möguleika við gerum haft og hvernig við eigum að standa að þessu máli. En það er stórkostleg hætta á því að við verðum aftur andvaraleysinu að bráð og segjum sem svo: Rannsóknaráð er byrjað að athuga málið og við skulum bíða og sjá hvað kemur út. Það eru tvö ár þangað til. Ég hygg að það séu eitt og hálft til tvö ár þangað til við getum vænst þess að sú vinna skili sér, nema það verði kannske gefnar út fyrr áfangaskýrslur eða eitthvað þess háttar. Alla vega vitum við miklu meira en nóg um þetta mál til að hefja ýmsar aðgerðir nú þegar. Við megum ekki láta starfshóp Rannsóknaráðs verða til þess að aðrar eðlilegar aðgerðir tefjist.

Hvað er það sem hægt er að gera strax? Eitt af því sem hægt er að gera strax er að mínu mati að kynna þetta mál. Það er þegar vitað nægilega mikið um ýmsa íslenska möguleika, eins og fram kemur í grg. Jóns Braga á bls. 5 í þessu þskj. Þar er talað um vinnslu úr sláturúrgangi. Það er talað um vinnslu úr fiskúrgangi. Það er talað um vinnslu úr loðnumjöli. Það er talað um að nýta hveraörverur. Það er talað um að nýta blóð sláturdýra. Það er talað um að nýta slógmeltu og mysu. Þegar er vitað um ýmis atriði alveg nægilega mikið til þess að hægt sé að kynna þetta mál fyrir ýmsum sem þarna eiga að koma við sögu. Þess vegna er þessi þáltill. flutt. Hún miðar að því að kynna þetta svið. sem er að mörgu leyti upplagt fyrir framtak og sjálfsbjörg heimamanna og einstaklinga hér og þar um landið. Þess er óskað að mönnum séu kynntir þeir möguleikar sem þarna eru og að þeir fái að vita hvað lífefnatækni er.

Ég held að slík kynning væri ágætt innlegg inn í þá umræðu sem gengur t. d. hjá okkur í dag, þar sem verið er að tala um að við þurfum nýjar atvinnugreinar til að vinna okkur út úr vandanum, að við þurfum nýjar atvinnugreinar til að gera atvinnulíf fjölbreyttara, að við þurfum að gera eitthvað til að jafna byggð í landinu, til að koma með nýja atvinnumöguleika, ný fyrirtæki á staði þar sem fyrirsjáanlegt er að hinar sígildu atvinnugreinar lendi í vandræðum, t. d. vegna vandræða í sjávarútvegi sökum aflabrests og vandræða vegna byggðaröskunar og þess háttar. Þetta er innlegg líka inn í það að vekja áhuga skóla á að taka upp fræðslu nemenda sinna í þessu. Og þetta er innlegg til þess að vekja áhuga nemenda á þessu sviði. Nemandi sem fer í framhaldsnám á þessu sviði í dag kemur ekki aftur til að sinna forustuhlutverkum í þessum málum fyrr en eftir 5 til 10 ár. Það tekur langan tíma að mennta fólk til forustu í þessum efnum. Þess vegna er nauðsynlegt, af öllum þeim ástæðum sem ég hef talað um, að láta nú þegar hefja kynningu á þeim möguleikum, á þeim verkefnum sem þarna eru. Við vitum þegar nægilega mikið um það mál til að vekja áhuga og til að gera fólki grein fyrir hvað þarna býr á bak við. Við þurfum ekki að bíða. Við erum búin að bíða síðan 1974. Við hefðum getað byrjað 1974. Þá skilaði nefnd niðurstöðum sem hefðu átt að vera nægar til þess að hefjast handa. En þá hefur líklegä verið sæmilegur afli. Ég hef reyndar ekki aflatölurnar í kollinum, en líklega hefur verið það þokkalegur afli þá að menn hafa ekki séð ástæðu til að vera neitt að brydda upp á nýjungum.

Í framhaldi af þessari kynningu, sem ég álít að sé tímabær og möguleg, eru fleiri atriði sem við ættum að hyggja að nú þegar. Það er t. d. fjármögnun á þeirri starfsemi sem er fyrir í landinu af þessu tagi. Það er líka vikið að þeim atriðum í lokaorðum grg. Jóns Braga Bjarnasonar. Hann tekur svo til orða, með leyfi forseta:

„Eins og fyrr greindi er helsti þrándur í götu þróunar lífefnatækninnar á Íslandi áhugaleysi og skortur á rannsóknarviðleitni.“

Hann talar síðan um áhugaleysi fjárveitingavaldsins o. fl. Ég held að það sé mjög mikilvægt að styrkja þá viðleitni sem er þegar fyrir hendi í rannsóknum hérna, bæði hjá rannsóknastofnunum og skólastofnunum og hjá einstökum fyrirtækjum sem hafa þarna mikilvægum málum að sinna, það er vitneskja fyrir hendi hjá fyrirtækjum í þessu landi, fyrirtækjum sem starfa t. d. í matvælaiðnaði, eins og fiskiðnaði. mjólkuriðnaði og þess háttar. Þar er aðstaða, þar eru rannsóknastofur, þar eru hráefni, þar er fólk sem gæti vel sinnt þessu hlutverki ef það væri vakinn á því áhugi og ef það væri mörkuð einhver stefna. Sömuleiðis eru fyrirtæki í efnaiðnaði af ýmsu tagi sem mundu vafalaust geta hugsað sér að fara inn á þetta svið ef þetta væri kynnt og vakinn á því áhugi. Því tel ég að fjármögnun nú þegar sé verkefni sem menn ættu að sinna.

Við skulum minnast þess að við erum þessa dagana að tala um ýmis stórverkefni. Við erum að tala um að renna til tugum og hundruðum milljóna, t. d. innan sjávarútvegs, með einstökum breytingum á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð, með breytingum á lögum um útflutningsgjald. Við erum að renna milljónahundruðum til og frá í sjóðakerfinu. Á sama tíma hef ég fregnað að það hafi tekist að kreista 200 þús. kr. út úr sjóðum þjóðarinnar til að koma í veg fyrir að það stöðvaðist rannsóknaviðleitni sem þegar er haldið uppi við Háskólann í þessu efni. 200 þús. krónur! Ég komst einhvern veginn þannig að orði í blaðagrein sem ég skrifaði um þetta mál í mars s. l., að ef við ætlum okkur hlut í framtíðinni verðum við að kaupa hlutabréf strax í dag. Við gerum það með því að segja námsfólki okkar frá möguleikunum og hugmyndum okkar um lífshætti morgundagsins. Við gerum það með því að styrkja rannsóknir á íslenskum möguleikum líftækninnar. Þar mundi stórkostlega muna um fjárstyrk þó ekki væri meiri en sem nemur ferðastyrkjum og dagpeningum stóriðjunefndarinnar.

Menn skulu nefnilega gera sér grein fyrir að í þessari vinnu munar um hvern þúsundatuginn. Það munar um hvern einn mánuð sem hægt er að fá fólk til að vinna að þessum efnum. Við eigum þegar mikla aðstöðu fyrir í landinu. Við eigum rannsóknatæki. Við eigum gott fólk og húsnæði handa því og það er áhugasamt. Og við þurfum ekki að bíða til haustsins 1985 eftir útkomunni hjá starfshópi Rannsóknaráðs til þess að efla þessa viðleitni, sem er þegar fyrir hendi. Ég tel því að fyrir utan kynningu sé fjármögnun atriði sem við ættum að snúa okkur að strax.

Í þriðja lagi nefni ég atriði sem þarf að sinna í sambandi við lífefnaiðnað. Það er skipulagning hans eða skipulagning rannsóknaviðleitninnar. Ég held að þegar menn fjalla um það mál sé athyglisvert að gefa gaum hvernig samsettur er sá hópur sem Rannsóknaráð ríkisins hefur kallað saman til að vinna að þessum málum. Einstaklingarnir sem þar eru koma frá Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Tilraunastöðinni að Keldum, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Raunvísindastofnun Háskólans, Rannsóknastofu í veirufræði, Iðntæknistofnun Íslands og formaður nefndarinnar frá Raunvísindastofnun Háskólans. Þarna eru tilgreindar stofnanir þar sem þegar eru fyrir hæfir einstaklingar. Þarna eru tilgreindar stofnanir sem þegar eiga tæki, eiga bókakost, eiga húsnæði, eiga aðstoðarfólk og annað sem er uppspretta að þessu. Í öllum þessum stofnunum vinna einstaklingar sem standa föstum fótum í hópi samstarfsmanna og þess umhverfis sem þar hefur tekist að skapa. Það er upp úr þessum fjölskrúðuga akri sem ég held að lífefnaiðnaðurinn hljóti að spretta. Ég held að nytsamlegt sé að gera sér grein fyrir þessu þegar við gerum tillögur um skipulag á þessari starfsemi. Ég tel að fyrir næstu 5 eða 10 árin sé nægilegt og skynsamlegast í þessum efnum að mynda formlegan samstarfshóp þar sem fulltrúar frá þessum einstöku stofnunum hefðu með sér formlegt samstarf, t. d. í sambandi við skipulagningu verkefna, í sambandi við tækjakaup og í sambandi við aðstoðarfólksráðningar og þess háttar, en að þeir haldi hver sínum vinnuvettvangi til þess, eins og ég segi, að nýta þá aðstöðu sem þar er fyrir hendi og það umhverfi sem þeir koma úr. Í framhaldi af því er náttúrlega óumflýjanlegt að sníða þessu einhvern þrengri stakk, en ég tel að næstu 5 til 10 árin eigi að styrkja þessa starfsemi í þeim sporum sem hún vex upp úr núna.

Ég hef minnst hérna á þrjú atriði sem ég tel að skipti höfuðmáli. Það er í fyrsta lagi kynning, það er í öðru lagi fjármögnun og það er í þriðja lagi framtíðarskipulag. Af því að verið er að tala um framtíðarskipulag ætla ég að ljúka þessu með því að minna á atriði sem hefur kannske ekki verið mikið rætt þegar menn tala um líftækni hérna á Íslandi. Við tökum eðlilega það sem okkur stendur nær, sem er nýting á ýmsum hráefnum sem eru tilfallandi í okkar atvinnuvegum. En langtímamarkmiðin og stóru vonirnar eru tengdar við annað. Þær vonir eru tengdar við möguleika á því að búa til nýjar lífverur, eins og nýja gerla sem geti tekist á við algerlega ný verkefni. Á þessu ári og undanförnum árum hefur slíkt náð einna lengst í Ameríku, þar sem slíkar aðferðir hafa verið notaðar til að framleiða mjög dýr efni, eins og hormóna og þess háttar sem mannfólkið vantar stundum í öngum sínum. Það er hægt að beita svokölluðum erfðaverkfræðilegum aðferðum við að búa til nýjar lífverur sem geta breytt hráefnum yfir í ný framleidd efni. Það er á þessu sviði sem hinar stóru vonir eru. En það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að á þessu sviði verðum við kannske að vera tilbúin að eyða í dag og uppskera ekki fyrr en löngu, löngu síðar. Ég sá nýlega tölur um að árið 1982 hafi sú grein staðið nokkurn veginn þannig að búið var að verja til rannsókna í henni um 500 millj. dollara en verslunarlegur afrakstur var um 10 millj. dollara. Það er því enn þá langt í land. Það gengur vel, það eru miklar framfarir, en það er kannske enn þá langt að bíða þess að við getum notað þessar erfðaverkfræðilegu aðferðir við nærtæk verkefni sem við mundum kannske vilja huga að. En þetta eru langtímamarkmið sem við þurfum að hafa í huga.

Til þess að draga þetta saman tel ég að okkar verkefni, sem við eigum þegar að snúa okkur að, sé að kynna þessi mál fyrir öllum sem þau koma til með að snerta í framtíðinni og að veita fjármagni til þeirrar starfsemi sem er þegar fyrir hendi í landinu og huga í framhaldi af því að framtíðarskipulagi sem ég tel að eigi að taka mið af þeim jarðvegi sem þessi viðleitni vex upp úr í dag.

Að lokum legg ég til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. atvmn.